Íslenska rammagerðin: Aðlögun íslenskuprófa að Evrópska tungumálarammanum
Íslenska rammagerðin: Aðlögun íslenskuprófa að Evrópska tungumálarammanum
Í Veröld 008 föstudaginn 7. mars kl. 13:15-16:45.
Síðastliðið ár hefur hópur sérfræðinga í íslensku sem öðru máli og máltækni unnið að þróun stöðumats í íslensku sem öðru máli með það að markmiði að samræma mat á íslenskukunnáttu málnema og auðvelda þeim að nýta færni sína á vinnumarkaði og í skólakerfinu.
Stöðumatið verður byggt á Evrópska tungumálarammanum (e. Common European Framework of Reference for Languages – CEFR) en ramminn hefur verið notaður víða sem grunnur að námskrám, námsefni og námsmati í tungumálakennslu. Þar eru sett fram algild viðmið og lýsing á tungumálafærni á sex stigum (A1, A2, B1, B2, C1, C2). Lýsing rammans er ekki málsértæk og því þarf að útfæra stigin sérstaklega í hverju tungumáli.
Í þessari málstofu verður sagt frá vinnu við gerð stöðumatsins og aðlögun íslensku að viðmiðum rammans.
Fyrirlestrar
Í fyrirlestrinum verður sagt frá þróun stöðumats í íslensku sem öðru máli byggt á Evrópska tungumálarammanum (CEFR). Fjallað verður stuttlega um hugmyndafræði rammans en hann var þróaður af Evrópuráðinu með það að markmiði að samræma viðmið og staðla lýsingu á markmiðum og árangri í tungumálanámi milli landa innan Evrópu.
Greint verður frá framvindu verkefnisins, rannsóknarvinnu starfshópsins á síðasta ári og þeim verkefnum sem fram undan eru. Þróunarverkefnið er unnið í samvinnu sérfræðinga á sviði máltækni og íslensku sem öðru máli í Háskóla Íslands og Háskólanum í Reykjavík. Máltæknihlutinn felst í þróun hugbúnaðar sem greinir texta og ákvarðar hvaða færnistigi hann tilheyrir. Grunnvinnan felst þó í að lýsa færnistigunum sjálfum í tileinkun íslensku sem annars máls með hliðsjón af Evrópska tungumálarammanum og útbúa greiningarviðmið sem skýra hvað málnemar þurfa að kunna á hverju stigi.
Einnig verður rætt um samfélagslegan ávinning verkefnisins. Stöðuprófin eru til að mynda mikilvæg til að auðvelda fólki með íslensku sem annað mál að fá tungumálakunnáttu sína metna í skólakerfinu og á íslenskum vinnumarkaði. Þá mun aðlögun íslensku að Evrópska tungumálarammanum stuðla að auknu samræmi í námi og kennslu í íslensku sem öðru máli á öllum skólastigum og skýra kröfur til annarsmálshafa og fræðsluaðila.
Í fyrirlestrinum verður sagt frá fyrstu skrefum við gerð og þróun rafræns stöðumats í íslensku sem öðru máli. Fyrsta verkefni hópsins var að þróa formlegt tungumálapróf í ritun og tengja það við færnistig Evrópska tungumálarammans. Fyrst verður sagt frá undirbúningsvinnu við gagnasöfnunina sem fólst í hugtaka- og þýðingarvinnu viðmiðanna í Evrópska tungumálarammanum og gerð fyrirmæla fyrir ritunarprófið. Þá verður sagt frá gagnasöfnuninni sjálfri og að lokum mati á ritunartextunum. Við matið voru tekin mið af lýsingum og skilgreiningum á ritun í Evrópska tungumálarammanum (CEFR, 2020).
Í þessum fyrirlestri verður fjallað um tölfræðilega greiningu á ritunartextum annarsmálsnema í íslensku og hvernig gagnasöfn nýtast til að meta færnistig þeirra samkvæmt CEFR tungumálarammanum. Greiningin byggir á tveimur gagnagrunnum: IceL2EC, villumálheild fyrir annarsmálsíslensku, og nýju málnemamálheildinni, sem inniheldur ritunartexta sem safnað var við staðlaðar prófaðstæður. Þessi gagnasöfn eru notuð til að greina einkenni málfræði og orðaforða íslenskunema og tengja þau mismunandi CEFR getustigum.
