Levíatan á leirfótum? Vald og geta ríkisins til að stjórna í sögulegu samhengi

Ríkisvaldið er ein af grunneiningum stjórnmálanna en hvaða þættir ráða úrslitum um getu þess til að marka stefnu og koma ákvörðunum sínum í framkvæmd? Geta ríkja (e. state capacity) til að stjórna innan landsvæða sinna með samræmdum og skilvirkum hætti – m.a. til að afla tekna, hagnýta sér þekkingu og tækni, og veita opinbera þjónustu – skiptir meginmáli við að tryggja farsæla efnahagsþróun, jafnrétti og lýðræðisleg stjórnmál ásamt öryggi og frið. Á undanförnum árum hefur spunnist lífleg umræða í hug- og félagsvísindum um hvað þættir móta helst getu ríkisins og hvort og þá hvernig hægt er að leggja mælistikur á hana. Í þessari málstofu verður fjallað um vald og getu ríkisins og stofnana þess út frá sögulegum sjónarhornum. Fyrirlesarar munu ræða um veikleika ríkisvalds á Íslandi á 18. og 19. öld, áhrif nýstárlegra hugmynda um hagstjórn og landbúnaðarumbætur í Skandinavíu við endalok þrælaverslunar í Danaveldi undir lok 18. aldar, og tengsl vísinda- og tækniþróunar við framgöngu bandaríska ríkisvaldsins á 19. öld.

Fyrirlestrar

Veikleikar ríkisvalds á Íslandi á 18. og 19. öld.

Skandinavísk efnahagshugsun og afnám þrælaverslunar í Danmörku 1792.

Tækniþekking og geta ríkisins í Bandaríkjunum á nítjándu öld.