
Í Veröld 007 laugardaginn 8. mars kl. 10:00-12:00.
Í málstofunni verða kynnt nokkur rannsóknarverkefni innan námsbrauta í dönsku og sænsku við Mála- og menningardeild. Rannsóknarviðfangsefnin spanna nokkuð breitt svið innan bókmennta, listfræði og þýðingarfræða. Meðal þess sem fjallað verður um er samtímalist í ljósi nýlendusögu Dana og hvernig megi lesa verk Solvej Balle Um rúmmálsreikning I-V sem viðbrögð við loftslagsbreytingum og út frá kenningum um jarðnesk tengsl og vistrýni. Einnig verður fjallað um rómantík, táknfræði og súrrealisma í ljóðum Piu Tafdrup og hvernig líta megi á ljóðskáldið sem spámann sem sér út fyrir mörk skynseminnar og að lokum hvernig gervigreind er byrjuð að móta bókmenntir og þýðingar á þeim. Í því samhengi verður meðal annars fjallað um tilraunir til að hugsa gervigreind sem verkfæri sem megi nýta í tungumálakennslu á háskólastigi.
Þátttakendur í málstofunni eru Gísli Magnússon, prófessor í dönsku, Sigrún Alba Sigurðardóttir, doktorsnemi í dönsku, Mikael Nils Lind, aðjúnkt í sænsku við Mála- og menningardeild Háskóla Íslands, Mette Kia Krabbe Meyer, rannsóknarsérfræðingur við Det kongelige bibliotek i Kaupmannahöfn, og Ann-Sofie N. Greamaud, dósent í dönsku.
Fyrirlestrarnir verða fluttir á dönsku og sænsku.