Lifandi mál: Tilbrigði og breytingar á íslenskum orðaforða, framburði, beygingum og setningagerð

Í Árnagarði 201 laugardaginn 11. mars kl. 13:00-16:30. Smellið hér til að fylgjast með í streymi.

Í málstofunni verður leitast við að varpa ljósi á breytileika og þróun í íslensku máli. Sagt verður frá málnotkun ungmenna, tilbrigðum og nýjungum í íslensku nútímamáli og fjallað um þróun staðbundinna framburðarafbrigða á 20. öld. Sjónum verður m.a. beint að enskulegum tilbrigðum í íslenskri setningagerð, þróun viðtengingarháttar, breytileika í fallmörkun, íslensk-enskum málvíxlum í tölvuleikjasamtölum unglinga og vestfirskum einhljóðaframburði. 

Málstofustjórar eru Ásgrímur Angantýsson og Sigríður Sigurjónsdóttir og Höskuldur Þráinsson kynnir fyrirlesara og stýrir umræðum.

Fyrirlestrar

Í fyrirlestrinum verður varpað ljósi á nýlega þróun og tilbrigði í íslenskri setningagerð. Í fyrsta lagi verður litið til mats mismunandi aldurshópa í öndvegisverkefni Sigríðar Sigurjónsdóttur og Eiríks Rögnvaldssonar, Greining á málfræðilegum afleiðingum stafræns málsambýlis, (2016−2019) á sjálfsprottnum formgerðum á borð við nýju setningagerðina, tilbrigði í frumlagsfalli og háttanotkun í aukasetningum með samanburði við niðurstöður Höskuldar Þráinssonar o.fl. á Tilbrigðum í íslenskri setningagerð (2005−2007). Í öðru lagi verður sagt frá mati þátttakenda í Sambýlisrannsókninni á enskulegum tilbrigðum í setningagerð eins og sögn í þriðja sæti aðalsetninga, tilteknum gerðum útvíkkaðs framvinduhorfs og lyftingu út úr nafnhætti. Í þriðja lagi verða tekin dæmi úr viðtalshluta Sambýlisrannsóknarinnar og Unglingamálsrannsókn Helgu Hilmisdóttur o.fl. (2018−2020) um nokkur áður ókönnuð setningarleg atriði sem gætu tengst nánu sambýli íslensku og ensku. Meðal niðurstaðna er að (i) þær setningagerðir sem kannaðar voru í Tilbrigðarannsókninni á sínum tíma fá almennt betri viðtökur í Sambýlisrannsókninni, óháð aldurshópum, (ii) sumar enskulegar setningagerðir fá jákvæðari dóma í Sambýlisrannsókninni í yngri aldurshópunum en aðrar ekki og (iii) ýmsar áhugaverðar vísbendingar um enskulega þróun í setningagerð er að finna í frjálsum samtölum unglinga.

Innan barnahluta öndvegisverkefnisins Greining á málfræðilegum afleiðingum stafræns málsambýlis (2016–2019) tóku 106 börn á aldrinum 3–12 ára þátt í ítarlegum viðtalsprófunum. Lögð var áhersla á að kanna magn íslensku og ensku í málumhverfi og málnotkun barnanna, og tengsl þessara þátta við íslenska og enska málfærni þeirra, bæði orðaforða og málfræði. Þannig var m.a. athugað hvort enskumagn spáir fyrir um íslenska málfærni barnanna, en niðurstöður tölfræðilegrar greiningar á fjölmörgum íslenskum málfræðibreytum leiddu í ljós að slík áhrif komu aðeins fram í neikvæðu sambandi stafræns enskumagns við hefðbundna notkun viðtengingarháttar í íslensku. Þessi niðurstaða er áhugaverð í ljósi þess að viðtengingarháttur er horfinn sem virk regla í þeim germönsku málum sem eru náskyldust íslensku auk þess sem hann hefur látið undan síga hjá spænskumælandi málhöfum í málsambýli við ensku í Bandaríkjunum. Mikilvægt er þó að hafa í huga að ýmis tilbrigði hafa lengi verið til staðar í notkun viðtengingarháttar og framsöguháttar í nútímaíslensku. Í erindinu er rýnt nánar í ofangreindar niðurstöður um áhrif ensks ílags á hefðbundna notkun viðtengingarháttar íslenskumælandi barna á aldrinum 3–12 ára. Lýst verður einstaklingsmun í svörum og dreifingu svara eftir prófsetningum og niðurstöðurnar skoðaðar út frá niðurstöðum fyrri rannsókna á tileinkun og þróun viðtengingarháttar í íslensku.

