Þýðingar, viðtökur, aðlaganir: Mandelstam, Camus, Shakespeare, Beckett, Ionesco, Kristín Jóhannesdóttir

Image

Þýðingar, viðtökur, aðlaganir: Mandelstam, Camus, Shakespeare, Beckett, Ionesco, Kristín Jóhannesdóttir

Í Odda 206 föstudaginn 7. mars kl. 13:15-16:15.

Í málstofunni verður fjallað um þýðingar og viðtökur á verkum sex erlendra rithöfunda á Íslandi. Rebekka Þráinsdóttir stiklar á stóru um sögu rússneska ljóðskáldsins Osips Mandelstams á Íslandi en hann öðlaðist mikla frægð í bókmenntaheiminum á tímum kalda stríðsins í kjölfar útgáfu endurminninga eiginkonu hans. Ásdís Rósa Magnúsdóttir gerir grein fyrir íslenskum þýðingum á skáldsögum Alberts Camus, ÚtlendingnumPestinni og Fallinu, og rýnir í viðtökur þeirra á 6. og 7. áratugi síðustu aldar. Ingibjörg Þórisdóttir fjallar um gagnrýni á þýðingu Matthíasar Jochumssonar á leikritinu Othello eftir William Shakespeare og þar næst gerir Guðrún Kristinsdóttir  grein fyrir helstu þýðingum og uppsetningum á leikritum Samuel Becketts og Eugène Ionesco í íslenskum leikhúsum og viðtökur þeirra.  Að lokum mun Irma Erlingsdóttir fjalla um franskan/frönskumælandi póststrúktúralisma og femínisma á íslenskum vettvangi eins og hann birtist í verkum kvikmyndaleikstjórans Kristínar Jóhannesdóttur.

Fyrirlestrar

Rússneska ljóðskáldið Osip Mandelstam flutti frumsamið mergjað níðkvæði um Stalín í „góðra vina“ hópi árið 1933. Einhver úr þessum hópi lak efni kvæðisins til fólks á æðri stöðum og þar með voru örlög Mandelstams ráðin. Eftir mikla þrautagöngu lést hann í útlegð, farinn að kröftum og andlegu þreki, í lok árs 1938. Þegar endurminningar ekkju hans, Nadezhdu Mandelstam, komu út árin 1970 og 1974 vaknaði áhugi á lífi og starfi Mandelstams og ekki síður aðstæðum rithöfunda í Sovétríkjunum. Ísland var þar engin undantekning. Víða í Evrópu var farið að þýða ljóð Mandelstams af kappi og fræðileg umfjöllun um höfundarverk hans fór á flug. Hér heima hverfðist umræðan einkum um stöðu Mandelstams sem píslarvottur í Sovétríkjunum. Þegar þær fáu íslensku þýðingar sem til eru á ljóðum skáldsins fóru að birtast var farið að hrikta í stoðum Sovétríkjanna og umræðan um minningar Nadezhdu Mandelstam, og skáldið sjálft, hafði runnið sitt skeið.

Í erindinu verður stiklað á stóru um sögu Mandelstams á Íslandi, þýðingar og viðtökur. Athyglinni verður ekki síst beint að því hvernig ljóðlist Mandelstams hefur fundið sér óvæntan farveg hjá íslenskum listamönnum, rithöfundum og fræðimönnum.    

Rithöfundurinn Albert Camus fæddist í Alsír árið 1913 og varð þekktur í Frakklandi þegar skáldsaga hans Útlendingurinn kom út í París 1942, sama ár og heimspekiritgerðin Goðsagan um Sísýfos. Camus var umdeildur í lifanda lífi, meðal annars fyrir stjórnmálaskoðanir sínar og afstöðu til sjálfstæðibaráttu Alsírs, og þrátt fyrir vinsældir og viðurkenningar hafa verk hans víða hlotið blendnar viðtökur. Hann sendi frá sér nokkur ritgerðasöfn, þrjár skáldsögur, eitt smásagnasafn og fjögur leikrit og vann að  sjálfsævisögulegri skáldsögu þegar hann lést af slysförum árið 1960. Í samanburði við rit margra þekktra samtímahöfunda hans, svo sem Jean-Paul Sartre og Simone de Beauvoir sem heimsóttu Ísland árið 1951, hafa mörg verka Camus ratað til lesenda hér á landi í íslenskum þýðingum allt frá því að Jón Óskar sneri Plágunni á íslensku árið 1952. Í fyrirlestrinum verður farið stuttlega yfir þýðingar á skáldsögum Camus hér á landi og rýnt í viðtökur þeirra.

Árið 1882 gaf Hið íslenska bókmenntafélag út þýðingu Matthíasar Jochumssonar á Óþelló sem var þriðja þýðing hans á verkum eftir Shakespeare. Í þetta sinn virðist honum hafa brugðist bogalistinn því Eiríkur Magnússon, bókavörður í Cambridge skrifað ritdóm í Þjóðólf sem náði yfir tvö tölublöð og hafði hann ýmislegt út á þýðinguna að setja, m.a. að Matthías hafi stuðst um of við sænska þýðingu Hagbergs. Í þessum fyrirlestri mun ég  nefna nokkur dæmi úr ritdómnum og reyna að sannreyna eða hrekja ritdóm Eiríks.

Í erindinu verðu stiklað á stóru um frönsku framúrstefnuna og leikhús fáránleikans á íslenskum leiksviðum, með sérstaka áherslu á þýðingar og uppsetningar á leikritum Samuels Beckett og Eugènes Ionesco. Fjallað verður um tilraunaleikhús á Íslandi á sjöunda áratugnum, sem telja má blómaskeið leikhúss fáránleikans á Íslandi. Þá verður sýningarsaga leikrita Beckett og Ionesco rakin lauslega til dagsins í dag.

Kristín Jóhannesdóttir (f. 1948) er þekkt fyrir kvikmyndirnar Alma (2021), Svo á jörðu sem á himni (1992) og Vegamót (1983). Hún var um langt skeið eina konan í hópi kvikmyndaleiksstjóra á Íslandi. Hún fórðaðist gjarnan hefðbundna rökvísi og fjarlægði veruleikann frá hinu kunnuglega í leit að óræðum fyrirbærum sem birtast í falinni eða bældri sannleiksleit. Samkvæmt franska femíníska heimspekingnum Luce Irigaray viðheldur eftirlíking (mimesis) kvenleikanum sem hinum eða annars flokks. Til að ögra slíkum tilhneigingum talaði hún fyrir mikilvægi þess sem hún kallaði parler-femme („kvennamál“), með það að markmiði að raska ríkjandi speglandi formgerðum. Verk Kristínar bera sterk áhrif frá frönskum póststrúktúralisma, einkum femínískum afbrigðum hans, sem var ráðandi gagnrýnin orðræða seint á sjöunda og á áttunda áratugnum – þegar hún bjó og stundaði nám í Frakklandi. Í fyrirlestri sínum mun Irma skoða kvikmyndir Kristínar og varpa ljósi á áhrif póststrúktúralisma og siðferðileg, félagsleg, pólitísk og fagurfræðileg áhrif hans. Kristín hefur lýst verkum sínum sem knúnum áfram af „takmarkalausri forvitni“ um hið óvænta í hinu kunnuglega. Eins og fram mun koma birtist þetta í verkum hennar bæði í efnistökum og þeim myndrænulegum sjónarhornum sem hún velur að beita. Sérstök áhersla verður lögð á áhrif belgíska leiksstjórans Chantal Akerman á verk Kristínar.