Spáð í orð

Image

Spáð í orð

Í Árnagarði 101 laugardaginn 9. mars kl. 15:00-16:30.

Í málstofunni verður sjónum beint að íslenskum orðum frá ýmsum hliðum. Fjallað verður um tilurð nýrra orða, breytingar á beygingu einstakra orða, skilgreiningar, merkingartilbrigði og samsetningar. Fyrri fyrirlesturinn snýst um sögnina spýja (spúa), en um eina mynd þessarar sagnar, sagnbótina spúst, spunnust líflegar umræður á dögunum. Í seinni fyrirlestrinum verður rýnt í orðið dólgur, merkingu þess í aldanna rás, samsetningar með því og nýjar leiðir þess í nútímanum.

Fyrirlestrar

Nokkrum dögum fyrir jól birtist í Morgunblaðinu eftirfarandi málsgrein sem vakið hefur hörð viðbrögð í netheimum: Kvikan sem hefur spúst upp á yfirborðið við Sundhnúkagíga er þróaðri en sú kvika sem leiddi af sér þrjú gos (Mbl. 21.12.23, 1). Sumir gátu með engu móti talið orðmyndina spúst góða og gilda en aðrir hneyksluðust mjög á að hún hefði verið gagnrýnd og var því meira að segja haldið fram að hér væri um árás á ungt fólk að ræða. Í erindinu verður fjallað um þróun sagnarinnar spýja sem upprunalega var sterk sögn en hafði þegar í fornmáli fengið blandaða beygingu: í nútíð og lýsingarhætti þátíðar beygðist hún sem veik sögn, í þátíð sem sterk. Seinna hefur sögnin tekið upp veika þátíð (spúði) eftir fyrirmynd sagna eins og lýja og rýja. Og út frá þátíðinni spúði gat nútíðin verið endurmynduð sem spúi, spúir, spúir, spúum o.s.frv. Í nútímamáli hefur sögnin spýja eiginlega klofnað í tvær sagnir, þ.e. spýja og spúa, en skilin á milli þeirra eru ekki greinileg. Að lokum verður rætt um hvort sú gagnrýni sem komið hefur fram á notkun sagnmyndarinnar spúst í ofangreindri málsgrein eigi rétt á sér eða ekki.

Orðið dólgur (dólgr, dolgr) hefur verið til í málinu frá upphafi og skyld orð eru til í grannmálunum, sbr. færeysku dólgur og nýnorsku dolg. Í fornu máli hafði orðið tvær meginmerkingar samkvæmt orðabókum, annars vegar ‘óvinur, andstæðingur’ og hins vegar ‘ljót, illileg vera, óvættur, púki’. Hvorug þessara merkinga samsvarar alveg þeirri merkingu sem orðið hefur oftast í nútímamáli og reyndar ekki heldur merkingunum sem færeysku og norsku orðin eru sögð hafa (‘sauðarlegur og klunnalegur maður; heimskingi’; ‘stór maður eða skepna; sljór og latur maður,…’ Ásgeir Blöndal Magnússon 1989).

Í fyrirlestrinum verður rætt um merkingartilbrigði orðsins dólg(u)r í aldanna rás en einnig verður sjónum beint að orðinu í samsetningum og afleiðslu. Samsetningar með
-dólgr sem síðari lið þekktust í fornu máli (s.s. sǫkudólgr, þrætudólgr). En slíkum samsetningum hefur fjölgað gríðarlega, ekki síst á síðustu árum og áratugum. Fæstar þessara nýjunga hafa ratað í orðabækur og hið sama gildir um yngstu merkingu orðsins dólgur ‘dólgsháttur’ sem hefur á stuttri ævi getið af sér ýmis sambönd, flest innan mynstursins (að vera) með dólg og X.