Starfsreglur fyrir grunnstofur innan Hugvísindasviðs
1. gr.
Almennt
Á Hugvísindasviði eru sex rannsóknastofur sem teljast grunnstofur og starfa innan vébanda Hugvísindastofnunar Háskóla Íslands, sbr. 3. tölul. 1. mgr. 27. gr. reglna nr. 569/2009 fyrir Háskóla Íslands og 3. gr. reglna um Hugvísindastofnun Háskóla Íslands, nr. 211/2022. Þær eru rannsóknastofur, hver á sínu fræðasviði. Grunnstofurnar bera samkvæmt hefð heitið -stofnun og eru: Bókmennta- og listfræðastofnun, Guðfræðistofnun, Heimspekistofnun, Málvísindastofnun, Sagnfræðistofnun og Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum.
Samkvæmt Starfsreglum um fyrirkomulag rannsóknastofa innan Hugvísindasviðs getur stjórn Hugvísindastofnunar heimilað að rannsóknastofa af gerð a) hafi sambærilega stöðu og grunnstofa hvað varðar hlutverk, aðild og atkvæðisrétt.
2. gr.
Hlutverk
Hlutverk grunnstofa er:
a) að styðja rannsóknir og rannsóknasamstarf akademískra starfsmanna Hugvísindasviðs á fagsviði stofunnar;
b) að sinna starfsemi sem stutt gæti rannsóknir á fagsviði þeirra og eflt tengsl við alþjóðlegt háskólasamfélag sem og við íslenskt þjóðlíf og samfélag, t.d. með því að stuðla að útgáfu, ráðstefnum og fyrirlestrum;
c) að stuðla að tengslum akademískra starfsmanna innan sinna vébanda við rannsóknarnema, nýdoktora og gestafræðimenn;
d) að efla tengsl rannsókna og kennslu.
Hver grunnstofa markar sér nánari stefnu með hliðsjón af þessum meginhlutverkum. Skal það gert á ársfundi, stefnan lögð fyrir stjórn Hugvísindastofnunar til samþykktar og birt á heimasíðu stofunnar ásamt nánari upplýsingum um hana. Ákveði ársfundur síðar að breyta áherslum lýtur ferlið sömu reglum.
Stjórn grunnstofu getur ákveðið, að fengnu samþykki stjórnar Hugvísindastofnunar (sbr. 3. gr. reglna um Hugvísindastofnun Háskóla Íslands), að koma á fót rannsóknastofu til að sinna tilteknum rannsóknaverkefnum, rannsóknasviði eða samstarfi sem fellur að hlutverki grunnstofunnar. Nánar er kveðið á um starfsemi slíkra rannsóknastofa í sérstökum starfsreglum Hugvísindastofnunar þar um.
3. gr.
Fjármál og rekstur
Grunnstofur fá hlutdeild í árlegu framlagi Hugvísindasviðs til Hugvísindastofnunar samkvæmt ákvörðun stjórnar Hugvísindastofnunar hverju sinni, sbr. 7 gr. reglna um Hugvísindastofnun Háskóla Íslands nr. 211/2022. Á fyrsta ársþriðjungi skal áætlun um ráðstöfun fjárveitingarinnar ásamt yfirliti yfir rekstur liðins árs lögð fyrir stjórn Hugvísindastofnunar til samþykktar. Aðrar tekjur geta verið styrkir til einstakra verkefna úr sjóðum á vegum Hugvísindastofnunar eða annars staðar að, til dæmis úr ríkissjóði, greiðslur fyrir þjónustu, sbr. 7. gr. reglna um Hugvísindastofnun, tekjur af útgáfu, gjafir o.fl. Grunnstofum er heimilt að afla eigin tekna eftir því sem kostur er, en er óheimilt að veita þjónustu í frjálsri samkeppni við atvinnustarfsemi annarra aðila nema með leyfi forseta Hugvísindasviðs og skal þá sú starfsemi afmörkuð frá öðrum rekstri. Gæta ber að þeim ákvæðum samkeppnislaga sem banna niðurgreiðslu samkeppnisrekstrar með opinberu fé. Um stjórnunar- og aðstöðugjald af sértekjum fer eftir ákvæðum 73. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009.
Grunnstofum er heimilt að nýta fjárveitingu sína og aðrar tekjur til að styðja við starfsemi sem rúmast innan hlutverks þeirra, til dæmis með styrkjum. Við upplýsingagjöf, viðmiðunarreglur og úthlutun skal tryggja gegnsæi. Grunnstofum er óheimilt að efna til fjárskuldbindinga umfram fjárhagsstöðu.
Grunnstofur njóta aðstoðar Hugvísindastofnunar um bókhald og daglegan rekstur samkvæmt ákvörðun stjórnar Hugvísindastofnunar. Reikningshald grunnstofa og öll fjármál eru hluti af reikningshaldi háskólans í umsjón og á ábyrgð sviðsforseta og rekstrarstjóra Hugvísindasviðs í hans umboði.
4. gr.
