Konur í Reykjavík á átjándu, nítjándu og í upphafi tuttugustu aldar
Konur í Reykjavík á átjándu, nítjándu og í upphafi tuttugustu aldar
Í Lögbergi 103 föstudaginn 7. mars kl. 15:15-17:15.
Í tilefni af kvennaári 2025 verður blásið til málstofu, þar sem fjallað verður um ólíkar konur með ýmis hlutverk í höfuðstaðnum Reykjavík á átjándu, nítjándu og í upphafi tuttugustu aldar.
Erindi flytja fjórar fræðikonur sem fjalla um Þorbjörgu Sveinsdóttur, embættisljósmóður, kvenskörung og baráttukonu, almennt um embættisljósmæður í Reykjavík, sem gengu í heimahús og tóku á móti börnum og um eignir kvenna í Reykjavík í kvikfjártalinu 1703. Að lokum verður sagt frá tíðaranda í bænum og tískunni sem ruddi sér óðfluga til rúms með tilheyrandi áhrifum á íslenska þjóðbúninginn.
Fyrirlestrar
Ljósmóðirin og kvenskörungurinn Þorbjörg Sveinsdóttir (1827–1903) var afar áberandi í kvennabaráttu nítjándu aldar á Íslandi. Hún var meðal þeirra kvenna sem stóðu fyrir stofnun Hins íslenska kvenfélags en það var fyrsta kvenfélagið á Íslandi sem hafði réttindi kvenna á stefnuskrá sinni.
Í þessu erindi verður sjónum beint að Þorbjörgu sem baráttukonu, og þá einna helst að baráttu hennar fyrir bættum kjörum kvenna í landinu. Einkum verður litið til starfs hennar og þátttöku í Hinu íslenska kvenfélagi þar sem hún gegndi stöðu forseta frá 1897 til dauðadags.
Í fyrirlestrinum verður fjallað um fyrstu launastétt faglærðra kvenna á Íslandi, ljósmæðrastétt, og sjónum aðallega beint að embættisljósmæðrum í Reykjavík. Ljósmæður sem höfðu í hyggju að starfa í Reykjavík, urðu að hafa lokið ljósmæðraprófi frá ljósmæðraskóla í Kaupmannahöfn þar sem þær fengu þjálfun á fæðingarstofnun í að taka á móti börnum og hjúkra sængurkonum og nýburum. Reykjavíkurljósmæður voru titlaðar embættisljósmæður og voru betur launaðar heldur en aðrar ljósmæður. Þetta ákvæði um að ljósmæður í Reykjavík yrðu að hafa numið ljósmóðurfræði í Kaupmannhöfn var numið úr gildi með ljósmæðralögum frá 19. júní 1933.
Í fyrirlestrinum verður fjallað um fyrstu embættisljósmóður Reykjavíkur og þær sem komu á eftir henni. Leita verður svara við því af hverju þær urðu að vera betur menntaðar heldur en aðrar ljósmæður svo og af hverju þær voru launahærri heldur en aðrar ljósmæður á Íslandi.
Ljósmæður voru ávallt titlaðar yfirsetukonur á Íslandi en árið 1924 hverfur þetta starfsheiti og þær fara smátt og smátt að taka upp heitið, ljósmæður.
Í upphafi átjándu aldar var Árna Magnússyni og Páli Vídalín falið, af dönsku krúnunni, að kanna aðstæður á Íslandi og koma með tillögur til úrbóta. Ein af afurðum þeirrar vinnu var kvikfjártal sem var tekið árið 1703. Í því eru upplýsingar um fjölda kvikfjár á hverju búi fyrir sig, bæði í eigu bóndans og annarra sem áttu skepnur hjá honum.
Í erindinu verður einkum skoðað eignarhald kvenna í Gullbringusýslu í kvikfjártalinu með tilliti til félagslegrar stöðu þeirra.
Í erindinu verður fjallað um kventískuna í Reykjavík frá átjándu til nítjándu aldar og mótun þjóðbúningsins þegar verslun og viðskipti við umheiminn voru að aukast. Magnús Stephensen birti árið 1798 ritgerðina „Skauta-faldar og Qvenn-hempur“ þar sem lagt var til að konur tækju upp nýjustu tískusiði frá útlöndum og hættu að ganga í faldbúningi. Á næstu árum fjölgaði þeim konum í Reykjavík og nágrenni sem klæddust dönskum búningi en tískufatnaður kom aðallega frá Kaupmannahöfn á þessum tíma. Fleiri karlmenn en Magnús lögðu orð í belg á næstu áratugum um það hvernig konur ættu að klæða sig. Að þeirra mati myndi það styrkja ímynd þjóðarinnar ef kjólar kvenna og skart væri í þjóðlegum anda. Um miðja nítjándu öld kom Sigurður Guðmundsson málari svo fram með nýjan íslenskan búning, skautbúninginn, sem átti rætur að rekja til gamla faldbúningsins. Þróunin tískunnar og áhrifa hennar á þjóðbúninginn verður rakin og sögur reykvískra kvenna og kjólar þeirra dregnir fram í dagsljósið.