Samfélagsheimspeki

Image

Samfélagsheimspeki

Í Árnagarði 301 laugardaginn 8. mars kl. 13:00-16:30.

Í þessari málstofu verða tekin fyrir ýmis álitamál sem upp koma í samfélagsumræðunni eða í samskiptum á milli fólks og þau greind frá heimspekilegu sjónarhorni. Meðal umræðuefna verða afneitun á loftslagsbreytingum, blóðmerahald, sjálfbærnimenntun, fólk á flótta, ástarsambönd, fyrirgefning og femínísk friðarstefna.

Fyrirlestrar

Í nokkrum löndum í heiminum, Íslandi þar á meðal, tíðkast svokallað blóðmerahald. Það felur í sér að blóð er tekið úr fylfullum merum í því skyni að ná í eCG/PMSG-hormón, sem er svo notað til að vinna úr frjósemislyf fyrir aðrar dýrategundir, meðal annars svín og sauðfé. Þannig má segja að átt sé við frjósemi kvendýra tveggja tegunda áður en ferlið skilar sér í kjötsneið á disknum okkar: Fyrst er séð til þess að ákveðnar merar verði fylfullar, svo er blóð tekið úr þeim og notað til að sjá til þess að gyltur gjóti fleiri grísum, til að hámarka kjötframleiðslu, allt í okkar þágu.

Í þessum fyrirlestri er þetta ferli skoðað út frá hugmyndum úr femínískri siðfræði og gagnrýni á mannmiðað sjónarhorn. Litið verður til tveggja heimspekirita um hver skipti siðferðilegu máli, eða eigi að rúmast innan ramma siðfræðinnar, annars vegar Animals and Why They Matter (1984) eftir Mary Midgley og hins vegar Inside Ethics (2016) eftir Alice Crary. Einnig verður fjallað um gagnrýni Lori Gruen á mannmiðun og mannlega undantekningarhyggju (e. human exceptionalism) og horft til Carol J. Adams sem vakti athygli undir lok síðustu aldar fyrir að bera saman kúgun kvenna og kúgun dýra (t.d. með bókinni The Sexual Politics of Meat).

Femínísk heimspeki og kvennabarátta eiga í gagnkvæmu, víxlverkandi sambandi og fræðin hafa þannig þróast með breyttum heimi og aðstæðum. Í erindinu mun ég skoða og bera saman nokkrar áhrifamiklar femínískar hugmyndir um frið og átök í sögulegu ljósi. Femínískir heimspekingar hafa verið atkvæðamiklir í umræðum um friðarhugtakið í áratugi. Stríð og átök eru enda mjög kynjuð fyrirbæri. Stríðsrekstur, (alþjóða)stjórnmál og herskylda hafa verið karllæg svið í ár og aldir á meðan sköpun lífs (endurframleiðsla mannkyns), umhyggja eða hjúkrun hefur fallið konum í hlut. Sömuleiðis hafa átök og ofbeldi verið tengd karlmennsku á meðan mýkt, umhyggja og friður hafa verið kvengerð. Konur hafa og verið atkvæðamiklar í baráttu gegn stríði alla 20. öldina og mikil skörun hefur verið milli kvennahreyfinga og friðarhreyfinga og orðræða byggð á mæðrahyggju skýtur reglulega upp kollinum. Leiðandi stef í femínískri heimspeki hefur þó verið gagnrýni á kynjaeðlishyggju sem hefur haft í för með sér ákveðið uppgjör við hugmyndina um konur sem friðsamar í eðli sínu. Sömuleiðis hefur samþætting mismunabreyta verið fyrirferðamikil í femínískri heimspeki og orðræðan um alþjóðlegt systralag verið gagnrýnd. Að lokum hefur femínísk tengslaverufræði verið atkvæðamikil meðal femínískra heimspekinga síðustu ár, sér í lagi í tengslum við frið, átök og félagslegt réttlæti

Andspænis þeim hnattrænu áskorunum sem við blasa – loftslagsbreytingum, stríðum, aukinni misskiptingu og gervigreind sem þrengir að mennskunni úr ólíkum áttum – þá er stærsta áskorun menntakerfa Vesturlanda að hjálpa ungum sem öldnum að dreyma með nýjum hætti. Sú gráa heimsmynd sem við blasir sýnir okkur að fall mannkynsins er fólgið í þeim sameiginlega draumi sem fólk keppist við að raungera, drauminum um að drottna yfir náttúrunni; ná tökum á náttúrunni og láta hana fæða okkur og klæða. Þrátt fyrir stöðugar breytingar síðan í árdaga iðnbyltingarinnar þá hefur draumurinn um að drottna yfir náttúrunnar verið ótrúlega stöðugur. Hér á landi hefur þessi draumur birst í því að fallvötnum er umbreytt í rafmagn fyrir heimili og iðnað, og heitt vatn leitt inn á heimili fólks til að gera þau hlý og notaleg. En á sama tíma vitnar ástand jarðarinnar um að á meðan draumurinn um þægindi og öryggi hefur smátt og smátt orðið að veruleika, þá verðum við að læra að dreyma með nýjum hætti ef þessi draumur á ekki snúast upp í martröð. Í erindinu mun ég fjalla um hvernig við verðum að læra að dreym upp á nýtt og hvers vegna það felur í sér grundvallarbreytingar á hugmyndum okkar um menntun.

Í erindinu skoða ég hvernig barneignir hafa áhrif á þekkingarbyrði einstaklinga í gagnkynja samböndum. Ég velti því fyrir mér hvernig samfélagslegar væntingar og hugmyndir um jafnrétti móta ójafna dreifingu þekkingarlegrar vinnu og ábyrgðar í parasamböndum. Ég mun skoða kenningar og hugtök sem tengjast hugrænu og tilfinningalegu vinnuframlagi í nánum samböndum og uppeldi barna, og tengi það við hugmyndir um þekkingarlegt óréttlæti og upplýsingaóreiðu samtímans. Ég færi rök fyrir því að í samfélögum sem telja sig hafa náð kynjajafnrétti verði kynjuð slagsíða í slíkri vinnu síður sýnileg og meira bundin við einstaklinga, sem skapar áskoranir fyrir konur í nánum samböndum.

Á undanförnum árum hafa ýmsir aðilar, þar á meðal fræðimenn af ýmsu tagi, reynt að færa margs konar rök gegn því að loftslagsbreytingar séu að mestu eða miklu leyti af mannavöldum. Fullyrða má að allar slíkar tilraunir hafi mistekist hrapallega. Hvaða afleiðingar ætti þetta að hafa fyrir umræðuna um loftslagsbreytingar af mannavöldum? Og hvaða þýðingu hefur það almennt fyrir trúverðugleika tiltekinnar vísindakenningar að margar misheppnaðar tilraunir hafi verið gerðar til að hrekja hana? Í þessu erindi færi ég rök fyrir því að misheppnaðar hrakningatilraunir veiti okkur oft aukna ástæðu til að trúa kenningunni – umfram þau hefðbundnu vísindalegu rök sem eru fyrir henni – og að þetta eigi sérstaklega við um þá „kenningu“ (eða staðreynd) að loftslagsbreytingar eru að miklu eða mestu leyti af mannavöldum. Í þessum skilningi hefur loftslagsafneiturum tekist að gera sjálfum sér og skoðanasystkinum sínum þekkingafræðilegan bjarnargreiða.