Jón Ólafsson ritstjóri - hugmyndastraumar og farvegir þeirra

Image

Jón Ólafsson ritstjóri - hugmyndastraumar og farvegir þeirra

Í Odda 206 laugardaginn 9. mars kl. 10:00-11:30.

Um og eftir aldamótin 1900 urðu ýmsar breytingar á sambandi Íslands við umheiminn. Regla komst á skipaferðir til og frá landinu, loftskeyti tóku að berast og með Vesturferðum laukst upp nýr heimur sem mörgum þótti vísir til framtíðar. Einn af þeim mönnum, sem í baksýn getur virst eins og tíðarandinn holdi klæddur, var Jón Ólafsson (1850–1916) sem drakk í sig nýja strauma á sviðum stjórnmála, trúarbragða, miðlunar og skáldskapar.

Í málstofunni verður sjónum beint að ríkulegum og fjölbreyttum hugmyndaheimi Jóns og hvernig hann miðlaði hugmyndum bæði í ræðu og riti. Rætt verður um Jón og frjálslyndisstefnuna sem hann fjallaði um sem skipulega hugmyndafræði og kenndi sig við einna fyrstur Íslendinga. Verður því meðal annars haldið fram að hann hafi gegnt lykilhlutverki í að móta hugmyndir um inntak frelsis á landshöfðingjatímabilinu. Einnig verður látið reyna á þá kenningu að smásaga Jóns „Hefndin“, sem kom út í samnefndu kveri árið 1867, sé fyrsta íslenska glæpasagan. Loks verður fjallað um vikuritið Reykjavík sem Jón ritstýrði á tímabilinu 1903–1907 í samhengi við byltingu á sviðum samskipta- og prenttækni. Velt verður vöngum yfir því hvort Reykjavík sé fjölmiðill en líka hvernig beri að túlka ritstýrðan prentgrip sem samanstendur af fjölbreyttu og ólíku efni varðandi framsetningu, inntak, form og tilgang.

Fyrirlestrar

Hugtakið frjálslyndi (e. liberalism) varð síalgengara í íslenskri þjóðmálaumræðu á síðari hluta nítjándu aldar. Líkt og annars staðar í Evrópu og umheiminum var þó ekki lögð ein merking í frjálslyndishugtakið heldur var tekist á um inntak þess. Á níunda áratug aldarinnar birtust þessi átök á Íslandi í skoðanaskiptum Jóns Ólafssonar ritstjóra og Arnljóts Ólafsson, prests og hagfræðings. Þó svo að Jón og Arnljótur hafi verið áberandi talsmenn frjálslyndis á Íslandi á síðari hluta nítjándu aldar hefur ekki áður verið fjallað um hugmyndafræðilegar deilur þeirra. Á níunda áratug aldarinnar birtu Jón og Arnljótur þýðingar og rit sem byggðu á verkum áhrifamikilla evrópskra hugsuða, á borð við John Stuart Mill og Fréderic Bastiat, þar sem komu fram ólík sjónarmið um frelsi og frjálslyndi. Þá tókust Jón og Arnljótur einnig á í dagblöðum sem og sölum Alþingis um inntak frjálslyndis og hvernig slíkar hugmyndir ættu við í íslensku samfélagi. Þessar hugmyndafræðilegu forsendur mótuðu jafnframt deilur þeirra um endurskoðun stjórnarskrárinnar, alþýðufræðslu, kviðdóma, lausamennsku og áfengissölu. Í erindinu verður fjallað um frjálslyndishugmyndir Jóns og Arnljóts, ágreiningur þeirra settur í alþjóðlegt samhengi og mátaður við viðteknar túlkanir á sögu frjálslyndisstefnu. 

Jón Ólafsson var ekki nema 17 ára þegar hann gaf út smásöguna „Hefndina“ í samnefndu kveri. Sagan kom út árið 1867 og virðist ekki hafa fengið sérlega mikla athygli í gegnum tíðina en Jónas Jónasson frá Hrafnagili lýsti henni þó sem „reglulegri glæpasögu“. „Hefndin“ fjallar um Auðbjörgu, prestsdóttur sem fær ekki að eiga manninn sem hún helst kysi vegna fjárskorts hans. Í kjölfar þess er hún gift öðrum manni sem henni er lítið um. Hún líður samviskukvalir því hún telur sig eiga þátt í dauða eiginmannsins en finnur til mikils léttis þegar hún kemst að því að svo er ekki. Í þessari stuttu frásögn snertir höfundur á ýmsum þáttum mannslífsins eins og spillingu, öfund og fyrirgefningu. Í erindinu verður það rætt um hvort „Hefndin“ geti talist fyrsta íslenska glæpasagan auk þess sem tengsl Jóns við íslenska glæpasagnahefð verða könnuð.

Árið 1900 hóf nýtt vikublað göngu sína á Íslandi sem nefndist Reykjavík. Einn af þeim sem lagði blaðinu reglulega til efni var Jón Ólafsson en hann ritaði erlendar fréttir. Þeim starfa hélt hann áfram eftir að hann tók við ritstjórn Reykjavíkur í ársbyrjun 1903. Í orðsendingu sem hann sendi lesendum við það tækifæri lýsir hann þeirri skoðun „að hvert fréttablað eigi fyrst og fremst af öllu að vera frétta-blað“ en það breytti samt sem áður ekki því að blaðið samanstóð af býsna fjölbreytilegu efni eins og skemmtisögum, auglýsingum, umfjöllun um bækur og leikhús, kveðskap og ritgerðum.  Í fyrirlestrinum verður skoðað með hvaða hætti blað á borð við Reykjavík tengdi saman ólík kerfi í samfélaginu eins og hagkerfi, menningarkerfi, tækni- og samgöngukerfi en einnig verður velt vöngum yfir því hvernig og hvort hægt sé að túlka blað sem sett er saman úr textum af ólíku tagi og úr ólíkum áttum.