Stafsetning og stöðlun

Í Odda 202 laugardaginn 11. mars kl. 15:00-16:30.

Allnokkur umræða hefur verið á síðustu misserum um ritmálsstaðal íslensks nútímamáls og hvort þarf að endurnýja hann. Í þessari málstofu er rætt um stöðlun stafsetningar frá ýmsum hliðum en stafsetning er sá hluti ritmálsstaðalsins sem byggist á stjórnvaldsfyrirmælum og er þar með skýrastur en þó ekki óumdeildur. Fjallað verður um hugtakið „opinber stafsetning“ í samhengi við Íslenska stafsetningarorðabók og ritreglur. Hvað er opinber ritháttur? Þá verður litið á stöðlun og staðla í íðorðastarfi og gildi samræmingar. Í síðasta erindinu verður greint frá mati og einkunnagjöf ritháttarafbrigða í BÍN og hvernig það birtist á vef og í máltæknigögnum.

Fyrirlestrar

Íslensk stafsetningarorðabók (ÍS) er helsta birtingarmynd gildandi ritreglna (frá 2016 og 2018). Hversu langt er hægt að ganga í henni í að túlka anda reglnanna þar sem hann er óskýr og hvað er „opinber“ ritháttur?  Helst reynir á þetta vísandi hlutverk ÍS þegar þarf að ákveða íslenskan rithátt tökuorða sem oft er í fyrstu á reiki. Dæmi um þetta eru orð eins og kannkann ‚e. cancan‘, bridds, rúnstykki, pitsa. Slíkum tillögum er þó oft ekki fylgt, sbr. hinn algenga rithátt pizza, og hvað er þá til ráða. Rætt er um hlutverk og stöðu orðabókarinnar í innlendu og erlendu samhengi, til að mynda í samanburði við hina dönsku Retskrivningsordbogen. Að lokum er því velt upp hvort enn er þörf á Íslenskri stafsetningarorðabók nú þegar hin vinsæla Beygingarlýsing íslensks nútímamáls (BÍN), sem einnig er á vegum Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, hefur sífellt orðið meira vísandi (forskriftarleg) í sinni framsetningu og hluti hennar (BÍN-kjarninn) er orðinn hálfgerð réttritunarorðabók.

Íðorðafræði fæst við að halda utan um sérfræðilegan orðaforða hverrar greinar eða fags á skipulegan hátt. Tilgangurinn með því er að koma á festu í orðafari og draga úr líkum á mismunandi túlkun orða og hugtaka. Alþjóðlega staðlastofnunin ISO hefur gefið út ýmsa staðla fyrir íðorðavinnu þar sem m.a. er greint frá vinnureglum sem byggjast á reynslu sem fengin er af hagnýtri íðorðavinnu. Í erindinu verður sagt frá þessum stöðlum og fjallað um hvernig þeir hafa verið notaðir og gagnast hér á landi.

Beygingarlýsing íslensks nútímamáls (BÍN) hefur frá upphafi verið lýsandi gagnasafn fremur en vísandi og því er þar að finna ýmislegt sem ekki samræmist málstaðlinum. Til að koma til móts við þá notendur BÍN á vefnum sem vilja vanda mál sitt voru settar inn athugasemdir með leiðbeiningum um málnotkun en þó fyrst og fremst er varðaði beygingar.  

Frá árinu 2018 hefur verið í þróun og notkun flokkunarkerfi fyrir BÍN sem m.a. er notað til þess að merkja stafsetningarvillur og vísa á milli ritháttarafbrigða í gagnagrunninum. Þessar merkingar eru notaðar til að vinna athugasemdir í beygingardæmum og leitarniðurstöðum á BÍN-vefnum. Einnig eru merkingarnar aðgengilegar í máltæknigögnum sem hægt er að sækja á vefsíðu BÍN en þær eru notaðar til að afmarka BÍN-kjarnann. Í erindinu verður fjallað um flokkun ritháttarafbrigða og hvernig hún kemur fram sem vísandi upplýsingar um stafsetningu á vefsíðu BÍN og í máltæknigögnunum. Í BÍN er gríðarlegur orðaforði og álitamálin verða mörg þegar túlka þarf málstaðalinn sem kemur fram í ritreglum og Íslenskri stafsetningarorðabók.