Hamra járnið meðan það er heitt: Föst orðasambönd sem endurspegla (forna) atvinnuhætti, iðn og handverk
Hamra járnið meðan það er heitt: Föst orðasambönd sem endurspegla (forna) atvinnuhætti, iðn og handverk
Í Veröld 008 laugardaginn 8. mars kl. 13:00-14:00.
Í þessari málstofu verður fjallað um föst orðasambönd. Sjónir beinast einkum að því hvernig verkmenning, atvinnuhættir og iðn (fyrri tíma) endurspeglast í orðasamböndum í þeim tungumálum sem hér eru í brennidepli: íslenska, danska, franska, spænska og þýska. Athyglin beinist annars vegar að orðasamböndum sem eru algild, það er, þau sem koma fyrir í mörgum tungumálum heims, og hins vegar þeim sem eru sértæk, það er að segja, þau sem eru bundin við eitt tungumál eða afmarkað málsvæði.
Eitt af mörgum orðasamböndum úr flokki þeirra sem kallast algild er hamra járnið meðan það er heitt sem fellur undir járnsmíði og er yfirfærð merking þess ‚þurfa að notfæra sér hagstæðar aðstæður‘. Á spænsku er sagt al hierro candente, batirlo de repente, á þýsku das Eisen muss man schmieden solange es heiß ist, á dönsku er smede mens jernet er varmt og í frönsku il faut battre le fer tant qu'il est chaud. Annað dæmi um þannig orðtak er vera vatn á myllu einhvers ‚e-ð er gagnlegt‘, á þýsku Wasser auf seine Mühle sein, á spænsku llevar agua para su molino (veita vatni á eigin myllu) ‚e-ð hentar e-um‘, á frönsku apporter de l'eau à son moulin og dönsku som vand på mølle ‚e-ð hentar e-um‘. Orðasambönd sem flokkast sem sértæk eða svæðisbundin eru til dæmis draga ýsur ‚dotta‘ í íslensku, cortar el bacalao (slægja þorskinn) ‚taka af skarið‘ í spænsku og kleine Brötchen backen (baka rúnstykki) ‚vera hógvær‘ á þýsku. Á dönsku er maður en lille fisk ‚vasaþjófur‘ og á frönsku toujours pêche qui en prend un poisson ‚sá fiskar sem fær fisk‘.
Fyrirlestrar
Verkmenning, atvinnuhættir, iðn og handverk eru mikilvæg uppspretta fastra orðasambanda og í þeim endurspeglast margs konar atvinnuhættir viðkomandi málsvæðis. Föst orðasambönd sem komin eru úr sjómannamáli eru til dæmis mun fleiri í íslensku en í þýsku. Í þýsku finnast fleiri föst orðasambönd úr hernaði, lagamáli og kaupmennsku. Í erindinu verður fjallað um valin þýsk föst orðasambönd sem upprunin eru í handverki og atvinnuháttum. Annars vegar verður stuttlega litið til fastra orðasambanda sem eru algild, þ.e.a.s. þau er að finna í mörgum tungumálum. Megináherslan verður hins vegar á uppruna sértækra þýskra orðasamband sem endurspegla og varðveita atvinnuhætti fyrir tíma. Kleine Brötchen backen (‚baka lítil rúnnstykki‘) sprettur upp úr bakarahandverki, en hvaðan koma blau machen og Schuster, bleib bei deinem Leisten?
Í þessum fyrirlestri er ætlunin að fjalla um nokkur orðasambönd í íslensku og spænsku sem eiga rætur í verkmenningu og iðn fyrri tíma. Orðasamböndin sem urðu fyrir valinu eru hitta naglann á höfuðið, ‚hafa á réttu að standa‘ (ÍNO), sem á spænsku er dar en el clavo, (eiginleg merking: „hitta naglann“) (DLE) og hamra járnið meðan það er heitt, ‚nýta sér tækifærðið meðan það gefst‘ (ÍNO), en á spænsku er sagt al hierro candente, batirlo de repente (eiginleg merking: „hamra járnið með hraði á meðan það er heitt“) og einnig batir el cobre, ‚hamra koparinn‘ (DLE). Þessi orðasambönd fyrirfinnast í ýmsum tungumálum heims og teljast fyrir vikið algild (e. universal). Hér er ætlunin að grafast fyrir um úr hvaða jarðvegi orðasamböndin spretta, í hvaða heimildum eða textum þau koma fyrst fyrir og merkingu þeirra fyrr og nú.