Sannsögur
Sannsögur
Í Árnagarði 301 laugardaginn 8. mars kl. 10:00-12:00.
Sannsaga er þýðing á enska hugtakinu creative nonfiction en skrif sem falla undir þann hatt hafa víða verið fyrirferðarmikil á undanförnum árum og notið mikilla vinsælda. Sannsaga felur í sér ákveðið viðhorf til þess sem sannara reynist og sækir sér verkfæri í kistu frásagnarlistarinnar til að miðla sínu sannsögulega efni. Í málstofunni verður gerð grein fyrir hugtakinu, einkennum sannsagna og siðferðislegum álitaefnum þegar skrifað er um annað fólk, auk þess sem fjallað verður sérstaklega um tvö af helstu birtingarformum skrifa af þessu tagi, esseyjur og ferðasögur.
Fyrirlestrar
Hugtakið „sannsaga“ er haft um bókmenntir þar sem aðferðum frásagnarlistarinnar er beitt til þess að miðla sannsögulegu efni. Oftar en ekki felur það í sér að breyta efninu að einhverju leyti í fyrstu persónu frásögn með tilheyrandi sviðsetningum og stílbrögðum. Hugsunin á bak við íslenska hugtakið verður útskýrð í fyrirlestrinum og helstu einkenni sannsagna tíunduð, auk þess sem þær verða staðsettar í litrófi skáldaðra og óskáldaðra bókmennta. Eins og íslenska heitið ber með sér stefna höfundar sannsagna að því að hafa það sem sannast reynist en eru um leið meðvitaðir um þau takmörk sem minnið setur.
Ferðaskrif hafa tekið umtalsverðum breytingum í gegnum aldirnar, enda færist hlutverk þeirra frá því að vera ýmist praktískt eða vísindalegt tól landkönnuða og ferðalanga yfir í að verða að bókmenntum sem virðast ýmist hugsaðar til afþreyingar eða fræðslu. Ferðasagan náði miklum vinsældum á millistríðsárunum og aftur á áttunda áratug síðustu aldar en hún hefur líka þótt vandræðafyrirbæri í gegnum tíðina og ekki alltaf verið ljóst hvort eigi að telja hana til bókmennta eða fræða. Gagnrýni hefur komið fram á sjónarhorn ferðasögunnar – sem gjarnan hefur verið sjónarhorn hins hvíta miðaldra karlmanns – og jafnframt efasemdir um hvort treysta megi þessari tegund frásagna. Í erindinu er kannað hvernig ferðasagan hefur mætt þeirri gagnrýni og hver staða hennar er í nútímanum og sannsagnabylgjunni sem hefur risið hátt á undanförnum árum.
Robin Hemley, rithöfundur og prófessor í ritlist við Long Island University-Brooklyn, les úr og ræðir um greinina „Sannleikur sem við gætum lifað með“. Greinin birtist í þriðja hefti Ritsins 2024 í þýðingu Huldars Breiðfjörð og fjallar á persónulegan hátt um siðferðileg álitamál sem tengjast því að skrifa um annað fólk. Robin er höfundur fjölda bóka, bæði skáldaðra og óskáldaðra, en hefur í seinni tíð sérhæft sig í sannsögum. Hann stýrði hann sannsagnasmiðju Iowa-háskóla um árabil og var stofnandi alþjóðlegu ráðstefnunnar NonfictioNow sem haldin hefur verið víða um heim, m.a. við Háskóla Íslands, og er tileinkuð sannsagnaskrifum. Robin gegndi Starfi Jónasar Hallgrímssonar í ritlist á nýliðnu haustmisseri. Innlegg hans verður á ensku.
Erindið hverfist um riteyju sem Dalrún skrifaði um heimaána sína, Köldukvísl í Mosfellsdal; „Köldukvíslarkver.“ Með hliðsjón af þeim skrifum sínum, fjallar hún um hvernig fanga má sögu og ásjónu sístreymandi ár. Hún ræðir hvernig hún tvinnaði eigin reynslu af Köldukvísl saman við ritaðar heimildir og viðtöl sem hún tók við aðra innfædda dalbúa á bökkum Köldukvíslar. Aukinheldur fjallar Dalrún um hvernig hún innleiddi rödd árinnar í skrif sín með því að skrásetja árstíðabundna ásýnd hennar og lífheim með penna, blokk og kvikmyndavél. Í erindinu víkur hún einnig orðum að ýmsum birtingarmyndum vatnsins og fagurfræði þess í íslenskum ritheimildum.