Prentsaga fyrri alda
Prentsaga fyrri alda
Í Árnagarði 304 laugardaginn 9. mars kl. 15:00-16:30.
Íslendingar stæra sig af því að vera bókaþjóð og þegar litið er til fjölda bóka sem á síðustu 500 árum hefur komið út á íslensku verður ekki vikist hjá því að segja sem svo að þeir hafi fulla ástæðu til þess. Því miður er ekki til samfelld saga íslenskrar bókaútgáfu - innanlands og erlendis - en í þessari málstofu verður gripið niður á þremur tímabilum og tveimur stöðum, í Kaupmannahöfn um miðja 19. öld og að Hólum í Hjaltadal frá miðri 16. öld til loka 18. aldar. Undirliggjandi spurning verður hvort æskilegt sé og mögulegt að freista þess að skrifa víðfeðma en um leið nákvæma bók- og prentsögu landsins.
Fyrirlestrar
Í biskupstíð Guðbrands Þorlákssonar (1541–1627) á Hólum urðu tímamót í bókaprentun og útgáfu kirkjulegra rita þar sem hæst ber úgáfa Biblíunnar 1584 og sálmabókar 1589. Bókaútgáfa Guðbrands var lausn á þeim vanda sem siðskiptin báru með sér um að allt kirkjustarf væri á móðurmálinu og fylgdi þannig eftir fyrirmælum um framkvæmd helgisiða sem Kirkjuskipan Kristjáns III frá 1537 kvað á um. Sálmabókinni 1589 var síðan fylgt eftir með messusöngsbók, Graduale, árið 1594. Sálmabókin var endurútgefin í bættri mynd árið 1619 og hélst þannig fram á miðja 18. öld. Messusöngsbókin kom hins vegar reglulega út eða alls 19 sinnum fram til ársins 1779. Í fyrirlestrinum verður fjallað um útgáfusögu þessara tveggja grundvallarrita kirkju- og trúarlífs Íslendinga og áhrif þeirra á menningu og daglegt líf landsmanna í hálfa þriðju öld.
Umfjöllun um íslenska bóksögu á tímabilinu 1530–1773 hefur lengi verið mótuð af þeirri staðreynd að bókaútgáfa var í höndum kirkjunnar sem lagði mesta áherslu á prentun trúarlegra rita. Stundum er farið nokkuð fljótt yfir þá sögu og dregin upp sú mynd að tímabilið hafi aðallega einkennst af sífelldum endurprentunum sömu guðsorðaritanna og þar við látið sitja. Í fyrirlestrinum verður ráðist í tilviksathugun á bóksögu tímabilsins og athyglinni beint að bókaútgáfu Halldórs Brynjólfssonar Hólabiskups á árunum 1746–1752. Fjallað verður um þær bækur sem komu út á tímabilinu, af hverju þær voru gefnar út, prentun þeirra, auglýsingar, útgáfustefnu, höfunda, verð, viðtökur og þá heimsmynd sem þær birtu íslenskum lesendum um miðja átjándu öld.
Fornritafélag Norðurlanda (Det nordiske Literatur-Samfund) var stofnað í Kaupmannahöfn árið 1847 og stóðu að því jafnt Íslendingar sem Danir. Markmiðið var að annast aðgengilegar útgáfur íslenskra texta frá miðöldum með danskri þýðingu. Meðal fyrstu rita sem komu út var lagasafnið Grágás eins og það liggur fyrir í handritinu Konungsbók (GKS 1157 fol.) Á titilsíðu útgáfunnar er ártalið 1852 en ljóst að fyrsta hefti kom út tveimur árum fyrr og næstu tvö árin 1853 og 1855. Umsjón með verkinu hafði Vilhjálmur Finsen sem hafði lokið lögfræðiprófi frá Hafnarháskóla árið 1846, 23 ára gamall. Dönsk þýðing fylgdi. Til eru tvær gerðir textabindanna tveggja og er önnur þeirra með formála, neðanmálsgreinar og tilvísanir í blaðsíðutal handrits á dönsku en hin á íslensku. Í erindinu verður með hliðsjón af varðveittum og ekki varðveittum kápueintökum grafist fyrir um það hvernig staðið var að þessari tvöföldu útgáfu og í hvaða tilgangi.