Kennsluþróun í hugvísindum

Image

Kennsluþróun í hugvísindum

Í Árnagarði 303 föstudaginn 7. mars kl. 13:15-17:15.

Í erindum málstofunnar verður fjallað vítt og breitt um kennsluþróun í hugvísindum. Rætt verður um blandaða kennslu, skapandi og listræna miðlun og verkefnaskil sem og kennsluþróun með gervigreind. Einnig verður rætt um breytingar í námsbraut í sagnfræði og reynslu kennara sviðsins af Inspera prófakerfinu.

Fyrirlestrar

Í þessu erindi verður fjallað um reynslu kennara af því að kenna samtímis í stofu og streymi gegnum Teams með aðstoð Catchbox, sem er þráðlaust hljóðnemakerfi hannað fyrir samtal milli net- og staðrýma. Um er að ræða óformlegt tilraunaverkefni sem hófst haustið 2021 og er enn ekki lokið þar sem það er orðið eðlilegur og sjálfsagður hluti af kennslu í flestum námskeiðum sem kennarinn sér um. Rætt verður um tæknilegu hliðina og þær áskoranir sem fylgja því að samþætta kennslu nemenda á tveimur stöðum. Enn fremur verður greint frá kennslufræðilegri nálgun og þeim aðstæðum og námskenningu sem kölluðu á þessa tilteknu lausn. Síðast en ekki síst verður sagt frá viðbrögðum nemenda og reynslu þeirra.

„We need to think a lot more broadly about how we can make environments accessible to everyone, absolutely everyone.“ Þannig komast menntunarfræðingarnir Aysa Collins, Fara Azmat og Ruth Rentschler að orði í rannsókn sinni á stafrænu námi á háskólastigi  (Collins, Azmat and Rentschler 2019, 1481). Samkvæmt þessum fræðimönnum er spurningin um stafrænt skólastarf ekki einungis nemendum til þæginda og nýjunga, heldur réttlætismál sem opnar aðgengi að æðri menntun fyrir hópum sem annars ættu ekki kost á háskólanámi. En hvernig er hægt að tryggja að gæðin séu þau sömu og í staðbundnu námi?  Og hvernig er hægt að koma flóknum kennsluháttum við í smáum nemendahóp sem skiptist jafnt milli þess að vilja stafrænar og staðbundnar lausnir? Erindið fjallar um þessar glímur við þarfir nemenda og inngildandi skólastarf, varpar ljósi á helstu hindranir og þeirra leiða sem leitað hefur verið til að leysa vandann.

Ritfærni er mikilvægur hæfileiki í nútímasamfélagi. Tjáning í ræðu og riti er talin ein af grunnforsendum fyrir þátttöku í lýðræðislegu samfélagi og ekki þarf að lesa margar atvinnuauglýsingar til að sjá að hæfni í íslensku og ritfærni er talin afar eftirsóknarverður kostur á vinnumarkaði. Ritfærni er þó ekki aðeins mikilvæg fyrir samfélagsþátttöku heldur er aukin íslenskukunnátta og ritfærni talin bæði menningarlega og félagslega valdeflandi.

Margt bendir þó til að ritfærni sé ekki nógu vel sinnt á fyrri skólastigum, sér í lagi í öðrum skrifum en fræðilegum. Hvatt hefur verið til að skapandi skrif verði ríkari þáttur í ritfærnikennslu í framhaldsskólum og þá kalla framhaldsskólanemendur sjálfir eftir hagnýtri kennslu í textasmíð. Sú ritunarkennsla sem boðið er upp á í grunnnámi Háskóla Íslands er jafnan á sviði fræðilegrar ritunar, nema um sé að ræða hluta af skapandi námi, eins og ritlist.

Í erindinu mun ég fjalla um ritfærninámskeiðið Ritfærni: Skapandi fræðamiðlun. Í námskeiðinu er hefðbundin fræðileg ritun lögð til hliðar og athyglinni beint að skapandi skrifum með aðferðum sannsagna (creative nonfiction). Hér fá nemendur tækifæri til að miðla þekkingu á sínu fræðasviði áfram til almenns lesendahóps í grípandi og áhugaverðum prósa þar sem verkfærum skáldskaparins er beitt til að gæða textann lífi.

Það er ekki formlegt markmið fræðilegs grunnnáms í háskóla, og þeirrar akademísku þjálfunar sem þar fer fram, að útskrifa listamenn eða beinlínis þroska skapandi hæfileika nemenda. Skapandi verkefni eru því oft talin eiga heima fyrst og fremst í listaháskólum eða öðru listnámi.

Hins vegar sýnir fjöldi rannsókna í kennslufræði háskóla að glíma við skapandi verkefni hefur afar jákvæð áhrif á fræðilegt nám háskólanema. Úrlausn slíkra verkefna krefst frumkvæðis og gagnrýninnar hugsunar þar sem nemendur tengja námsefnið, annað efni og eigin hugðarefni saman á nýja vegu. Mikilvægasti ávinningurinn er að skapandi verkefni geta leitt til dýpri skilnings nemenda á fræðilegu námsefni og ýtt undir virkni, áhuga og námsánægju.

