Orðmyndun og merking
Orðmyndun og merking
Í Árnagarði 201 föstudaginn 7. mars kl. 13:15-14:45.
Á málstofunni verða kynntar nýjar rannsóknir á sambandi orðmyndunar og merkingar í íslensku. Þessar rannsóknir eru í mótun og niðurstöður þeirra hafa ekki birst enn sem komið er. Fjallað verður um smækkunarviðskeyti og smækkunarliði (e. diminutives) og þessar einingar ræddar út frá merkingu, virkni og lauslegum samanburði við skandínavísk mál. Einnig verður fjallað um þá tegund orðmyndunar þegar sögn er dregin af nafnorði án aðskeytis eða innskeytis (e. conversion) og þá sérstaklega um einn undirflokk hennar með dæmum frá undanförnum árum og þau skoðuð í samhengi við nýja samskiptahætti Internets og samfélagsmiðla. Þriðja erindið á málstofunni fjallar um samspil forskeyta og agna, sbr. að marggefa út og að endurútgefa.
Fyrirlestrar
Smækkunarviðskeyti og smækkunarliðir (e. diminutives) hafa lítið verið til umræðu í íslenskri orðmyndun til þessa (sjá stuttar umfjallanir hjá t.d. Guðrúnu Kvaran 2006, 2014 og Þorsteini G. Indriðasyni 2016). Í íslensku eru til orðmyndunareiningar sem hugsanlega mætti flokka þannig. Sumar þeirra eru viðskeyti sbr. -lingur, -ungur, -ildi og -etta (bæklingur, piltungur, flygildi, disketta) á meðan aðrar eru orðlíkir liðir eða sjálfstæð orð, sbr. -hýsi, -korn, -líki, -mynd, -drusla, -dula, -nefna og -stauli (hjólhýsi, ræðukorn, skáldsögulíki, skýrslumynd, manndrusla, skoðanadula, formannsnefna og strákstauli). Þessar orðmyndunareiningar hafa flestar það hlutverk að draga úr merkingu grunnorðsins sem þær standa með og eiga heima innan þess sem við getum kallað ‚gildismorfólógíu‘ (e. evaluative morphology, sjá t.d. Bauer 1997, Schneider 2003 og Calvo 2019).
Í erindinu verða þessar einingar nánar ræddar út frá virkni, merkingu og eðli. Einnig verður gerð tilraun til þess að tengja þær umræðu um smækkunarviðskeyti á erlendum vettvangi, sbr. t.d. Schneider (2003), Manova, Grestenberger og Korecky-Kröll (2024) og Alexiadou og Lohndal (2023).
Heimildir
Alexiadou, Alexis og Terje Lohndal. 2023. Germanic diminutives: a case study of gap in Norwegian. The Journal of Comparative Linguistics (2023) 26:2 (online).
Bauer, Laurie. 1997. Evaluative Morphology: In Search of Universals. Studies in Language Vol. 21, 3: 533-575.
Calvo, Rafael Martin. 2019. Evaluative Morphology. Conditions and Properties of Evaluative Forms Obtained by Affixation. Dreijers, Guntars, Agnese Dubova og Jãnis Veckrãcis (ritstj.): Bridging Languages and Cultures. Linguistics, Translation Studies and Intercultural Communication, 133-151. Berlin: Frank & Timme.
Guðrún Kvaran. 2005. Orð. Handbók um beygingar- og orðmyndunarfræði. Íslensk tunga II. bindi. Reykjavík: Almenna bókafélagið.
Guðrún Kvaran. 2014. Hversu langt er spottakorn? Vísindavefurinn 28.11.
Manova, Stela, Laura Grestenberger og Katharina Korecky-Kröll. 2024. Diminutives Across Languages: Theoretical Frameworks and Linguistic Domains. Berlin: De Gruyter.
Schneider, Klaus P. 2003. Diminutives in English. Tübingen: Max Niemeyer Verlag.
Þorsteinn G. Indriðason. 2016. 143 Icelandic. Peter O. Müller, Ingeborg Ohnheiser, Susan Olsen og Franz Rainer (ritstj.): Word Formation. An International Handbook of the Languages of Europe, bls. 2578-2600. Berlin: Walter de Gruyter.
Greint er frá niðurstöðum sérrannsóknar á aðskeytislausri myndun sagna af nafnorðum. Dæma var leitað í Risamálheildinni um sögn + „yfir sig“ í herðandi merkingu, ‘allt of mikið’, sbr. eldri dæmi eins og borða yfir sig. Í ljós komu rúmlega 380 sagnir sem telja má nýmyndaðar. Dæmi um flestar eru fá en þessi mikli fjöldi sýnir samt umtalsvert virka orðmyndun. Meðal þess sem kom fram er að rúmlega 70 sagnir eru myndaðar af erlendu orði, t.d. fangirla, hipstera: „[Þær] eru svo mikið að fangirla yfir sig“, „Hér hefur einhver hipsterað yfir sig“. Um 100 eru notaðar í tengslum við íþróttir og um 30 eru beinlínis myndaðar af nafni íþróttafélags, t.d. Tindastóla, Liverpoola. Þá eru yfir 60 sagnir dregnar af mannanöfnum, t.d. Sigmund-Davíða, Bill Gatesa og rúmlega 30 af íbúaheitum og örnefnum, t.d. Húsvíkingast, Benidorma. Þessi og ýmis önnur einkenni sagnanna eru forvitnileg og kveikja spurningar sem reynt verður að svara.
Samspil agna (svo sem inn, upp, út) og ýmissa annarra orða er forvitnilegt. Þannig tölum við um að gefa e-ð út, þar sem ögnin fer á eftir sögninni, og útgáfu en þar hengir ögnin sig framan á nafnorðið. Í þessum fyrirlestri verður samspil forskeyta á sögnum og agna skoðað. Forskeyti á borð við marg- breytir engu um stöðu agnarinnar miðað við sögnina: Rétt eins og talað er um að gefa e-ð út væri hægt að marggefa e-ð út. Hins vegar er hegðun forskeytisins endur- mjög forvitnileg því að það dregur til sín agnir sem myndu annars ekki fara á undan sögninni sem þær eiga við. Ýmis þannig dæmi er að finna í textum á netinu, svo sem Risamálheildinni, sjá a-dæmin, þar sem ekki væri hægt að færa ögnina framan á sögnina ef forskeytisins endur- nyti ekki við, sjá b-dæmin.
(1) a. Ef sá dómstóll endurupptekur málið […]
b. *upptekur
(2) a. Nú er búið að endurútgefa Guttavísurnar frægu […]
b. *útgefa
(3) a. Er búið að endurútreikna lánin […]?
b. *útreikna
(4) a. Sjúklingurinn útskrifaðist […] en var endurinnlagður tveimur vikum síðar […]
b. *innlagður
(5) a. Ég gæti hinsvegar alveg látið endurinnbinda hana […]
b. *innbinda
Þetta verður athugað frekar í fyrirlestrinum þar sem reynt verður að skýra hvernig á þessu stendur.