Íslenska sem annað mál: Evrópski tungumálaramminn og fagtengd námskeið

Í Lögbergi 201 föstudaginn 10. mars kl. 15:15-16:45. Smellið hér til að fylgjast með í streymi.

Í þessari málstofu verður sjónum beint að kennslu og tileinkun íslensku sem annars máls. Skoðaðir verða þættir á borð við málfræði og orðaforða og tileinkun þeirra samkvæmt mismunandi erfiðleikastigum með hliðsjón af Evrópska tungumálarammanum. Svo verða rædd íslenskunámskeið fyrir leikskólastarfsfólk á grundvelli samstarfs Menntafléttunnar og Íslenskuþorpsins.

Málstofan verður túlkuð á íslenskt táknmál.

Branislav Bédi kynnir fyrirlesara og stýrir umræðum.

Fyrirlestrar

Innan annarsmálsfræða hafa fræðimenn lengi haft augastað á þróunarröð í máltileinkun og leitast við að svara því í hvaða röð málnemar tileinka sér tiltekna þætti markmálsins og hvernig sú tileinkun fer fram.

Í Evrópurammanum (Common European Framework of Reference for Languages (CEFR; Council of Europe 2001)) er sett fram algild lýsing á samskiptafærni málnema í 6 stigum (A1, A2, B1, B2, C1 og C2) fyrir færniþættina fjóra (lestur, hlustun, ritun og tal). Evrópuramminn er notaður víða sem grunnur að námskrám, námsefni og námsmati í tungumálakennslu. Úrvinnslukenningin (Processability Theory; Pienemann 1998) er algild lýsing á þeim hugrænu málfræðiúrræðum sem málnemar hafa á valdi sínu á 6 stigum úrvinnslustigveldisins.

Í módelum þar sem sett eru fram algild viðmið verður lýsingin á þeim að vera nógu víð til að rúma öll tungumál. Það gefur því augaleið að þar eru engin málsértæk viðmið; þau verður að skilgreina fyrir hvert tungumál fyrir sig. Í Evrópurammanum eru engar skilgreiningar á því hvaða málfræðiatriði tilheyra hverju stigi. Það er því freistandi að skoða hvort hægt sé að nýta niðurstöður rannsókna innan úrvinnslukenningarinnar til að setja fram skilgreiningar innan Evrópurammans á því hvaða málfræðiatriði eigi að kenna, hvenær og í hvaða röð það eigi að gera.

Í þessu erindi verður fjallað um verkefnið „Mikilvægur orðaforði fyrir fjöltyngi og vélþýðingar“ sem er unnið á Mennta- og Hugvísindasviði HÍ svo og Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Meginmarkmið verkefnisins er að efla lesskilning og skilning mikilvægs orðaforða þeirra ungmenna sem hafa íslensku sem annað mál með 30 frumsömdum smásögum sem verða svo þýddar á sex tungumál.

Í fyrirlestrinum verður sjónum sérstaklega beint að tveimur þáttum sem liggja til grundvallar verkefninu, þ.e. orðaforða samkvæmt lista yfir íslenskan námsorðaforða á lagi 2 (LÍNO-2) annars vegar og málfræði hins vegar. Að auki verður fjallað um tengingu þessara þátta við Evrópska tungumálarammann.

Í erindinu verður sagt frá samstarfi Menntafléttunnar og Íslenskuþorpsins um fagtengd íslenskunámskeið fyrir leikskólastarfsfólk með íslensku sem annað mál. Samstarfið hófst snemma árs 2022 og námskeið með hátt í 100 þátttakendum hefur staðið yfir frá hausti 2022 og lýkur vorið 2023. Þátttakendur eru starfsfólk leikskóla með annað móðurmál en íslensku en jafnframt eru virkir þátttakendur á námskeiðinu mentorar og leikskólastjórar í leikskólum þátttakenda.

Menntafléttan er viðamesta starfsþróunarverkefni stjórnvalda hin síðari ár, þar sem áhersla er lögð á að styðja við námssamfélög í skólum og starfsstöðvum þátttakenda. Aðalverkfæri Menntafléttunnar er þróunarhringur um vöxt í starfi, í fjórum skrefum þar sem ígrundun í daglegt starf í samtali jafningja er rauður þráður.

Fræðilegur grunnur Íslenskuþorpsins byggir á rannsóknum á máltileinkun í samskiptum utan kennslustofunnar. Nýjar rannsóknir í máltileinkun ganga út frá því að máltileinkun geti ekki orðið og verði ekki án málnotkunar. Rannsóknirnar sýna jafnframt að það sem skiptir mestu máli er að tala við einhvern sem kann meira í nýja málinu en sá sem lærir og að tungumálanámið fari fram í samhengi við aðstæður.

Í erindinu verður varpað ljósi á það hvernig umgjörð Menntafléttunnar styður við nálgun Íslenskuþorpsins í öllum megindráttum, sérstaklega hvað varðar hryggjarstykkið í námskeiðslíkani Menntafléttunnar, þróunarhring í fjórum skrefum þar sem markvisst samtal jafningja um starfið er í öndvegi.