Þágufallsglötun í þolmynd (Hann var leikstýrður af frægum leikstjóra) er málbreyting sem er að festa sig í sessi í málinu en í staðalíslensku er þágufall germyndar alltaf varðveitt í samsvarandi þolmynd (Honum var leikstýrt af frægum leikstjóra - Frægur leikstjóri leikstýrði honum). Þágufallsglötun er útilokuð fyrir marga málhafa en þeir sem hafa hana í máli sínu leyfa einnig hefðbundna þolmynd með varðveislu þágufalls. Þetta kemur fram í nýlegri rannsókn Ásbjargar Benediktsdóttur (2023) en hún sýnir einnig að þágufallsglötun er útbreidd meðal framhaldsskólanema og þar að auki eru ýmis dæmi um hana í Risamálheildinni. Fallglötun kemur frekar fram með beinum andlögum í þágufalli en óbeinum og það kemur ekki á óvart þar sem þágufall er algengasta fall á óbeinum andlögum í íslensku. Sams konar munur á beinum og óbeinum andlögum kemur einnig fram í þolmynd í færeysku og sögulegri þróun þágufalls í sænsku þar sem það hélst lengur á óbeinum andlögum. Merking sagnarinnar skiptir einnig máli en hins vegar er þágufallsglötun ekki skilyrt af nafnliðarfærslu í þolmynd (Þá er bara skelltur dúkur á matarborðin) ólíkt því sem er í færeysku.

Í fyrirlestrinum er fjallað um samspil íslensku og ensku eins og það birtist í málnotkun fjögurra unglingsdrengja sem spila saman tölvuleiki (FIFA og Grand Theft Auto) í gegnum netið. Byggt er á gögnum sem aflað var innan ramma Unglingamálsrannsóknar Helgu Hilmisdóttur o.fl. (2018–2020) og leitast við að greina hlutverk málvíxla, þ.e.a.s. þegar gripið er til orða, orðasambanda, setninga og jafnvel lengri segða á ensku þar sem íslenska er annars grunnmálið, en slík víxl eru gjarnan talin vera eitt helsta einkenni unglingamáls. Niðurstöður samræmast rannsókn Helgu Hilmisdóttur (2021) að því leyti að enskunotkun virðist vera allnokkur og er t.a.m. talsvert algengari í þessu málumhverfi en í skrifuðu spjalli íslenskra ungmenna á Facebook og Messenger (Finnur Friðriksson og Ásgrímur Angantýsson, 2021). Notkun ensku er þó einkum bundin við þrjú svið: (i) við beinar vísanir í þann tölvuleik sem spilaður er hverju sinni, (ii) í upphrópunum og blótsyrðum, og (iii) í vissum föstum frösum. Hins vegar er lítið um að enska sé notuð í samfelldu máli.

Björn Guðfinnsson rannsakaði íslenskan framburð á 5. áratug 20. aldar. Yfirlitsrannsókn hans náði til barna og ungmenna á öllu landinu sem flest voru 1113 ára. Niðurstöður birtust í bókunum Mállýzkur I og II en frumgögnin eru varðveitt hjá Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni.

Þátttakendur á Ísafirði og í Ísafjarðarsýslum voru 454. Samkvæmt niðurstöðum sem teknar eru saman í Mállýzkum II notaði 31,1% hreinan vestfirskan einhljóðaframburð, þ.e. hjá þeim komu aðeins einhljóð fyrir á undan ng og nk (langur, banki). Um 5% notuðu alfarið tvíhljóðaframburð, en hjá 63,7% var framburðurinn blandaður, báðum afbrigðum brá fyrir.

Rannsókn á gögnum Björns hefur leitt í ljós að á sumum svæðum er hægt að fá allnákvæmar upplýsingar um framburð þeirra sem töldust nota blandaðan framburð. Á grundvelli þeirra er hægt að reikna út hlutfall landshlutabundinna afbrigða á tilteknu svæði. Í fyrirlestrinum verður sagt frá slíkri athugun á þessum vestfirsku gögnum Björns. Hvað geta þau sagt okkur um stöðu vestfirska einhljóðaframburðarins og hversu áreiðanlegar eru þær upplýsingar? Í lokin verða dregnar verða fram niðurstöður úr RÍN-rannsókninni, frá 9. áratugnum, til samanburðar við rannsókn Björns.