Skjáskot af kristnihaldi á breytingaskeiði
Skjáskot af kristnihaldi á breytingaskeiði
Í Árnagarði 101 laugardaginn 8. mars kl. 13:00-14:30.
Á þessari málstofu verður fjallað um kristnihald hér á landi frá þremur hliðum, sem allar tengjast þjóðkirkjunni og yfirstandandi breytingum á starfsháttum hennar og þjónustu. Hér verður litið til ólíkra þátta þessa viðamikla hugtaks sem kristnihald á Íslandi er, með áherslu á þjóðkirkjuna, breytta stöðu hennar í samfélaginu, breytta stjórnskipan og breytingar í helgihaldi. Meðal þeirra þátta sem teknir verða fyrir eru kirkjuleg forysta og stjórnun í samhengi skipulagslegra breytinga, félagsfræðileg og fjölmenningarleg áhrif sem valda því að færri velja að skíra börn sín en áður og loks spurninguna um hvort (og þá hvernig) ytri ógnir eins og loftslagsbreytingar endurspeglist í þeirri nýju handbók sem þjóðkirkjan hyggst taka í notkun í lok næsta árs.
Fyrirlestrar
Í erindi þessu leitast ég við að greina stöðu Þjóðkirkjunnar í kjölfar setningar laganna nr. 77/2021 og þeirra breytinga sem áttu sér stað innan kirkjunnar í tengslum við hana. Gengið er út frá þeirri forsendu að lögin hafi loks veitt kirkjunni það sjálfstæði sem geri kirkjuþingi kleift að vinna á þeim vanda sem hefur einkennt stjórnkerfi Þjóðkirkjunnar fram að þessu. Fjallað er um aðdraganda laganna og hugmyndin að baki þeim breytingum sett í guðfræðilegt og kirkjusögulegt samhengi. Leitað er í kenningar á sviði forystu og stjórnunar til að sýna fram á þá möguleika sem eru til staðar að vinna að markvissu og tímabæru uppbyggingarstarfi innan kirkjunnar. Sýnt var fram á að lárétt skipulag og þjónandi forysta samræmist vel eðli og markmiðum Þjóðkirkjunnar. Nú skiptist yfirstjórn kirkjunnar í tvo ása: „Stjórn Þjóðkirkjunnar“ og biskup. Því var haldið fram að hlutverk hins fyrrnefnda ætti að skilgreina sem „stjórnun“ (e. management) en hið síðara sem „forystu“ (e. leadership).
Norðurlöndin höfðu lengi talsverða sérstöðu varðandi það hve stór hluti íbúanna tilheyrði stóru þjóðkirkjunum og nýtti sér þjónustu þeirra á kross- götum lífsins, við skírn, fermingu, hjónavígslu og útför. Margt bendir til breytinga á þessu sviði og skírnin er ein af birtingarmyndum þeirra. Tölfræðilegar kannanir sýna fækkun skírna alls staðar á Norðurlöndum. Niðurstöður megindlegra og eigindlegra rannsókna styðja þetta og draga fram ýmsa samverkandi orsakaþætti. Þessi þróun verður skoðuð hér og sett í samhengi við kenningar á sviði trúarlífsfélagsfræði um orsakir breytinganna og mögulega hröðun, sem kemur fram þegar svokölluðum vendipunkti (e. tipping point) er náð. Er þar sérstaklega litið til kenninga Ronalds Inglehart um þróun nútímavæðingar. Rannsóknir annars staðar á Norðurlöndunum sem varpa ljósi á þær ástæður sem foreldrar gefa fyrir vali sínu verða kynntar og reifaðar. Í lokin verður staðan á Íslandi metin í ljósi þeirra upplýsinga sem fyrir liggja. Þeirri spurningu er varpað fram hvort vendipunkti sé náð hér á landi en það myndi þýða hraðstígari breytingar og viðsnúning á því sem áður var talið hefðbundið og sjálfsagt.
Íslenska þjóðkirkjan ætlar að gefa út nýja handbók með helgisiðum í lok næsta árs, þar á meðal nýju skírnarformi.
Skírnin er mikilvægasta vatnsritúal kristindómsins og skírnarþemu birtast gjarnan í textum guðfræðinga sem hafa vatn í brennidepli. Má greina í nýjum tillögum helgisiðanna áherslur sem lúta að loftslagsmálum og ef svo, hverjar eru áherslurnar? „Blá guðfræði“ er nýlegt sjónarhorn innan vistguðfræði sem hefur hringrás vatns að meginviðfangsefni og tengist stærra sjónarhorni blárra hugvísinda sem rannsakar sögu og samspil menningar og vatns. Hugmyndin um bláa guðfræði var fyrst sett fram af guðfræðingnum Margaret H. Ferris árið 2014 og er nátengd baráttu fyrir loftslagsréttlæti og vatnsvernd. Siðfræðingurinn James W. Perkinson lítur á kristna baráttu fyrir hreinu og heilnæmu vatni sem enduróm af skírninni, frá dauða til lífs. Perkinson telur að guðfræðin þurfi að kafa rækilega niður í vatnið til að skola af henni nýlenduhyggju og kynþáttahroka. Þessa dýfu kallar hann “baptismal trek-down” niður í menguð vatnasvæði, þjáningu og kúgun annarra og telur hana nauðsynlega viðleitni fyrir guðfræði og kirkju sem vill tala á merkingarbæran hátt um ógnir loftslagsbreytinga í nútíma samfélagi. Má finna merki um bláar dýfingar í hinu nýja skírnarformi þjóðkirkjunnar?