Aðild og atkvæðisréttur
Prófessorar, dósentar, lektorar og aðjunktar sem gegna a.m.k. 37% starfi við Hugvísindasvið kallast félagar og eiga atkvæðisrétt í einni af grunnstofunum og hafa þar rétt til stjórnarsetu, nema samið sé um annað og heimilað af stjórn Hugvísindastofnunar, sbr. 1. gr. Starfsreglna um fyrirkomulag rannsóknastofa innan Hugvísindasviðs. Sé ekki um slíkt samkomulag að ræða fylgir atkvæðisréttur skiptingu í deildir og námsbrautir á eftirfarandi hátt:
Guðfræðistofnun: Kennarar í Guðfræði- og trúarbragðafræðideild.
Bókmennta- og listfræðastofnun: Kennarar í bókmenntum, kvikmyndafræði, listfræði, menningarfræði og ritlist innan Íslensku- og menningardeildar.
Heimspekistofnun: Kennarar í heimspeki innan Deildar heimspeki, sagnfræði og fornleifafræði.
Málvísindastofnun: Kennarar í íslenskri málfræði, almennum málvísindum og táknmálsfræði innan Íslensku- og menningardeildar.
Sagnfræðistofnun: Kennarar í sagnfræði og fornleifafræði innan Deildar heimspeki, sagnfræði og fornleifafræði.
Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum: Kennarar í Mála- og menningardeild.
Kennarar geta flutt atkvæðisrétt sinn til annarrar grunnstofu sem tengist fagsviði þeirra. Beiðni um slíkt skal berast stjórn viðkomandi stofu en rísi ágreiningur um að fagleg tengsl séu nægilega sterk hefur sviðsforseti úrskurðarvald.
Stundakennarar, sérfræðingar, emerítar, gestafræðimenn, nýdoktorar og aðrir styrkþegar í starfi við Hugvísindasvið, sem og skráðir doktorsnemar, eiga þess kost að taka þátt í starfi grunnstofu á sínu fagsviði óski þeir eftir því. Þeir teljast þá til félaga. Einungis fastir kennarar á Hugvísindasviði Háskóla Íslands hafa atkvæðisrétt á ársfundi (sbr. 1. málsgr.)
5. gr.
Stjórn og hlutverk
Þeir sem hafa atkvæðisrétt innan grunnstofu kjósa úr sínum röðum stjórn til þriggja ára í senn, formann, meðstjórnanda og einn varamann. Þriðji aðalmaður stjórnar er tilnefndur af Hugdok: Félagi doktorsnema og nýrannsakenda á Hugvísindasviði, alla jafna úr röðum doktorsnema á fagsviði stofunnar. Ársfundi stofunnar er heimilt að ákveða að hafa fleiri meðstjórnendur.
Stjórnarformaður hverrar stofu hefur umsjón með daglegum rekstri og fjármálum stofunnar og gengur frá tillögum að rekstraráætlun. Hann á sæti í fagráði Hugvísindastofnunar, sbr. 4 gr. reglna um Hugvísindastofnun Háskóla Íslands nr. 211/2022. Meðstjórnandi tekur við formennsku ef formaður hættir störfum eða fer í leyfi og varamaður tekur sæti meðstjórnanda.
Stjórnin framfylgir stefnu stofunnar og ber ábyrgð á fjármálum hennar og daglegum rekstri gagnvart stjórn Hugvísindastofnunar og forseta Hugvísindasviðs. Stjórnin sker úr í vafaatriðum sem upp kunna að koma og varða innri starfsemi stofunnar.
Formaður stjórnar boðar stjórnarfundi með minnst þriggja virkra daga fyrirvara. Í fundarboði skal greina frá dagskrá fundar.
Skylt er að boða stjórnarfund óski meirihluti stjórnarmanna þess. Sama gildir ef forseti Hugvísindasviðs ber fram slíka ósk og hefur þá hann, eða sá sem sækir fund í umboði hans, málfrelsi og tillögurétt á fundinum.
Falli atkvæði jöfn á stjórnarfundi ræður atkvæði formanns eða þess sem gegnir formannsstörfum.
Stjórn skal halda fundargerðir og færa þar einnig til bókar allar ákvarðanir sem teknar eru með millifundasamþykktum. Fundargerðir skulu vistaðar í skjalakerfi Háskóla Íslands.
6. gr.
Ársfundur og félagafundur
Ársfund skal halda á fyrsta ársþriðjungi hvers árs. Formaður skal boða til hans með a.m.k. einnar viku fyrirvara, annars vegar með bréfi eða tölvupósti til þeirra sem eiga atkvæðisrétt í stofunni og hins vegar með tilkynningu á heimasíðu stofunnar, sbr. 4. gr. Ársfundur kýs stjórn, sbr. 5. gr. og fjallar um stefnu stofunnar.
Fari þriðjungur þeirra sem eiga atkvæðisrétt innan grunnstofu fram á það skal boða þá sem starfa innan stofunnar til sérstaks fundar, svokallaðs félagafundar. Sömu reglur um fundarboð og atkvæðisrétt gilda fyrir félagafund og ársfund.
7. gr.
Gildistaka
Starfsreglur þessar, sem stjórn Hugvísindastofnunar hefur sett, sbr. 3. gr. reglna um Hugvísindastofnun Háskóla Íslands nr. 211/2022, taka gildi 1. janúar 2023. Um leið falla úr gildi eldri starfsreglur grunnstofanna sex á sviðinu. Núverandi stjórnir grunnstofa sem skipaðar voru skv. eldri reglum halda umboði sínu og starfa í samræmi við ákvæði í þessum reglum fram að næsta ársfundi.