Læknahugvísindi
Læknahugvísindi
Í Árnagarði 303 laugardaginn 8. mars kl. 13:00-14:30.
Læknahugvísindi er þverfaglegt rannsóknasvið sem tengir saman þekkingu og innsæi tveggja fræðigreina, þ.e. læknisfræða og hugvísinda. Þeim er meðal annars ætlað að dýpka skilning á frásögnum af veikindum, vanlíðan og lækningum, auka skilning heilbrigðisstétta á hugrænni líðan sjúklinga og aðstæðum þeirra og auka þar með samlíðun heilbrigðisstarfsfólks með skjólstæðingum sínum. Innan læknahugvísinda hefur gefist vel að nýta bókmenntir um sjúklinga, lækna, veikindi og sársauka sem umræðu- og þekkingargrundvöll því þær veita aðgang að tilfinningalífi fólks og þjáningu og varpa gjarnan ljósi á samskipti þess við heilbrigðisstéttina. Í málstofunni verður fjallað um bókmenntir af þessu tagi; ekki síst verður sjónum beint að fíkn, sjálfsfeigðarsögum, sorg og missi.
Fyrirlestrar
Danska skáldið og rithöfundurinn Tove Ditlevsen (1917–1976) vakti aðdáun og athygli fyrir ljóð sín og sögur, fegurð og fjör, hún gekk fjórum sinnum í hjónaband, fæddi þrjú börn, lifði hátt og féll lágt. Í fyrirlestrinum verður reynt að svara spurningunni: hvað knúði hana áfram í því lífi sem hún lifði og þeim hræðilega dauðdaga sem hún kaus sér?
Í fyrirlestrinum er dramatísk ævi Tove Ditlevsen rakin stuttlega og borin saman við samtímaskáld sem fóru sömu eða aðrar leiðir en hún.
Tove Ditlevsen fæddist í lok heimstyrjaldarinnar fyrri og þó að Kaupmannahöfn færi ekki jafn illa út úr henni og mörg önnur svæði Evrópu fylgdi stríðinu eyðilegging og skortur. Lítið var um peninga hjá foreldrum hennar, fjölskyldan bjó í hinni ósiðprúðu Istedgade rétt fyrir ofan Hovedbanegården. Þar ólst Tove upp og þar byrjaði hún að láta sig dreyma um að skrifa ljóð og sögur og gerði alvöru úr þeim draumum þegar frá leið.
Þórdís Gísladóttir hefur þýtt þrjár fyrstu bækur Tove listilega: Þær heita: Bernska; Æska; og Gift. Bókaútgáfan Benedikt gaf þær út árið 2022–2024.
Árið 2023 sendi Steinunn Sigurðardóttir frá sér verðlaunaskáldsöguna Ból þar sem segir frá þýðandanum Líneik Hjálmsdóttur, eða LínLín eins og hún er kölluð. Meginviðfangsefni bókarinnar eru sorg, eftirsjá, ofurást og alvarleg áhrif þess að þegja yfir leyndarmálum um árabil. Rétt eins og kemur glögglega fram í sögunni hefur líf LínLín verið flókið; hún fær ekki æskuástina og í ofanálag upplifir hún margs konar missi; foreldrar hennar og einkadóttir eru látin, hún hefur veikst alvarlega og misst heilsuna og sælureitur hennar í sveitinni er á leið undir glóandi hraun. Í erindinu verður kannað hvernig sorg og sársauka LínLín er lýst og hvernig hún bregst við missi og söknuði.
Hugtakið sjálfsfeigðarsögur (e. autotanatograpy) vísar til sjálfsævisögulegra frásagna einstaklinga sem standa frammi fyrir endalokum eigin tilvistar. Þótt slík séu vitaskuld örlög allra lifandi vera – og að því leyti séu allar sjálfsævisögur í einhverjum skilningi sjálfsfeigðarsögur – þá er hér átt við frásagnir þeirra sem hafa fengið sinn ‚dauðadóm‘, oft ótímabæran af völdum veikinda. Í fyrirlestrinum verður fjallað um nokkur verk af þessu tagi og – bæði íslensk og erlend – og spáð í hvað einkennir slíkar frásagnir og í hverju gildi þeirra felst framar öðru, fyrr þann sem skrifar og þann sem les.