Íslenska sem annað mál: Hvati og brottfall nemenda

Image

Íslenska sem annað mál: Hvati og brottfall nemenda

Í Odda 106 laugardaginn 9. mars kl. 10:00-11:30.

Erindin í þessari málstofu varpa ljósi á það hvaða þættir liggja að baki hvata til náms svo og brottfalls úr námi hjá nemendum í íslensku sem öðru máli á bæði BA-stigi og í diplómanáminu.

Málstofustjóri verður Branislav Bédi.

Fyrirlestrar

Mikið brotthvarf er meðal BA nemenda í Íslensku sem öðru máli. Aðeins um 16% nemendanna útskrifast í samanburði við 53% grunnnema í Háskóla Íslands sem heild. Í þessu erindi verður sagt frá niðurstöðum könnunar sem lögð var fyrir alla nemendur sem hafa skráð sig í námið síðastliðin tíu ár (2013 til 2023) til að varpa ljósi á brotthvarfið. Niðurstöðurnar sýna meðal annars að 82% núverandi nemenda stefna að því að ljúka náminu með BA gráðu. Reynsla síðustu ára bendir hins vegar til að aðeins einum til tveimur af hverjum tíu muni takast það. Ýmsar vísbendingar komu fram um þær hindranir sem nemendur mæta og koma í veg fyrir að þeim takist að útskrifast, sem ræddar verða í erindinu.

Rannsóknir á námsmynstri og framvindu nemenda í netnámskeiðum sýna jafnan hátt brotthvarfshlutfall og að hættan á brotthvarfi sé einna mest í upphafi námskeiða en þó einnig þegar lengra dregur í náminu (Jordan, 2015; Kolbrún Friðriksdóttir, 2019). Virkni nemenda og þátttaka ræðst af fjölmörgum þáttum sem felast í námsefninu sjálfu og framsetningu þess, kennslufræðinni sem beitt er, stuðningi kennara auk einstaklingsbundinna þátta sem varða nemendur sjálfa (Kolbrún Friðriksdóttir, 2022). Jafnframt eru vísbendingar um að námssamfélög meðal nemenda, eða skortur á þeim, geti haft áhrif á námsframvindu (Margrét Sigrún Sigurðardóttir o.fl., 2023). Í fyrirlestrinum verður vikið að þeim fjölmörgu þáttum sem geta hvatt og latt nemendur í námi og íhugað hvernig byggja má á hugmyndum um námshönnun (e. learning design) til að ýta undir virka þátttöku nemenda. 

Í fyrirlestrinum verður fjallað um breytta kennsluhætti og námsmat á námsleiðinni Hagnýt íslenska sem annað mál á tímum heimsfaraldurs. Leitast var við að halda rafrænni kennslu sem líkastri því sem nemendur áttu að venjast í stofu, en óhjákvæmilega þurfti þó að breyta námsmati. Ítarlega verður farið yfir hvernig lengd, efni og framkvæmd prófa var breytt til að viðhalda gæðum í námsmati og þau áhrif sem slíkar breytingar virðast hafa haft á meðaleinkunn nemendahópsins. Einnig verður farið yfir þróun á brottfalli nemenda á ólíkum tímum faraldursins, samanborið við annirnar á undan og eftir.