Holt og hæðir. Þverfagleg málstofa á mærum heims og handanheims

Image

Holt og hæðir. Þverfagleg málstofa á mærum heims og handanheims

Í Árnagarði 310 föstudaginn 8. mars kl. 15:15-16:45.

Í þessari þverfaglegu ráðstefnu nálgast fræðimenn á sviði heimspeki, bókmenntafræði og guðfræði holt og hæðir úr ýmsum áttum. Að sjá gegnum holt og hæðir er oft tengt skyggnigáfu og handanheimum. Að fara um og yfir holt og hæðir getur merkt að fara út um víðan völl og um langan veg. Holt vísa til landslags sem er mishæðótt, gróðurlaust og grýtt, en holtið þýddi einnig skógur í fornu máli og tengist þannig iðandi vistkerfum. Hægt er að hugsa um holt og hæðir sem andstæðupar í yfirfærðri merkingu sem jörð og upphimin, heim og handanheim. Í safnaheimi þjóðsagna og helgisagna eru hvort tveggja holtin og hæðirnar þrungin af iðandi lífi, ástum og amstri sem kallast á við glímur mennskunnar. Holtin og hæðirnar skapa þannig óræð, fjölbreytt og dulúðug millirými sem áhugavert er að rýna í með aðferðum hugvísinda.

Fyrirlestrar

Ég tengi orðalagið „holt og hæðir“ fyrst og fremst við Gegnum holt og hæðir, sem er safn af þjóðsögum um drauga, galdramenn, og seið (og það er einnig til ljóð í þessum dúr). Þó svo að þessi fyrirbæri þyki ókristileg, jafnvel andkristileg, er allt slíkt tengt hinu andlega og hinu yfirnáttúrulega og hinu óveraldlega – og er að mínu mati svo sannarlega trúarlegs eðlis. Út frá þessu mætti velta fyrir sér hvað það þýði að vera „trúarlegs eðlis“. Í þessari ræðu ætla ég að velta þessari spurningu fyrir mér. Það vill svo til að það eru ekki til neinar viðteknar skilgreiningar um hvað það felur í sér að vera trúarlegs eðlis, eða andlegs eðlis, eða trú. Ég mun skoða nokkrar hugmyndir um eðli þessara fyrirbæra og athuga að hvaða leyti hægt sé að tala um seið sem afbrigði af „norrænni forntrú“ eins og honum hefur stundum verið lýst.

Lockwood, sögumaður skáldsögunnar Wuthering Heights, lýsir býli Heathcliffs á eftirfarandi hátt í sögunni: „maður getur ráðið styrk norðanvindsins þegar hann blæs yfir heiðina á því hvernig fáeinir kyrkingslegir þinir leggjast næstum því alveg á hliðina við húsgaflinn, og af röð af renglulegum þyrnirunnum sem allir teygja limar sínar í sömu átt eins og þeir beiðist ölmusu af sólinni.“ Í þessari náttúrumynd má greina nokkur af viðfangsefnum skáldsögunnar sem vinnur með brot á landamærum og leggur áherslu á mörk á milli heima þar sem handanheimslegar og ógnandi greinar þrá að komast inn í húsið og mögulega taka það yfir. Einnig má sjá hvernig náttúruöflin, vindurinn og ljósið vinna saman sem ein heild í því að ná „inn fyrir þröskuldinn“, fara yfir í hinn heiminn, kollvarpa honum, gera annarlegan og óþekkjanlegan.

Í Völuvísu Guðmundar Böðvarssonar brýnir völvan fyrir þeim sem á hana hlusta að líf liggi við að þau bregði ekki tryggðum við sína huldumey. Huldumeyjan sem ekki má svíkja getur allt í senn staðið fyrir landið sjálft, ættjarðarástina eða þá menningu sem tengir sögurnar við landið.  Álfatrúin íslenska á sér hliðstæðu í sagnaarfi Sama, þar sem huldufólkið er nefnt ulddat. Á tímum loftslagsvár hafa fræðimenn í vaxandi mæli beint sjónum að fornri menningu árþjóða sem geymir þekkingu á tengslum við land á tímum hamfara. Árþjóðafræði leggja gjarnan áherslu á aðferðir þar sem sagan og landið mynda eina heild. Þar er sögunni fléttað saman við samhengið sem sagan er sögð í og hvernig hlustað er eftir því sem fram fer. Í fyrirlestrinum verður leitað svara við spurningunni um það hvernig slíkar aðferðir geti haft áhrif á hagnýta guðfræði holta og hæða á tímum loftslagsbreytinga.