Levíatan á leirfótum? Vald og geta ríkisins til að stjórna í sögulegu samhengi

Í Árnagarði 101 laugardaginn 11. mars kl. 15:00-16:30.

Ríkisvaldið er ein af grunneiningum stjórnmálanna en hvaða þættir ráða úrslitum um getu þess til að marka stefnu og koma ákvörðunum sínum í framkvæmd? Geta ríkja (e. state capacity) til að stjórna innan landsvæða sinna með samræmdum og skilvirkum hætti – m.a. til að afla tekna, hagnýta sér þekkingu og tækni, og veita opinbera þjónustu – skiptir meginmáli við að tryggja farsæla efnahagsþróun, jafnrétti og lýðræðisleg stjórnmál ásamt öryggi og frið. Á undanförnum árum hefur spunnist lífleg umræða í hug- og félagsvísindum um hvað þættir móta helst getu ríkisins og hvort og þá hvernig hægt er að leggja mælistikur á hana. Í þessari málstofu verður fjallað um vald og getu ríkisins og stofnana þess út frá sögulegum sjónarhornum. Fyrirlesarar munu ræða um veikleika ríkisvalds á Íslandi á 18. og 19. öld, áhrif nýstárlegra hugmynda um hagstjórn og landbúnaðarumbætur í Skandinavíu við endalok þrælaverslunar í Danaveldi undir lok 18. aldar, og tengsl vísinda- og tækniþróunar við framgöngu bandaríska ríkisvaldsins á 19. öld.

Guðmundur Hálfdanarson kynnir fyrirlesara og stýrir umræðum.

Fyrirlestrar

Myndlíkingin „að komast til Danmerkur“ er runnin frá Francis Fukuyama og snýst um spurninguna hvernig hægt er að breyta veikburða og spilltum ríkjum í skilvirk og velmegandi samfélög. Í erindinu eru færð rök fyrir því að vanþróun íslensks samfélags fram á 19. öld megi rekja að talsverðu leyti til þess hve veikburða ríkisvaldið var. Veikburða vegna þess að bæði skorti getuna og lengi vel viljann til að breyta efnahags- og samfélagsháttum til framfara atvinnulífi og lífskjörum landsmanna. Var ríkisvaldið sinnulaust um hag íbúanna? Eða koðnuðu umbótaáform niður vegna þess að ríkisvaldið var of veikt til að hrinda þeim í framkvæmd? Ef svo var, hvað eða hver stóð í veginum? Stórt er spurt og svörin einatt ófullkomin enda er tilgangur þessa erindis ekki síður að skapa umræðu en að svara spurningunni um hlutverk ríkisvaldsins í samfélagsþróun á viðhlítandi hátt. Leitað er í smiðju Besleys and Perssons (The Pillars of Prosperity) sem telja getu ríkisins ráðast af því hversu megnugt það er að afla skatttekna og veita opinbera þjónustu sem gagnast almenningi. Einnig er höfð hliðsjón af hugmyndum Dinceccos og Katz (State Capacity and Long-Run Performance) sem álíta getu ríkisins byggjast á skilvirku skattkerfi, temprun framkvæmdarvaldsins og hagvaxtarörvandi fjármálastefnu.

Í mars árið 1792 varð Danmörk fyrsta ríkið í Evrópu til þess að lýsa yfir afnámi þrælaverslunar í nýlendum sínum. Ákvörðunin tók gildi árið 1803 og markaði tímamót enda hafði á undangengnum árum risið upp pólitísk hreyfing í Bretlandi sem krafðist afnáms þrælaverslunar í Atlantshafi en varð lítið ágengt. Það kom því mörgum á óvart þegar Danmörk, þar sem lítil umræða um málið hafði átt sér stað, braut ísinn. Í gegnum tíðina hafa ýmsar skýringar á því af hverju Danmörk varð fyrsta ríkið til þess að afnema þrælaverslun sína verið settar fram: Fyrst um sinn réðu mannúðarsjónarmið ferðinni, en á síðustu áratugum hafa sagnfræðingar hallast að því að efnahagslegir hvatar hafi legið að baki. Í fyrirlestrinum verður opinber umræða um málið skoðuð, og færð rök fyrir því að staða ríkisvaldsins og ríkjandi hugmyndir um hagstjórn og landbúnaðarumbætur hafi verið lykilatriði í því að Danmörk varð fyrsta Evrópuríkið til þess að afnema verslun með þræla. Einnig verður ákvörðunin sett í samhengi við afnám vistarbands í Danmörku árið 1788.

Á undanförnum tveimur áratugum hefur átt sér stað frjó umræða meðal sagn- og stjórnmálafræðinga um vald og þróun bandaríska ríkisvaldsins, einkum á átjándu og nítjándu öld. Horfið hefur verið frá söguskoðun kalda stríðsins sem fól í sér að bandaríska ríkið hefði verið veikburða og samfélagið þar af leiðandi einkennst af einstaklings- og markaðsfrelsi án íhlutunar hins opinbera. Ekki er lengur litið svo á að bandaríska ríkisvaldið hafi verið veikburða á tímabilinu en uppi eru ólík sjónarmið um áhrif ríkisvaldsins á bæði þjóðfélagsþróun og alþjóðastjórnmál. Þó er bæði beint og óbeint gengið út frá því að meta megi getu ríkisvaldsins út frá stærð þess og stærðin er helst mæld í ríkisútgjöldum og fjölda opinberra starfsmanna. Í erindinu verður rætt um takmarkanir þessarar nálgunar og fjallað um annars konar hugmyndir um getu ríkisins sem bandarískir stjórnmála- og embættismenn mótuðu í kjölfar frönsku byltingarinnar og Napóleonstyrjaldanna. Samkvæmt þessum hugmyndum réði stærð ríkisins ekki úrslitum, heldur geta þess til að þróa og nýta tækniþekkingu til að framkvæma ákvarðanir og styrkja vald sitt. Þá verður einnig fjallað um hvernig þróun vísinda og tækni geta varpað ljósi á vald og getu ríkisins í víðara samhengi.