Jethro Tull – tónlistin, textarnir, trúin
Jethro Tull – tónlistin, textarnir, trúin
Í Árnagarði 201 laugardaginn 8. mars kl. 15:00-16:30.
Breska hljómsveitin Jethro Tull, með skoska listamanninn Ian Anderson í fararbroddi, hefur haft mikil áhrif á tónlistarsögu veraldarinnar síðustu áratugi, einkum á sviði rokk-, popp- og þjóðlagatónlistar. Á þessari þverfaglegu málstofu munu fyrirlesarar beina sjónum sínum að ólíkum flötum þessa áhrifaþáttar listasögunnar. Farið er yfir sögulegan og menningarlegan bakgrunn hljómsveitarinnar, með áherslu á forsprakka hennar, lykilverk kynnt með völdum tóndæmum, markverðir textar reifaðir og áhrifasagan rakin. Auk þessa verður hugmyndafræðilegt samhengi verkanna kannað út frá trúarlegum og trúarbragðafræðilegum áherslum Andersons í textum hans og tónlist.
Fyrirlestrar
Í fyrirlestrinum verður breska rokksveitin Jethro Tull tekin til kostanna ásamt sjarmerandi forvígismanni hennar Ian Anderson. Ferill hennar verður greindur með tækjum og tólum dægurtónlistarfræða („popular music studies“) þar sem eigindi hennar verða sett í samhengi við helstu strauma og stefnur dægurtónlistarinnar. Auk almennrar úttektar verður farið sérstaklega í tengsl sveitarinnar við enska þjóðlagatónlist en samband það hefur undirstungið margt í sköpun Anderson, veri það lagasmíðar eða allra handa ímynd. Þessi þáttur hefur engu að síður verið lítt rannsakaður. Hljóðdæmi fá að óma, á plötum fá gestir að þukla og lagst verður í framkróka við gera ævintýrið á bakvið þessa einstöku sveit eins ljóslifandi og unnt er.
Hljómsveitin Jethro Tull er, hvað sem mörgum finnst að óathuguðu máli, ein þeirra hljómsveita sem hefur snert á hvað flestum tónlistartegundum, blús, rokki, þjóðlagarokki, framúrstefnurokki (proggi), ljúfum ballöðum og áreiðanlega ýmsu fleiru. Höfuðpaurinn, Ian Anderson, er líka gott skáld og hefur hann gegnum tíðina skapað fjölmarga texta sem tengjast ýmsum hefðum. Hann vísar til annarra skálda, Biblíunnar, enskrar klassíkur í ljóði og skáldsögum og, síðast en ekki síst, Eddukvæða. Hann hefur einnig látið til sín taka í kveðskap sem snertir umhverfismál og frá upphafi hefur hann haft í huga fátækt fólk. Í þessu erindi er ætlunin að fara yfir nokkur þessara atriða og eru þau sem áhuga hafa á að heyra beðin um að hlusta á meðfylgjandi laga- og plötulista:
A new day yesterday
Bourée
With you there to help me
Aqualung
My God
Thick as a brick
Living in the past
A Passion Play
Skating a away on the thin ice of a new day
Minstrel in the gallery
Cold wind to Valhalla
Baker Street Muse
Songs from the wood
Jack in the green
Rover
Heavy horses
Farm on the freeway
Budapest
og síðan alla plötuna Rökflöte.
Trúarleg stef koma víða fyrir í verkum Jethro Tull. Vel þekkt dæmi má finna frá upphafsárum sveitarinnar, í lögum eins og „My God“, „Hymn 43“ og „Wind-up“ frá 1971 sem og í jólalaginu „Christmas Song“ frá 1968. Rúmum fimm áratugum síðar, á plötunum The Zealot Gene (2022) og Rökflöte (2023), eru trúarlegar tilvísanir sömuleiðis miðlægar. Textar Jethro Tull, samdir af forsprakkanum Ian Anderson, innihalda gjarnan snarpa og oft á tíðum háðska ádeilu á stofnanavædd trúarbrögð, sér í lagi kristindóm. Anderson hafnar þó ekki trú sem persónulegri sannfæringu eða grunni að góðu og réttvísu lífi. Efniviðinn fyrir slíkt sækir hann til ólíkra trúarhefða frá ólíkum tímaskeiðum mannkynssögunnar. Í erindinu verða þessi stef greind og rædd með tilheyrandi texta- og hljóðdæmum.