Stef úr heimspeki fornaldar

Í Árnagarði 303 laugardaginn 11. mars kl. 15:00-16:30.

Fjallað verður um þætti úr sögu fornaldarheimspeki.

Fyrirlestrar

Japanski heimspekingurinn Karatani Kojin (柄谷 行人) fékk árið 2022 hin virtu Berggruen verðlaun fyrir framlag sitt til menningar og heimspeki. Kojin, sem stundar rannsóknir á mörkum bókmennta og heimspeki, er hvað þekktastur fyrir nýmarxíska kenningu sem skiptir framleiðsluháttum út fyrir viðskiptahætti við greiningu á sögulegri framvindu. Kenninguna setur hann ítarlegast fram í verkinu Formgerð heimssögunnar: Frá framleiðsluháttum til viðskiptahátta sem kom út á japönsku 2010.

Í þessum fyrirlestri verður bókin Isonomia og upphaf heimspekinnar tekin til nánari skoðunar, en hún kom út á japönsku árið 2012 og er beint framhald Formgerðarinnar. Hér beitir hann sömu aðferðafræði og hann notar í Formgerðinni til að skýra hvernig heimspeki varð til í jónísku borgríkjunum á 6. og 5. öld f.o.t. Hann telur sig finna raunverulegt jafnræði (gr. isonomia) borgaranna í jónísku nýlendunum sem skapaði forsendur heimspekilegrar hugsunar. Þetta tengir hann við „fyrirmyndar vitringa“, þ.e. fólk sem fór fram með fordæmi og ekki boðun kenninga, og má finna í Grikklandi, meðal Gyðinga í Babýlon, í Indlandi og Kína á svipuðum tíma. Ég mun leita svara við eftirfarandi spurningum: Hvað er nýtt í kenningu Kojins sem ekki hefur þegar verið ítarlega fjallað um meðal sérfræðinga í heimspeki Forngrikkja? Hvaða þýðingu hefur „heims-sjónarhorn“ Kojins á túlkun hans á forngrískri heimspeki? Eins mun ég ræða fyrirbærið „heims-heimspeki“ (eða „heims-speki“; e. world-philosophy).

Í fyrstu bókum Laganna eftir Platon er rætt um menntun borgaranna og þátt félagsmótunar í siðferðilegu uppeldi þeirra. Óhætt er að segja að hér sé eitt og annað á skjön við vel kunnar hugmyndir Platons um menntun og uppeldi í Ríkinu. Í þessu erindi verður fjallað um þessar hugmyndir Platons í Lögunum og hvað í þeim felst. 

Ýmsir heimspekingar fornaldar höfnuðu þeirri hugmynd að manneskjan öðlaðist þekkingu í gegnum skilningarvitin, enda væri skynheimurinn blekking; raunverulegrar þekkingar væri aðeins aflað með rökhugsun og hreinni skynsemi. Aðrir töldu að eina leiðin til að öðlast þekkingu væri í gegnum skilningarvitin, þó að þætti rökhugsunar væri ekki hafnað. Demokrítos, sem vildi veg hvors tveggja sem mestan, lýsti vanda sínum svo þegar hann lætur skilningarvitin ávarpa skynsemina: Aumi hugur, þiggurðu vitnisburð okkar en rekur okkur burt? Brottrekstur okkar fellir þig sjálfan. Nefnd verða dæmi um átökin innan fornaldarheimspeki og spurt hversu hjálpleg þessi síðari tíma aðgreining sé til skilnings á skoðunum heimspekinga fornaldar.