Nýjar rannsóknir í listfræði. Endurskoðun listasögunnar

Í Árnagarði 422 laugardaginn 11. mars kl. 10:00-12:00.

Undanfarin ár hefur mikil gróska verið í rannsóknum á íslenskri samtímalist og ný skrif birst á innlendum og erlendum vettvangi. Listfræði við Háskóla Íslands leggur áherslu á að tengja nýjar rannsóknir við innlendar og erlendar stofnanir. Hér verða kynnt rannsóknarverkefni sem unnin eru í samvinnu við Listasafn Reykjavíkur, Hönnunarsafn Íslands, bandaríska listfræðitímaritið October, og Samband íslenskra myndlistarmanna (SÍM).

Málstofustjóri er Æsa Sigurjónsdóttir, dósent í listfræði við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands.

Fyrirlestrar

Árið 2021 var stofnuð tímabundin rannsóknarstaða innan Listasafns Reykjavíkur í samstarfi við listfræði við Háskóla Íslands. Tilgangur verkefnisins er að varpa frekara ljósi á hlut kvenna innan íslenskrar myndlistarsögu og hlaut það öndvegisstyrk Safnaráðs til þriggja ára. Sigrún Inga Hrólfsdóttir segir frá helstu niðurstöðum rannsóknarverkefnis um myndlistarkonuna Hildi Hákonardóttur (f. 1938). Hildur hefur haft áhrif á sviði jafnréttisbaráttu, kennslu í myndlist og ræktun, en megin miðill hennar er myndvefnaður. Hún var ein af stofnendum Rauðsokkahreyfingarinnar, starfaði innan SÚM og var skólastjóri Myndlista- og handíðaskóla Íslands á árunum 1975-78. Sigrún Inga Hrólfsdóttir er myndlistarkona og fyrrverandi deildarforseti myndlistardeildar Listaháskóla Íslands. Hún er höfundur bókar um feril Hildar og sýningarstjóri sýningarinnar Rauður þráður á Listasafni Reykjavíkur, Kjarvalsstöðum. Sýningin opnaði 14. janúar og lýkur þann 12. mars 2023. 

Ákveðin kaflaskil áttu sér stað í verkum myndlistarmannsins Dieter Roth á fyrstu árum sjöunda áratugarins, þegar hann hóf að vinna verk úr efnum sem brotna auðveldlega niður eða umbreytast með náttúrulegum ferlum, svo sem fóðri og úrgangi dýra og ýmiss konar matvöru, eins og súkkulaði, osti, súrmjólk og fleiru. Um leið þróaðist myndlist Roth frá hinni öguðu, kerfisbundnu fagurfræði konkretlistarinnar og tók á sig óreiðukenndari form og ferla sem ráðast að miklu leyti af hinu óvenjulega efnisvali listamannsins. Dýr og aðrar ómennskar verur og öfl leika lykilhlutverk í mörgum hinna lífrænu verka Roth, bæði sem myndefni og sem þátttakendur í umbreytingu þeirra og sjálfur lýsti listamaðurinn afstöðu sinni og þeirri breytingu sem átti sér stað á verkum hans á sjöunda áratugnum með vísun í hið dýrslega. Í erindi sínu mun Heiða Björk gera grein fyrir rannsókn sinni á hlutverki hins náttúrulega og ómennska í listhugsun Dieter Roth og gagnrýni hans á vestræna fagurfræði og myndlistarhefð.

Hugmyndaheimur arkitektsins og hönnuðarins Einars Þorsteins Ásgeirssonar (1942−2015) átti sér fá takmörk og snerti á allri mannlegri tilvist, frá vistvænum kúluhúsum, til barnaleikfanga og geimbyggðar á fjarlægum reikistjörnum. Hugmyndum hans var þó oft fálega tekið á meðan hann lifði, en segja má að ferill Einars Þorsteins hafi fengið endurnýjun lífdaga þegar hann kynntist listamanninum Ólafi Elíassyni skömmu fyrir aldarmótin 2000 og hóf störf í Studio Olafur Eliasson í Berlín. Stúdíóinu hefur verið lýst sem list-tilraunastofu af listamanninum sjálfum, sem og fræðimönnum, en þar koma saman á annað hundrað sérfræðingar. Með fyrirkomulaginu hefur fæðst hugmyndaverksmiðja þar sem Ólafur Elísson hagnýtir sérfræðiþekkingu starfsmanna sinna til eigin listsköpunar. Fjallað verður um samstarf Einars Þorsteins og Ólafs Elíassonar og hugmyndavinnu í stúdíó fyrirkomulagi hins hnattvædda listheims.

Með stofnun Sambands íslenskra myndlistarmanna árið 1982 sameinuðust myndlistarmenn í einu félagi eftir að hafa verið meira og minna sundraðir frá upphafi. Í fyrirlestrinum fjallað um forsögu SÍM og tilraunir til að samena myndlistarmenn undir einn hatt, allt frá þriðja áratug tuttugustu aldar. Síðan verður aðdragandi stofnunar SÍM skoðaður nánar og hvernig loks tókst að ná samstöðu um sameinuð samtök. Að lokum verður stiklað á stóru í sögu samtakanna undanfarna fjóra áratugi. Í því samhengi verða helstu baráttumál samtakanna rædd og skoðað hvernig áherslur og aðstæður myndlistamanna hafa breyst í grundvallaratriðum frá 1982.