JARÐNÁND: Umhverfi, framtíð og huglíkami

Málstofan hverfist um þróun þverfaglegra, framvirkra og skapandi leiða til þekkingarmiðlunar um þann margþætta umhverfisvanda sem mannkynið og lífríki Jarðar standa frammi fyrir. Hnattrænar loftslagsbreytingar eru þar í forgrunni en verða skoðaðar í nánu samhengi við önnur meginsvið umhverfismála: sjálfbæra þróun og líffræðilega fjölbreytni. Kjarni hugmyndarinnar varðar samfélagslega nýsköpun (e. Social innovation) og leit úrlausnarefna sem fela í sér aðgerðir sem hnýta saman staðbundna félagslega þætti sjálfbærrar þróunar og alþjóðlega vísindalega þekkingu á loftslags- og umhverfismálum. Höfuðáherslan er á skapandi og gagnrýnar leiðir til að skilja tilvist og stöðu okkar í flóknum heimi umbreytinga á hnattrænum skala. Sérstök áhersla verður lögð á framtíðina; að þróa nýstárlegar leiðir til að geta betur ímyndað sér hvernig framtíðin geti litið út og um leið auka skilning á því hvernig val núlifandi kynslóða leggur grunn að framtíðinni sem afkomendurnir munu hljóta í arf. Málstofan mun taka útgangspunkt í yfirlýstu markmiði (M5) í stefnu stjórnvalda um aðlögun að loftslagsmálum: „Starf á sviði félags- og hugvísinda og lista sé hluti nauðsynlegrar þekkingarsköpunar vegna aðlögunar að loftslagsbreytingum sem kallar ekki bara á tæknilegar breytingar, heldur einnig, og ekki hvað síst, breytingar á mannlegri hegðun.“ Stefna stjórnvalda kallar augljóslega á virka aðkomu fræði- og listamanna sem fást við þekkingarsköpun á umræddum sviðum – svið sem hafa hingað til verið fremur ‚jaðarsett‘ í opinberri umræðu og stefnumörkun um umhverfismál – svo og möguleika þeirra á gagnvirku, skapandi samtali þeirra við yngri kynslóðir. Lögð verður höfuðáhersla á listræna starfsemi sem grundvöll að upplýstri, lýðræðislegri og framsýnni umræðu um helstu umhverfisvandamál samtímans, en þá jafnframt á tengsl slíkrar starfsemi við fræðastarf annars vegar og sýningarstarf hins vegar.

Fyrirlestrar

Alice Watterson

Ásthildur B. Jónsdóttir

Bergsveinn Þórsson

Guðbjörg R. Jóhannesdóttir

Kieran Baxter

Ole Martin Sandberg

Sigríður Þorgeirsdóttir

Þorvarður Árnason