Í þessu erindi verður farið yfir helstu rannsóknir í þessum efnum, tekin raundæmi af skapandi verkefnum í BA námi í Íslensku sem öðru máli, og kostir og gallar ræddir.

Í fyrirlestrinum verður fjallað um kennsluþróun í námskeiðum sem sameina net-, fjar- og staðnám með blönduðum kennsluaðferðum. Sérstök áhersla verður lögð á hvernig gervigreindarforrit hafa verið nýtt til að búa til myndrænt kennsluefni sem eykur skilning og þátttöku nemenda en dregur úr undirbúningstíma kennara. Fjallað verður um raunhæf dæmi úr kennslunni og hvernig slík tækni getur stutt við sveigjanleika og fjölbreytni í námskeiðum sem nýta bæði hefðbundnar og stafrænar aðferðir. Markmiðið er að auka skilvirkni í kennslu án þess að skerða gæði námsins.

Á undanförnum áratugum byggðist námsbraut í sagnfræði upp á stórum og yfirgripsmiklum yfirlitsnámskeiðum sem nemendur tóku í kjarna. Um var að ræða breytilegan fjölda 10e námskeiða sem hafa fyllt upp allt að 70e í skyldu í sagnfræði á liðnum áratugum. Grunnhugmynd þessara námskeiða sem tengdust bæði Íslands- og Norðurlandasögu sem og Heimssögu (áður Mannkynssögu) var sú að nemendur þyrftu á góðu yfirliti að halda til þess að geta sökkt sér í frekari rannsóknir á einstökum þáttum sögunnar. Með nokkru sanni má segja að þessi skipan hafi verið við líði allt frá síðari hluta áttunda áratugar 20. aldar og fram til haustsins 2020 – í rúm 40 ár – þó að fyrirkomulagið hafi tekið einhverjum smá breytingum frá einum tíma til annars. En nú hefur orðið breyting á.

Meginhugmyndin með hinni nýju skipan var að losa kjarnanámskeiðin úr viðjum stóra yfirlitsins þar sem löng tímabil og umfangsmikil saga hafa ráðið ríkjum. Hin nýja tilhögun byggist á að brjóta tímabilin niður í smærri einingar – 5e námskeið – þar sem hægt væri að taka fyrir afmarkaðri efni og kafa dýpra í hvert fyrir sig. Námsbrautin fengi fyrir bragðið snarpara yfirbragð. Fjölbreytni í námsvali yrði meiri og hraðari taktur kæmi fram í náminu sjálfu. Um þetta verður rætt í fyrirlestrinum á Hugvísindaþingi 2025.

Stafrænum lausnum í kennslu og kennsluþróun fjölgar hratt og undanfarin ár hafa kennarar HÍ þurft að læra á mörg ný kerfi, eitt þeirra er rafræna prófakerfið Inspera. Notkun Inspera er mismikil milli sviða, á Hugvísindasviði er hlutfallið lægra en víðast hvar annars staðar. Ein ástæða þess gæti verið sú að stuðning skorti við kennara, ekki síst þá sem leggja sjaldan fyrir skrifleg próf og því spurning hvort auka þurfi stuðning innan sviðsins.

Til að leita svara við því voru á árunum 2022–2024 sendar út nokkrar spurningakannanir á kennara Hugvísindasviðs, bæði þá sem lögðu fyrir Inspera próf og þá sem lögðu fyrir skrifleg próf á pappír. Markmiðið var annars vegar að kanna hvers vegna kennarar halda áfram að leggja fyrir próf með blaði og penna þrátt fyrir tilkomu Inspera og hvaða hindranir stæðu í vegi fyrir því að taka upp Inspera. Hins vegar að spyrja kennara sem notuðu Inspera hvort þeir hefðu leitað eftir stuðningi við gerð prófa og þá hvert. Þá voru sendar fyrirspurnir á námsgreinar sem höfðu mjög lágt hlutfall Inspera prófa og nánar spurt út í ástæðurnar.

Niðurstaða úr könnununum sýnir að yfir 60% þeirra sem ekki nota Inspera telja að þeir hafi ekki tíma til að læra á kerfið, um 20% svöruðu því til að þeir væru með sérþarfir og því hentaði Inspera ekki. Í nánari svörum kom fram að staða kennara skiptir hér einnig máli, hvort þeir eru fastráðnir eða stundakennarar og hvort þeir eigi stutt eftir í eftirlaunaaldur. Þeir kennarar er leituðu hjálpar við gerð Inspera prófa höfðu flestir samband við Kennslusvið HÍ en nokkrir leituðu einnig til samkennara. Tveir þriðju telja að núverandi stuðningur sé nægur en um 15% vildu meiri stuðnings innan fræðasviðsins.