Íslenskt listalíf í stássstofum

Image

Íslenskt listalíf í stássstofum

Í Árnagarði 309 föstudaginn 7. mars kl. 15:15-16:45.

Á 16. og 17. öld skapaðist sú hefð meðal betri borgara á Ítalíu og í Frakklandi að efna til menningarviðburða í heimahúsum. Starfsemi af þessu tagi, sem jafnan var kennd við vettvang sinn, stássstofuna, breiddist hratt út um alla Evrópu og víðar á næstu áratugum. Á þessari málstofu verður hugað að íslenskum heimilum í Reykjavík og á Eyrarbakka á 19. og 20. öld sem þjónuðu líku hlutverki og hið evrópska „salon“. Athyglin beinist meðal annars að Húsinu á Eyrarbakka og Brekkubæ, Unuhúsi og Aðalstræti 6 í Reykjavík.

Fyrirlestrar

Á síðari hluta 19. aldar efldist félagsstarf til muna í Reykjavík eins og Hrefna Róbertsdóttir fjallar um í riti sínu Reykjavíkurfélög: Félagshreyfing og menntastarf á ofanverðri 19. öld (1990). Félagsstarfið var bæði að frumkvæði einstaklinga og hópa og fór ýmist fram í leyni eða fyrir opnum tjöldum. Sem dæmi um einstaklingsframtakið má taka samkomur og vinagleði sem Sigríður E. Magnússon hélt á æskuheimili sínu í Brekkubæ í Grjótaþorpi. Annað dæmi eru menningarkvöldin sem Hólmfríður Þorvaldsdóttir og Jón Guðmundsson ritstjóri héldu á heimili sínu í Aðalstræti 6. Sem dæmi um opinberar samkomur má nefna leiksýningar á Gildaskálanum sem Sigurður Guðmundsson málari og fleiri stóðu að. Sigurður var líka viðriðinn Kvöldfélagið sem starfaði um árabil í bænum og hafði menningarmál og rökræður á stefnuskrá sinni. Thorvaldsensfélagið vann að mannúðar-, kvenréttinda- og menningarmálum en það setti líka upp leiksýningar. Kvöldfélagið var leynifélag karla en Thorvaldsensfélagið opið félag kvenna. Í fyrirlestrinum verður hugað að félagsstarfi í Reykjavík á síðari hluta 19. aldar og þá sérstaklega að tengslum þess við menningarmál af ýmsu tagi. Hvers eðlis var þetta félagsstarf og hvert sóttu aðstandendur þess fyrirmyndir sínar?

Sterk erlend menningaráhrif, einkum dönsk, voru í Húsinu á Eyrarbakka á 19. öld og á fyrstu áratugum 20. aldar. Þar var stunduð fjölbreytt menningarstarfsemi, þar sem rithöfundar og listamenn hittust í einkarými vel stæðra kvenna. Sjá má að miðlun listar fór fram í stássstofum á heimili Guðmundur Thorgrímsen, verslunarstjóra Lefolii-verslunar og stóð kona hans Sylvía Thorgrímsen og seinna dóttir þeirra Eugenía Níelsen fyrir viðburðum gestkomandi og höfðu þær mæðgur tök á að miðla listinni áfram til fólks sem þangað leitaði. Í fyrirlestrinum verða ytri aðstæður og innra starf þeirra mæðgna í Húsinu skoðuð með hliðsjón af dönskum salon-gestgjöfum og líkur að því leiddar að evrópsk salon-menning hafi verið iðkuð á Eyrarbakka.

Í skrifum sínum um salon-menningu í París á tímum Upplýsingarinnar, m.a. í bókinni The Republic of Letters: A Cultural History of the French Enlightenment (1994), andmælir bandaríski sagnfræðingurinn Dena Goodman því útbreidda viðhorfi að þær vel stæðu konur sem opnuðu þar stássstofur sínar fyrir menntamönnum og listamönnum hafi öðru fremur látið stjórnast af hégómagirnd. Hún leggur áherslu á að starfsemin hafi miðað að því að skapa þekkingarrými þar sem lögmál hefðbundinnar stéttskiptingar voru numin úr gildi og lögð drög að lýðræðislegri samfélagsskipan. Stássstofan hafi í raun verið óformlegur skóli þar sem gestir, ekki síst konur, fengu aðgang að margháttaðri þekkingu sem þeim stóð ekki til boða annars staðar. Goodman bendi líka á að stássstofurnar hafi verið öruggt skjól þar sem listafólki gafst kostur á að miðla verkum sem enn voru í vinnslu en einnig almennari miðlunarvettvangur, til að mynda fyrir upplestur á bréfum frá fjarlægum slóðum. Í sumum tilvikum hafi blöð og tímarit verið gefin út í tengslum við starfsemina og veitti stærri hópi óbeinan aðgang að því sem þarna fór fram. Í fyrirlestrinum verður rætt hvort og með hvaða hætti áþekkar hugmyndir skjóta upp kollinum hér á landi. Athyglin beinist að tímaritinu Ármann á Alþingi (1829−1832) sem Baldvin Einarsson samdi að stórum hluta, smásögunni „Lognöldum“ sem birtist í Fornum ástum (1919) eftir Sigurð Nordal og því óformlega kaffihúsi sem Erlendur Guðmundsson rak fyrir eigin reikning í Unuhúsi á millistríðsárunum og tengdist á fimmta áratugnum útgáfustarfi Ragnars Jónssonar í Smára.