Stríð, nýlendur og skáldskapur

Image

Stríð, nýlendur og skáldskapur

Í Árnagarði 309 laugardaginn 8. mars kl. 13:00-14:30.

Í þessari málstofu verða til umfjöllunar textar sem tengjast stríðum og nýlendustefnu. Kannað verður sjórnarhorn á atburði úr fortíð og litið á endursköpun á minningum í skáldskap sem á einhvern hátt markast af ófriði og heimsvaldastefnu. Einkum verður litið til skáldsagna og smásagna í ljósi rannsókna á íslenskum stríðsminningum og norrænum nýlendum.

Fyrirlestrar

Í sögulegri vitund Íslendinga tók staða Íslands á styrjaldartíma og afleiðingar hennar snemma á sig ákveðna mynd í orðræðu á opinberum vettvangi. Þessi mynd festist og rataði meðal annars inn í íslenskan skáldskap. Hernámsárin og hernámssögur hafa í huga margra tengst áður óþekktu ríkidæmi og nútímavæðingu en einnig hernaðarandstöðu og menningarmissi, að ógleymdu ástandinu, á meðan stríðinu sjálfu hefur staðfastlega verið vísað til erlendra ríkja. Ekki létu þó allir rithöfundar sér nægja að fara troðnar slóðir í þessum málum. Í þessu erindi verður sjónum beint að nokkrum þeirra sem notuðu smásagnaformið til að koma á framfæri nýju sjónarhorni og fara nýjar leiðir í íslenskum skáldskap um hernám, stríð og stríðsminningar.

Í upphafi 20. aldar skrifaði bandaríski rithöfundurinn Langston Hughes um áhrif norrænnar nýlendustefnu á vísindi og menningarlegar birtingarmyndir kynþáttahyggju. Með blöndun sjálfsævisögulegra og skapandi skrifa útfærði hann þessi norrænu áhrif sem tæknileg annars vegar og fagurfræðileg hinsvegar. Í fyrirlestrinum mun ég fjalla um tvö af verkum hans sem voru bæði birt árið 1926, það er greinin „Racial Mountain“ og smásagan The Young Glory of Him. Með því að skoða verkin saman má kortleggja aðferðir Hughes til að gera sýnilega virkni hvítleika og arfleifð norrænnar nýlendustefnu í bandarískum skáldskap og samfélagi.

Í ýmsum verkum Sjóns gætir áhrifa frá seinni heimsstyrjöldinni, til dæmis í því hvernig ýmsir straumar hugmyndafræði í aðdraganda og eftirmála stríðsins birtust hér á landi. Þetta má til dæmis sjá í CoDex 1962 og í Korngult hár, grá augu. Meðal annars koma við sögu örlög gyðinga sem settust hér að fyrir stríð og þær sérstöku aðstæður sem voru hér í uppgangi nýnasismans á eftirstríðsárunum. Í þessum fyrirlestri verður hugað að því hvernig alþjóðlegir straumar eru fléttaðir saman við íslenskar aðstæður í verkum Sjóns og hvernig sú mynd sem þar birtist afbyggir mýtuna um landið sem „fjarri heimsins vígaslóð“.