Íslenskar kvikmyndir

Image

Íslenskar kvikmyndir

Í Árnagarði 101 laugardaginn 8. mars kl. 15:00-16:30.

Í málstofunni verður fjallað um íslenskar kvikmyndir frá ýmsum hliðum – rætt verður m.a. um það hvort nýbylgju megi finna í íslenskri kvikmyndasögu, hvernig gagnlegt sé að skilja þjóðarbíóshugtakið þegar um örþjóð er að ræða og óstýrilátan kvenleika í hinni sígildu gamanmynd Stella í orlofi.

Fyrirlestrar

Bent hefur verið á að harmleikir og gamanleikir fjalli gjarnan um sömu viðfangsefni, en frá ólíkum sjónarhornum. Stella í orlofi, ástsælasta gamanmynd þjóðarinnar, tekur á vandamálum sem sárt er að reyna á eigin skinni; hjónabandserfiðleikum, framhjáhaldi og alkóhólisma. Þótt Stella hugsi í lausnum og stingi m.a. upp á því að ágóðinn af laxveiði Lionsklúbbsins Kidda renni allur „til byggingar hvíldarheimilis eiginkvenna manna sem drekka um helgar og eru skapvondir morguninn eftir“, reynist náttúrulegur hæfileiki hennar til þess að sjokkera karlmennina í nærumhverfi sínu allra meina bót. Í fyrirlestrinum verður fjallað um húmor sem sprettur úr erfiðleikum og skoðað hvernig „sjokkið“ í Stellu í orlofi getur varpað ljósi á kvikmyndina sjálfa og virkni húmors í henni.

Fjallað verður um fyrstu kynslóðaskiptin sem áttu sér stað í íslenskri kvikmyndagerð en þau áttu sér stað við upphaf sjöunda áratugarins þegar ungir menntaðir kvikmyndagerðarmenn fóru að koma heim úr námi og vildu hefja kvikmyndagerð á landinu til nýrra hæða. Þannig verður jafnframt fjallað um miklar umbreytingar í íslenskri kvikmyndamenningu sem hingað til hefur ekki verið gefinn sá gaumur sem þær verðskulda. 

Að þjóðarhugtakinu er sótt úr ólíkum áttum í hnattvæddum samtímanum. Ríkjabandalög endurskilgreina fullveldishugsjónina og vanmáttur einstakra þjóðríkja andspænis fjölþjóðlegum fyrirtækjasamsteypum, skattaskjólum og eftirlitslausu fjármagnsflæði grefur undan sjálfstæði þeirra og afkomu með margvíslegum hætti. Þá hefur merkingarfræði þjóðarhugtaksins breyst og hún orðið flóknari, bæði með hliðsjón af gagnrýnni orðræðu- og hugmyndafræðigreiningu á þjóðernishugmyndum fortíðar og í ljósi umbreyttrar lýðfræðilegrar samsetningar margra þjóða í samtímanum. Kvikmyndagerð og hugmyndin um þjóðarbíó hafa litast mjög af þessum hræringum og í þessu erindi verður leitast við að draga fram það gildi sem hugtakið þó enn hefur og svo máta það upp á örþjóðarbíó eins og það íslenska og grennslast í því samhengi fyrir um það hvort lykilforsendur haldist stöðugar.