Staða „kirkjusögu“ í fræðasamfélagi nútímans

Image

Staða „kirkjusögu“ í fræðasamfélagi nútímans

Í Árnagarði 310 laugardaginn 9. mars kl. 10:00-12:00.

Þungamiðja þessarar málstofu er hugtakið og fræðigreinin „kirkjusaga“. Í hefðbundnum skilningi er „kirkjusaga“ ein af undirgreinum guðfræðinnar og hefur gengið um holt, hæðir og lægðir á síðustu 150 árum. Talað hefur verið um hið sársaukafulla hrap kirkjusögunnar af tindi vísindakerfis mótmælendaguðfræðinnar þar sem hún dvaldi á árunum fyrir 1918 og niður í djúpin þar sem hún mátti dúsa sem óvinsæl jaðargrein, bæði innan guðfræði og jafnvel hugvísinda almennt, á árunum eftir 1945. Á undanförnum áratugum hefur ekki verið fengist mikið við vísindaheimspekilega stöðu kirkjusögunnar en þó hefur borið á tilraunum til að greina spennuna á milli „kirkjusögu“ sem annars vegar einnar af kanónískum undirgreinum guðfræðinnar og hins vegar sem greinar á meiði sagnfræðinnar. Erindi þessarar málstofu leitast við, hvert með sínum hætti, að varpa ljósi á stöðu kirkjusögunnar innan fræðasamfélags nútímans.

Fyrirlestrar

Sá guðfræðingur sem hafði einna mest áhrif í fræðilegri umræðu um stöðu kirkjusögu innan mótmælendaguðfræði á hinu þýska málsvæði 20. öld var Gerhard Ebeling (1912-2001), prófessor í samstæðilegri guðfræði í Zürich og Tübingen. Þar skiptu einkar miklu máli fyrirlestrar hans sem síðar birtust sem grein undir titlinum: „Kirkjusaga sem útleggingarsaga heilagrar ritningar“ (þ. „Kirchengeschichte als Geschichte der Auslegung der Heiligen Schrift“). Umliðinn áratug hefur farið fram allnokkur umræða um þær hugmyndir sem Ebeling setti þar fram og þær teknar til endurmats. Í þessum fyrirlestri verður gerð grein fyrir þessari umræðu og hún sett í samhengi við þær spurningar sem liggja málstofunni til grundvallar.

Fyrirlesari gengur út frá eigin reynslu, sem nemanda, sagnfræðings og samfélagsgreinakennara, af námsgreinunum kristinfræði/trúfræði og kirkjusögu/trúarbragðasögu. Hann varar við staðreyndafræðslu um hver trúarbrögð eða kirkjudeild fyrir sig sem gefi mynd af þeim sem einsleitum heildum, óhagganlegum og ósamrýmanlegum. Gott sé að bera saman kirkjudeildir eða trúarbrögð, bæði hvert við annað og á mismunandi tímabilum, en þá í leit að svörum sem mega ekki vera klippt og skorin heldur viðurkenna álitamál, stigsmun og þróun. Eðlilegt sé að íslenskur veruleiki, í sögu og samtíð, sé þungamiðja trúfræði- og trúarsögunáms, sem þýðir að mest fari fyrir kristinfræði og kirkjusögu og frá þeim sjónarhóli sé litið á önnur trúarbrögð, án þess að í því felist neinn boðskapur um ágæti eða réttmæti kristinnar trúar, hvorki almennt né í núverandi lútherskum búningi.

Frá því á 19. öld hefur reglulega sprottið upp umræða innan trúarbragðatengdra fræðigreina um hvernig sé gagnlegast að útskýra muninn á guðfræði og trúarbragðafræði. Slík umræða hefur óhjákvæmilega leitt af sér spurningar um muninn á hinni hefðbundnu undirgrein guðfræðinnar, „kirkjusögu“, og systurgrein hennar, „trúarbragðasögunni“. Í þessu erindi verður gefið yfirlit yfir hvernig þessum greinarmuni hefur verið lýst frá því að „trúarbragðasaga“ tók að hasla sér völl í vestrænum háskólum á 19. og 20. öld. Sérstaklega verður fjallað um nýlegar tillögur sem miða að því að útfæra greinarmuninn frá fræðilegu sjónarhorni orðræðugreiningar. Í lok erindis verður tekist á við spurningar um hvort mögulegt sé – og í framhaldi hvort það sé æskilegt – að rannsaka og kenna bæði „kirkjusögu“ og „trúarbragðasögu“ innan sömu háskóladeildar og jafnvel hvort sömu einstaklingar geti komið þar að málum.

Í fyrirlestrinum verður fjallað um breytilegar áherslur og efnistök í kennslu og rannsóknum á sviði kirkjusögu við guðfræði- síðar guðfræði- og trúarbragðafræðideild HÍ. Sérstök grein verður gerð fyrir þeim viðhorfum sem gengið var út frá síðastliðin þrjátíu ár sem og helstu viðbrögðum við þeim. Með þessu móti verður leitast við að varpa ljósi á eðli, hlutverk og stöðu kirkjusögunnar sem kennslu- og fræðigreinar.