Krókar og kimar: Krílin í heimsbókmenntunum

Í Árnagarði 310 laugardaginn 11. mars kl. 15:00-16:30.

Þessi málstofa snýst um krókana og kimana í heimsbókmenntum frá sjónarhóli smáþjóða. Smáþjóðir gefa bæði og þiggja í þessu sambandi og stundum eftir krókaleiðum. Þýðingar af og á þeirra mál fara stundum í gegnum þriðja mál, þýðingar af málum þeirra eru oft stopular í ofanálag, en að auki ráða lítil bókmenntakerfi lítt við að innbyrða heimsbókmenntirnar nema í smáskömmtum. Við ætlum að skoða málið frá þremur sjónarhornum, ólíkum en tengdum. Marion Lerner skoðar handrit að ferðabók eftir austurríska þýðandann Jósef C. Poestion, Benedikt Hjartarson skoðar þýðingar af og á esperanto í íslensku samhengi og Gauti Kristmannsson veltir fyrir sér þýðingum á höfundarverki Thomasar Manns á íslensku.

Fyrirlestrar

Sumarið 1906 ferðaðist hinn austurríski Jósef C. Poestion (1853−1922) um Ísland. Honum var boðið til landsins sem heiðursgesti. Hann var mikilsvirtur þýðandi, hafði sett saman nokkur söfn íslenskra ljóða, samið áhrifamikla Íslandslýsingu og birt margar greinar um íslenskar bókmenntir og menningu. Handrit sem ber ýmist titilinn Kulturgeschichtliche Wanderungen eða Reise nach Island hefur að geyma ferðasögu hans en nú er unnið að því að koma henni út á bókarformi.

Í erindinu verður saga handritsins rakin. Einkum verður farið yfir áskoranir sem helgast af því að ýmsum rithöndum bregður fyrir í skjalinu og unnið var í handritinu um árabil. Mesta áskorunin felst þó í umritun fjölda kafla sem skrifaðir eru á Sütterlin, gamalli þýskri skrift sem kemur nútímalesendum mjög spánskt fyrir sjónir. Hvað þá þegar íslensk orð eru rituð með þessum framandi bókstöfum!

Í þessum fyrirlestri verður litið yfir viðtökusögu og þýðingar á verkum Thomasar Manns á Íslandi. Viðtökur hófust á þriðja áratugnum með umfjöllunum og síðar þýðingum á smásögum og fyrsta bókin, Tónío Kröger, kom út á stríðsárunum. Síðan hafa þýðingar á verkum hans komið út svolítið höktandi, en tóku kipp undir lok síðustu aldar og í upphafi þessarar. Eftir sem áður hafa margir höfundar og gagnrýnendur vísað til hans og haft á verkum hans skoðanir. Hér verður litið til viðtökusögunnar út frá þessum tveimur þáttum.

Hvaða hlutverki gegndu þýðingar úr esperanto við innflutning á nýjum bókmenntastraumum á tímabilinu 19271935? Í leit að svörum við þessari spurningu verður sjónum beint að þýðingum styttri prósatexta. Dregin verður upp heildarmynd af þeim textum sem þýddir voru úr esperanto og horft í senn til þýðinga á frumsömdum bókmenntaverkum og þýðinga úr esperanto sem millimáli. Forvitni vekur úr hversu ólíkum áttum textarnir koma, þarna má m.a. finna einhverjar fyrstu íslensku þýðingarnar á jiddískum, búlgörskum og eistneskum nútímabókmenntum. Hér vaknar önnur brýn spurning: að hvaða leyti varpar þessi þýðingastarfsemi ljósi á sérstætt bókmenntakerfi alþjóðamálsins, sem lýsa má sem einskonar huldukerfi heimsbókmenntanna þar sem verk áttu greiða leið á milli ólíkra jaðarsvæða.