Strumpandi maðar og talandi skordýr: Gervimál í barnabókmenntum og málvísindum

Image

Strumpandi maðar og talandi skordýr: Gervimál í barnabókmenntum og málvísindum

Í Árnagarði 201 föstudaginn 8. mars kl. 13:15-14:45.

Í málstofunni verður sjónum beint að gervimálum í íslenskum barnabókaþýðingum og bullorðaprófum sem rannsóknaraðferð í málvísindum. Leitast verður við að svara spurningunum: Hvað geta gervimál sagt okkur um raunmál og hvað þurfa málhafar að vita um eigið tungumál til að geta tileinkað sér gervimál?

Fyrirlestrar

Þegar teiknimyndasögurnar um Strumpana voru fyrst þýddar yfir á íslensku reyndust þær umdeildar, m.a. vegna strumpamálsins svokallaða þar sem rótin strump er nýtt í ýmis orð. Málið þótti „argasti óskapnaður“ og ekki til þess fallið að bæta orðaforða barna og máltilfinningu. Í erindinu verða hins vegar færð rök fyrir því að út frá sjónarhóli máltökufræða geti strumpamálið einmitt talist gagnlegt í þjálfun á máltilfinningu, þar sem nauðsynlegt er að reiða sig á samhengi og málfræðilegar vísbendingar til að ráða í merkinguna. Sjónum er einnig beint að því hvernig þýðendur Strumpanna þurfa í raun bæði að leysa og búa til bullorðapróf og færð eru fyrir því rök að slíkar þýðingar án róta geti sagt okkur ýmislegt áhugavert um sérkenni tungumála og eðli mannlegs máls.

Að baki gervimáli liggur gríðarleg þekking málhafa á tungumálinu sjálfu og þekking á því hvaða eiginleika tungumál geta haft – og geta ekki haft til þess að þau virki sem alvöru mál. Þessi mikla þekking málhafa kemur ekki síst í ljós þegar gervimál er þýtt til þess að nýr hópur málhafa geti auðveldlega skilið það. Í erindinu er rýnt í uppbyggingu íslensks skordýramáls eins og það birtist í barnabókinni Kva es þak? í þýðingu Sverris Norlands og samanburður er gerður við upprunalega skordýramálið eins og það birtist í frumritinu Du iz tak? eftir Carson Ellis. Fjallað er um muninn á tilbúnu tungumáli og bullmáli og þær áskoranir sem þýðendur mæta þegar þeir aðlaga gervimál fyrir nýjan lesendahóp sem talar annað tungumál. Reynt er að svara spurningunni: Hvað þurfa málhafar að vita um sitt eigið tungumál til að skilja tilbúið tungumál?

Í þessu erindi verður fjallað um rannsóknir á fleirtölumyndun í máltöku íslenskumælandi barna en í þeim athugunum hafa bæði svokölluð raunorð (raunveruleg íslensk nafnorð) og bullorð (tilbúin íslensk nafnorð) verið notuð í meira en 40 ár. Með því að rýna í niðurstöður rannsókna á fleirtölumyndun þriggja til sex ára barna sem fæddust á áttunda og níunda áratug 20. aldar og bera þær saman við niðurstöður barna á sama aldri sem fædd eru á öðrum áratug 21. aldar verður skoðað hvort tímarnir breytist og maðarnir með. Auk þess að gefa yfirlit yfir niðurstöður rannsókna á fleirtölumyndun barna af íslenskum raun- og bullorðum verður fjallað um það hvernig íslenskumælandi börn á 21. öldinni mynda fleirtölu af tökuorðum úr ensku og hvernig tilraunir barna til þess að tala ensku má stundum flokka sem bull.

Ingunn Hreinberg Indriðadóttir segir frá málstofunni „Strumpandi maðar og talandi skordýr: Gervimál í barnabókmenntum og málvísindum“ sem haldin verður á Hugvísindaþingi föstudaginn 8. mars kl. 13:15-14:45 í Árnagarði 201.