Nýyrði og hlutverk þeirra í mótun orðræðu

Image

Nýyrði og hlutverk þeirra í mótun orðræðu

Í Árnagarði 310 laugardaginn 8. mars kl. 15:00-16:30.

Nýyrði gegna mikilvægu hlutverki í mótun orðræðu þar sem þau geta kynnt nýjar hugmyndir eða þekkingu. Með nýjum orðum má styrkja, skýra eða jafnvel breyta umræðunni, meðal annars með því að opna nýjar leiðir til að hugsa um málefni eða tjá sig. Þessi þróun hefur bein áhrif á hvernig við hugsum saman sem samfélag.

Í þessari málstofu verður fjallað um hlutverk nýyrða í tengslum við annars vegar umhverfismál og hins vegar kórónuveirufaraldurinn. Meðal umhverfisorða má nefna orðið hamfarahlýnun sem endurspeglar afleiðingar hnattrænnar hlýnunar fyrir náttúruna og jarðarbúa og orðið grænþvottur (e. greenwashing) sem vekur fólk til umhugsunar um siðferðileg álitamál í markaðssetningu og aðgerðum fyrirtækja. Þessi orð hafa stuðlað að dýpri skilningi á umhverfisáhrifum og þeim áskorunum sem fylgja loftslagsbreytingum.

Á tímum kórónuveirufaraldursins komu mörg ný orð inn í tungumálið, svo sem fjarlægðarmörk og örvunarbólusetning. Þessi orð gegndu lykilhlutverki við að skapa sameiginlegan skilning á því hvernig samfélög ættu að bregðast við faraldrinum. Þau hjálpuðu til við að móta og samræma viðbrögð samfélagsins á þessum erfiðu tímum. Jafnframt komu fram óformleg orð sem fólk notaði í daglegu tali til þess að lýsa nýjum aðstæðum, eins og ýmis orð með forskeytinu fjar- og kóviti.

Fyrirlestrar

Kórónuveirufaraldurinn hafði víðtæk áhrif á samfélagið og leiddi meðal annars til gríðarlegs álags á heilbrigðiskerfið, efnahagslegra áskorana og lokana fyrirtækja og skóla. Hann setti einnig mark sitt á tungumálið og fjöldi nýrra orða og orðasambanda varð til, sum eldri orð fengu viðbótarmerkingu og sérhæfður orðaforði færðist yfir í almennt mál.

Hluti af þessum orðaforða, s.s. nýgengi, endursmit, smitrakning, sóttvarnarhólf, raðgreining, PCR-próf er kominn frá sóttvarnaryfirvöldum þar sem þörf var á nákvæmum hugtökum til að útskýra sóttvarnaraðgerðir. Fjölmiðlar gegndu lykilhlutverki í dreifingu þessara orða sem voru mikilvæg í að skapa sameiginlegan skilning á því hvernig samfélagið skyldi bregðast við faraldrinum.

Á þessum tíma urðu einnig til fjölmörg orð og orðasambönd í almennri umræðu og á samfélagsmiðlum sem sýndu upplifun fólks af faraldrinum. Orð eins og kóviti, kófið, fjartí, farsóttarþreyta og bólusetningaröfund eru dæmi um slík orð. Einnig komu fram orð sem endurspegluðu greinilega  neikvæða afstöðu til sóttvarnaraðgerða stjórnvalda s.s. bólusetningarklúður, bólusetningarsamsæri og sóttkvíarfangelsi.

Umhverfismál hafa verið fyrirferðarmikil í samfélaginu síðustu ár og áratugi, ekki síst í tengslum við loftslagsbreytingar af mannavöldum og aðgerðir til þess að sporna gegn þeim. Í tengslum við þá umræðu hafa orðið til mörg nýyrði. Sum orðanna hafa stöðu fræðilegra heita eða íðorða og eru notuð í lagatextum, fréttum o.s.frv. Önnur eru frekar notuð í almennri umræðu og geta verið gildishlaðin og aðeins notuð af þeim sem hafa tiltekna afstöðu til þess hvað eigi að gera eða hvort loftslagsbreytingar raunverulega ógni mannkyni eða ekki.

Sem dæmi má nefna þau orð sem notuð eru um breytingarnar sjálfar. Nú er oftar talað um loftslagsbreytingar (af mannavöldum) en hlýnun jarðar, en áður var hugtakið gróðurhúsaáhrif mikið notað. Á síðustu árum hefur orðið hamfarahlýnun náð útbreiðslu en það var valið orð ársins bæði af Árnastofnun og hlustendum RÚV árið 2019. Orðið gróðurhúsakenning kemur líka fyrir og virðist helst notað af fólki sem efast um áhrif loftslagsbreytinga.

Í erindinu verður fjallað um hvers konar nýyrði birtast í tengslum við umhverfismál, sérstaklega loftslagsmál, í Risamálheildinni og í öðrum vefheimildum, og til hvers þau eru notuð.