Íslenskukennsla í sögu og samtíð

Image

Íslenskukennsla í sögu og samtíð

Í Árnagarði 304 laugardaginn 8. mars kl. 10:00-12:00.

Í málstofunni verður fjallað um íslenskukennslu í grunnskólum og framhaldsskólum í sögu og samtíð. Fyrirlesarar eru kennarar og rannsakendur við Deild faggreinakennslu við Menntavísindasvið og fást við rannsóknir á kennslu bókmennta og málfræði í íslensku skólakerfi. Í fyrirlestrum  verða  kynntar niðurstöður úr rannsókn um sögu kennslubóka í íslensku og tengsl hennar við íslenska bókmenntasögu,  fjallað verður um nútímaljóð og dægurlagatexta í íslenskukennslu framhaldsskólum, um kennslu málfræði á grunn- og framhaldsskólastigi í takt við samfélagslegar hræringar  og um kennslu miðaldabókmennta í grunnskólum og framhaldsskólum.

Fyrirlestrar

Aðeins eitt 5 eininga námskeið um bókmenntir fyrri alda er í boði á Menntavísindasviði, þó að ekki sé vanþörf á því að geta boðið upp á sérstakt námskeið um þjóðsögur og ævintýri annars vegar og um kvæði og miðaldasögur hins vegar. Fyrir vikið verður efni þessa eina námskeiðs nokkuð troðið og ekki að nauðsynjalausu. Aðaláherslan verður óhjákvæmilega á Íslendingasögur, en goðafræði, eddukvæði og þjóðfræði fá því miður ekki það rými sem þau eiga skilið.

Það er þó ekki þar með sagt að efnið sé nauðsynlega einsleitt, því ýmis færi eru til að kynna kennaranema fyrir hinum fjölbreytilegustu bókmenntum sem varðveittar eru á forníslensku án þess að draga á móti úr vægi þeirra bókmennta sem þau raunverulega munu síðar fást við að kenna. Þetta er gert í þeirri trú að því viðameiri þekkingu sem kennari hafi á bókmenntunum í heild sinni, því betur verði hann í stakk búinn til að kenna stakan bókmenntatexta. Nemendur fá þannig smjörþefinn af öllu því sem þau vissu ekki að þau vildu vita um heimssýn og söguheim miðaldasagna, þó að þau fái kannski aldrei að kenna nema brot af því.

Lengi hefur verið deilt um markmið málfræðikennslu, hvert inntak kennslunnar ætti að vera og hvaða nálgun eða kennsluaðferðum skuli beitt. Á síðustu árum hefur hefðbundin málfræðileg greining á grunn- og framhaldsskólastigi sem skipt er upp í þætti með tilvísun til skýrt afmarkaðra málfræðilegra þátta eða sviða, þar sem markmiðið er að kenna t.d. orðflokkagreiningu og beygingafræði, oft með einhvers konar málstýringu að lokamarkmiði, sums staðar tekið að víkja fyrir annars konar nálgun þar sem áherslan er einkum og ekki síður á málnotkunarlegar og félagslegar hliðar tungumálsins. Sú nálgun beinir sjónum meira að daglegu tali nemenda, hvernig við lærum að tala og eins hvernig tungumálið er ekki aðeins tæki til tjáskipta heldur um leið valdatæki; hefðbundin forskriftarmálfræðin, þar sem áherslan var mikið á kennslu um „rétt“ mál og „rangt“, víkur fyrir lýsandi og inngildandi málfræðilegri greiningu sem hefur það að markmiði að ná utan um málið eins og það er í raun og veru, án þess þó að viðmiðum um málnotkun sé varpað fyrir róða. Í erindinu verður hugað að því hvernig sjá má ummerki um þessar breytingar í kennsluefni, Aðalnámskrá grunnskóla og Íslenskri málstefnu, og bent á hliðstæða þróun í öðrum málsamfélögum. Velt verður vöngum yfir því hvort stíga þurfi lengra en gert hefur verið í að breyta kennsluháttum í málfræði og hvaða breytingar það kalli á þvert á skólastig.

Bókmenntir eru stærsti hluti íslenskukennslu á framhaldsskólastigi en með hugtakinu bókmenntir er ekki aðeins átt við skáldsögur heldur einnig ljóð, auk annars efnis. Bókmenntakennsla á framhaldsskólastigi hefur lítið verið rannsökuð og ljóðakennsla ef til vill hvað minnst. Þetta er ekki einsdæmi því sömu sögu er að segja um löndin í kringum okkur.

Í nýlegri rannsókn á íslenskukennslu í framhaldsskólum voru ljóð og ljóðakennsla hins vegar meðal þess sem rætt var um við íslenskukennara. Í ljós kom að kennsla eldri og hefðbundinna ljóða er í nokkuð föstum skorðum, bæði hvað varðar skáld, ljóð og kennsluaðferðir.

Kennarar virðast á hinn bóginn beita fjölbreyttari kennsluaðferðum og hafa meira sjálfstraust þegar kemur að kennslu yngri ljóða. Í fyrirlestrinum verður rætt um helstu skáld og textahöfunda, kennsluaðferðir og ástæður þess að margir kennarar telja sig oft betur í stakk búna og ná betri árangri við kennslu yngri ljóða og dægurlagatexta, en þeirra sem eldri og hefðbundnari eru.

Á á síðari hluta sjötta áratugar síðustu aldar og fram yfir 1980 urðu miklar breytingar á kennslu í íslenskum framhaldsskólum. Fjöldi þeirra nemenda sem stunduðu hefðbundið bóknám jókst hröðum skrefum, nýir skólar voru stofnaðir víða um land og með tilkomu áfangakerfis og fjölbrautarskóla varð námsframboð fjölbreyttara.

Kennsla íslenskra bókmennta í framhaldsskólum hafði verið í föstum skorðum alla tuttugustu öldina en á þessu tímabili urðu margvíslegar breytingar á henni. Ódýrar og vandaðar skólaútgáfur af íslenskum samtímabókmenntum komu á markað á áttunda áratugnum og um sama leyti birtust fyrstu kennslubækurnar í bókmenntafræði á íslensku. Þessar bækur færðu viðfangsefni bókmenntakennslu nær nútímanum og reynsluheimi nemenda.

Efni þessa fyrirlestrar tengist rannsóknarverkefni um sögu kennslubóka í íslensku þar sem leitast er við að samþætta bókmenntasögu, sögu bókmenntafræði og skólasögu. Í fyrirlestrinum verður rýnt  í skólaútgáfur nýrra skáldverka sem komu út á tímabilinu, einkum hliðartexta þeirra; skýringar og formála útgefenda. Kannað verður hvernig nýjar áherslur í bókmenntafræði og kennslufræði móta útgáfurnar og gefa þannig tóninn fyrir kennslu og kennsluaðferðir í nýju umhverfi framhaldsskólans.