Íslenska sem annað mál: stuðningur við nemendur og falltileinkun

Image

Íslenska sem annað mál: stuðningur við nemendur og falltileinkun

Í Árnagarði 311 laugardaginn 8. mars kl. 15:00-16:30.

Í þessari málstofu verður sagt frá rannsóknum á sviði íslensku sem annars máls og einblínt á stuðning, námsefni og kennsluaðferðir svo og fallatileinkun.

Fyrirlestrar

Fjöltyngd börn í íslensku skólakerfi standa marktækt mun verr að vígi í íslenskufærni en eintyngdir jafnaldrar þeirra og skortur er á faglegri þekkingu og hæfni innan skólanna til að meta og mæta menntunarþörfum fjöltyngdra nemenda með ólíkan bakgrunn, eins og nýlegar rannsóknir sýna. Í erindinu verður fjallað um stöðu fjöltyngdra nemenda með ólíkar menntunarþarfir í íslenskum grunnskólum. Sagt verður frá verkefninu „Að tala og læra íslensku í skólum“ (TALÍS) sem byggir á íhlutunarnámsefninu Samræðufélagar og hvernig verkefninu er ætlað að bregðast við þeim áskorunum sem við stöndum frammi fyrir í kennslu fjöltyngdra nemenda í íslensku skólakerfi.

Notkun orðabóka er jafnan talin sjálfsögð í málanámi. Það kann því að koma á óvart að rannsóknir á notkun þeirra, þ. á m. í námi annars máls, séu tiltölulega nýjar af nálinni (Boulton og Cock, 2017; Nesi, 2000).

Í fyrirlestrinum verður fjallað um rannsókn sem er í burðarliðnum en hún beinist að notkun stuðningsmiðla meðal BA-nema á fyrsta ári í íslensku sem öðru máli við HÍ. Þrátt fyrir kynningu á úrvali íslenskra orðabóka og gagnagrunna meðal nemenda við námsleiðina – og hvatningu um notkun þeirra – skortir rannsóknir á því hvaða stuðningsmiðlar eru í raun notaðir af þessum hópi og þá hvernig.

Í fyrsta fasa rannsóknarinnar er byggt á skriflegum gögnum frá fyrsta árs nemum (n = 100) þar sem þeir gera grein fyrir stuðningsmiðlum sem þeir nota við ritun. Frumniðurstöður verða ræddar í fyrirlestrinum en þær benda til þess að nemendur fari um víðan völl í leit sinni að bjargráðum við ritun og að stuðningsmiðlanotkun geti verið með öðrum hætti en vænta mátti.

Í fyrirlestrinum verða kynntar niðurstöður þversniðsrannsóknar á tileinkun falla í íslensku sem öðru máli. Tilgangurinn er að lýsa og skýra tileinkunarstigi falla hjá átta málnemum í íslensku sem öðru máli í samhengi við úrvinnslukenninguna (e. Processability Theory) (Pienemann 1998, 2005). Greint verður frá rannsókn á millimáli átta skiptinema við HÍ, sem tóku eitt byrjendanámskeið (10 ECTS) í íslensku sem öðru tungumáli á meðan á dvöl þeirra stóð. Gögnin voru unnin úr verkefnum (u.þ.b. 1 klukkustund) þar sem þeir voru beðnir um að skrifa setningar eftir myndaröð og byrja setingarnar alltaf á myndinni lengst til vinstri. Gögnin samanstanda af 80 setningum frá hverjum þátttakanda, sem innihalda um það bil 70 sagnir, 120 rökliði, 10 lýsingarorð og 30 forsetningarliði. Við greininguna á frumlags- og andlagsfalli var aðferðarfræði úrvinnslukenningarinnar höfð í huga; uppkomuviðmiðið og dreifirýni. Þegar föllin voru sett á stigin voru til viðmiðunar skoðuð í gögnunum nokkur atriði sem hefur verið raðað á stigveldið í mörgum málum, s.s. tala nafnorða, samræmi í nafnlið, forsetningafall, samræmi frumlags og sagnfyllingar/sagnar, viðtengingarháttur. Niðurstöðurnar verða ræddar í samanburði við niðurstöður úr fyrri rannsóknum á þýsku og rússnesku sem öðru máli.

 

Artoni, D. (2019). Acquiring case marking in Russian as a second language: an exploratory study on subject and object. In C. Bettoni and B. Di Biase (Eds.), Grammatical development in second languages: exploring the boundaries of Processability Theory. Eurosla. Monograph Series 3: 177-212. European Second Language Association.

Baten, K. (2013). The acquisition of the German case System by foreign language learners. Benjamins.

Charters, H., and Grant, M. (2019). Processing alignments: semantic, thematic and structural prominence in Samoan SLA. In K. Baten, M. Van Herrewehge, K. Lochtman and A. Buyl (Eds.), Theoretical and methodological developments in Processability Theory, p. 21-44. Benjamins.

Pienemann, M. (1998). Language Processing and Second Language Development: Processability Theory. Benjamins. 

Pienemann, M. (Ed.). (2005) Cross-Linguistic Aspects of Processability Theory. Benjamins.