Hetjur, kreppur og heimsveldi

Í Árnagarði 310 föstudaginn 10. mars kl. 13:15-14:45. Smellið hér til að fylgjast með streymi.

Í þessari málstofu verður hugað að dæmum úr samtímabókmenntum um hetjur í fjölbreyttu samhengi. Skoðað verður hvernig hetjur birtast í skáldsögum, glæpasögum og sjálfsævisögulegum skrifum og hvernig þær bregðast við og/eða eru viðbragð við samfélagslegum og sögulegum þáttum á borð kyn, kreppur, fólksflutninga og heimsveldi. Þá verður rætt um hvernig söguhetjur verkanna sem fjallað verður um tengjast hugmyndum um fortíðina, eins og þær birtast í menningarlegu minni, til dæmis í nostalgískum hugmyndum um gullöld þjóða eða samfélaga.

Fyrirlestrar

Hugmyndir um sérstöðu norrænna manna gagnvart heimsvaldastefnu birtast í bókmenntum og dægurumræðu frá upphafi 20. aldar. Hin frjálsa norræna hetja er nútímamaður með tengsl við náttúru landsins sem á auðveldara með að leggja undir sig heiminn en gömlu heimsveldin þar sem hann ekki er bundinn í valdakerfi þeirra. Hvítt sakleysi leikur lykilhlutverk í frásögn af norrænum hetjum og dregið er úr tengslum norrænna manna við þrælaverslun og nýlendustefnu. Þessi norræna hetja birtist lesendum ljóslifandi í bók Jo Nesbø Fladdermusmannen (1997) þar sem norska rannsóknarlögreglumanninum Harry Hole er gert að aðstoða áströlsk yfirvöld við rannsókn á morði á norskri stúlku. Í fyrirlestrinum skoðum við hvernig verkið tekst á við hugmyndir um heimsveldi og hvítleika og hvernig unnið er með hugmyndir um stöðu frumbyggja og hinsegin fólks í samhengi við norræna heimsvaldahyggju.

Í erindinu fjalla ég um hugmyndina um kreppukvenhetjuna (e. recessionnista) sem bókmenntafræðingar skilgreina sem söguhetju hrunbókmennta; skáldsagna sem komu út á tímabilinu eftir fjármálahrunið 2008 og takast á við atburðina. Kreppukvenhetjan endurspeglar hrun vestrænnar bankakarlmennsku og leiddi til þess að konur fengu tækifæri til að láta að sér kveða og taka við stjórninni, tímabundið. En hvernig lítur þessi kreppukvenhetja út í íslensku samhengi? Í erindinu mun ég velta því fyrir mér með því að rýna í tvær hrunbækur íslenskra kvenhöfunda; Samhengi hlutanna eftir Sigrúnu Davíðsdóttur og Jarðnæði eftir Oddnýju Eir Ævarsdóttur. Í skáldsögu Sigrúnar kynnumst við rannsóknarblaðakonunni Huldu sem rannsakað hefur fjármálaglæpi íslenskra athafnamanna. Jarðnæði er aftur á móti sjálfsævisögulegt verk þar sem höfundur skrásetur viðbrögð sín við fjármálakreppunni, sem einkennast meðal annars af uppbyggilegri nostalgíu og vistfemínísku endurliti til eldri sjálfbærari tíma.

Innflytjandinn sem hetja var algengt mótíf í minningabókum innflytjenda í Bandaríkjunum um þarsíðustu aldamót. Hinn verðugi innflytjandi kemur allslaus til nýja heimsins og sigrar hann. Þessi hetjumynd birtist gjarnan í því að innflytjandanum tekst að losa sig við fortíð sína – gamla landið, tungumál þess og menningu – og þessa hugmynd má enn sjá í pólitískri umræðu um innflytjendur. Í skoðunum sem þar birtast má gjarnan sjá kröfu um það að innflytjandinn segi skilið við fortíð sína og endurfæðist í nýjum heimi (á meðan Íslendingafélög í útlöndum halda Þorrablót). Í þessum fyrirlestri verður velt upp spurningunni um hvers konar gleymsku er krafist af innflytjandanum? Hvers konar rof verður til milli fortíðarinnar og núsins og hvernig reyna höfundar að brúa bilið sem til verður? Rýnt verður í þau flóknu viðhorf til fortíðarinnar sem birtast í verki Mary Antin, The Promised Land (1912), og einnig horft til fólksflutninga á okkar tímum og möguleikanna á því að hafa fortíðina með sér í farteskinu.