
Í Odda 206 laugardaginn 9. mars kl. 10:00-11:30.
Um og eftir aldamótin 1900 urðu ýmsar breytingar á sambandi Íslands við umheiminn. Regla komst á skipaferðir til og frá landinu, loftskeyti tóku að berast og með Vesturferðum laukst upp nýr heimur sem mörgum þótti vísir til framtíðar. Einn af þeim mönnum, sem í baksýn getur virst eins og tíðarandinn holdi klæddur, var Jón Ólafsson (1850–1916) sem drakk í sig nýja strauma á sviðum stjórnmála, trúarbragða, miðlunar og skáldskapar.
Í málstofunni verður sjónum beint að ríkulegum og fjölbreyttum hugmyndaheimi Jóns og hvernig hann miðlaði hugmyndum bæði í ræðu og riti. Rætt verður um Jón og frjálslyndisstefnuna sem hann fjallaði um sem skipulega hugmyndafræði og kenndi sig við einna fyrstur Íslendinga. Verður því meðal annars haldið fram að hann hafi gegnt lykilhlutverki í að móta hugmyndir um inntak frelsis á landshöfðingjatímabilinu. Einnig verður látið reyna á þá kenningu að smásaga Jóns „Hefndin“, sem kom út í samnefndu kveri árið 1867, sé fyrsta íslenska glæpasagan. Loks verður fjallað um vikuritið Reykjavík sem Jón ritstýrði á tímabilinu 1903–1907 í samhengi við byltingu á sviðum samskipta- og prenttækni. Velt verður vöngum yfir því hvort Reykjavík sé fjölmiðill en líka hvernig beri að túlka ritstýrðan prentgrip sem samanstendur af fjölbreyttu og ólíku efni varðandi framsetningu, inntak, form og tilgang.