Einnig verður fjallað um áskoranir í gagnasöfnun og greiningu með notkun málvinnslu þar sem sérstök einkenni millimáls valda erfiðleikum fyrir máltæknitól sem eru búin til fyrir þáttun, lemmun og mörkun íslenskra gagna. Fyrirlesturinn varpar ljósi á mikilvægi staðlaðra gagnasafna fyrir íslensku sem annað mál og notkun þeirra í sjálfvirkri greiningu og mati á ritunarhæfni annarsmálsnema.
Í fyrirlestrinum verða kynntar niðurstöður þversniðsrannsóknar á málfræðitileinkun íslensku sem annars máls. Tilgangurinn er fyrst og fremst að ákvarða hvaða málsértæka kunnátta í málfræði tilheyri færnistigunum A2, B1 og B2 innan Evrópska tungumálarammans. Gögnin voru unnin úr ritunartextum sem safnað var fyrir gerð og þróun stöðumats í íslensku sem öðru máli við HÍ. Textarnir voru fyrst metnir á stig Evrópurammans og síðan settir á stigveldi úrvinnslukenningarinnar (e. Processability theory; Pienemann 1998, 2005) út frá völdum setningarlegum og beygingarlegum formgerðum, s.s. tölu nafnorða, samræmi í nafnlið, forsetningafalli, samræmi frumlags og sagnfyllingar/sagnar og viðtengingarhætti.
Í fyrirlestrinum verður fjallað um framkvæmd og tilgang lestextasöfnunar og -greiningar við þróun á lýsingu íslensku sem annars máls innan stiga Evrópska tungumálarammans (e. Common European Framework of Reference for Languages) og þróun stöðuprófa sem tengjast honum. Sístækkandi gagnasafn byggist á lestextum sem eru flokkaðir handvirkt á stig Evrópska tungumálarammans og máltæknitól síðan nýtt til þess að vinna úr safninu upplýsingar um hvert stig, einkum um setningagerð og orðaforða. Afurðin verður m.a. tól sem greinir texta og metur sjálfvirkt á stig Evrópska tungumálarammans. Gagnasafnið skiptist í þrjá undirflokka: 1) Fjölbreyttar textategundir, einkum úr Risamálheildinni. Þessi hluti verður hryggjarstykkið í gagnasafninu og tryggir að safnið sé nógu stórt til að máltækniniðurstöður séu marktækar og hægt sé að þjálfa sjálfvirka flokkara. 2) Námsefni í íslensku sem öðru máli. Teknar verða saman meginniðurstöður um orðaforða, málfræði og setningagerð hvers stigs. 3) Textum verður safnað með það fyrir augum að þeir nýtist í stöðupróf í íslensku sem öðru máli. Þar sem nauðsynlegt þykir verða textar lagaðir að stiginu sem þeim er ætlað að prófa. Þessir textar verða valdir síðast inn í gagnasafnið, þar sem aðlögun þeirra mun að vissu marki taka mið af niðurstöðum greiningar á textum í 1) og 2).
Í fyrirlestrinum verður sagt frá undirbúningi og þróun formlegs tungumálaprófs í munnlegri færni í íslensku sem öðru máli og tengingu þess við færnistig A2, B1, og B2 innan Evrópska tungumálarammans (CEFR). Fyrst verður fjallað um verkefni hópsins við undirbúning prófsins sem fólst m.a. í þróun íslensks matskvarða í tali sem byggir á lýsingum á stigum Evrópska tungumálarammans og þjálfun matsmanna sem meta færni í tali út frá þessum stöðluðu matskvörðum. Þá verður sagt frá gagnasöfnuninni (eða prófinu sjálfu) og að síðustu frá niðurstöðum matsmanna á prófinu.