Svæðisbundinn framburður, viðhorf og málbreytingar í rauntíma
Svæðisbundinn framburður, viðhorf og málbreytingar í rauntíma
Í Árnagarði 201 föstudaginn 8. mars kl. 15:15-17:15.
Í málstofunni verður sagt frá forkönnunum og fyrstu niðurstöðum úr rannsóknarverkefninu Svæðisbundinn framburður, viðhorf og málbreytingar í rauntíma sem styrkt er af Rannís 2023–2025. Gerð verður grein fyrir markmiðum og ramma rannsóknarinnar í heild sinni, yfirlitsniðurstöðum úr viðhorfshluta netkönnunar og vísbendingum um þróun valinna framburðarafbrigða.
Fyrirlestrar
Í fyrirlestrinum verður sjónum beint að fjórum framburðarafbrigðum, þ.e. (i) norðlensku harðmæli (tapa [tʰa:pʰa], líka [li:kʰa], bíta, [pi:tʰa]); (ii) norðlenskri röddun (hempa [hɛmpʰa], mennta [mɛntʰa], hjálpa [çaulpʰa]); (iii) sunnlenskum hv-framburði (hvalur [xʷa:lʏr̥]/[xa:lʏr̥]) og (iv) skaftfellskum einhljóðaframburði (bogi [pɔ:jɪ], magi, [ma:jɪ]). Þátttakendur úr tveimur mismunandi aldurshópum, annars vegar fæddir 2000 og síðar og hins vegar fæddir 1933 eða fyrr, af Norðurlandi og Suðurlandi lásu texta þar sem viðkomandi framburðarbreytur komu við sögu. Fyrstu niðurstöður úr hljóðgreiningu yngstu þátttakendanna benda til þess að norðlensk röddun og sunnlenskur hv-framburður séu á mjög miklu undanhaldi en að skaftfellskur einhljóðaframburður og einkum og sér í lagi norðlenskt harðmæli standi nokkuð traustum fótum á kjarnasvæðum sínum.
Í erindinu verður greint frá fyrstu niðurstöðum úr viðhorfshluta netkönnunar sem framkvæmd var í tengslum við rannsóknarverkefnið Svæðisbundinn framburður, viðhorf og málbreytingar í rauntíma. Í þessum hluta hlýddu þátttakendur, frá bæði Norður- og Suðurlandi og svokölluðum hlutlausum svæðum, á upplestur þar sem norðlenskt harðmæli og röddun komu við sögu, auk sunnlensks hv-framburðar og skaftfellsks einhljóðaframburðar. Í kjölfarið svöruðu þeir spurningum, bæði um viðhorf til eigin framburðar og annarra svæðisbundinna framburðareinkenna, auk spurninga sem beindust að því hve vel þeir þekktu til þeirra tilbrigða sem heyrðust í upplestrunum og að almennri meðvitund þeirra um breytileika í framburði. Svör fengust frá alls tæplega 900 manns. Niðurstöður benda til þess að þátttakendur þekki almennt til norðlensks harðmælis og tengi þann framburð skýrt við Norðurland, auk þess sem viðhorfið til þess er jákvætt, hvort heldur er meðal Norðlendinga sjálfra eða annarra. Norðlensk röddun nýtur ekki fullt eins sömu hylli og virðist ekki eins auðþekkjanleg, en samantekið virðast norðlensk framburðareinkenni eftir sem áður vera auðþekkjanlegri en sunnlensk einkenni auk þess sem þau eru skýrar tengd sjálfsmynd málnotenda. Þá telja þátttakendur upplestur sem ber einkenni norðlensks framburðar vera skýrari en upplestur sem ber engin slík einkenni.
Í erindinu verða ræddar fyrstu niðurstöður þemagreiningar á viðtalsgögnum sem safnað var í SVIÐ-verkefninu sumarið 2023. Tekin voru viðtöl við 23 málhafa sem tóku þátt í framburðarrannsókn Björns Guðfinnssonar á fimmta áratugnum (Björn Guðfinnsson 1946) og síðar á lífsleiðinni í RÍN- og/eða RAUN-rannsóknunum (Höskuldur Þráinsson & Kristján Árnason 1992; Kristján Árnason & Höskuldur 2003; Höskuldur Þráinsson o.fl. 2013), en málhafarnir eru nú á tíræðisaldri. Í brennidepli greiningarinnar eru alþýðuhugmyndir (sjá t.d. Niedzielski & Preston 2003; Evans o.fl. 2018) þessara málhafa um framburðartilbrigði í íslensku; meðvitund og skilningur þeirra á ólíkum framburðarafbrigðum og ekki síst viðhorf, hvort tveggja til eigin framburðar sem annarra.
Hljóðferli sem kallað hefur verið höggmæli felst í því að orð eins og Bjarni, vegna og nafn eru borin fram [pjaʔnɪ]/[pjarʔnɪ], [vɛʔna] og [naʔn̥]. Þetta má skýra þannig að lokhljóð sem standa á undan nefhljóði á atkvæðaskilum missa myndunarstað sinn í munnholi svo eftir stendur raddbandalokhljóð: [ʔ]. Útbreiðsla tilbrigðanna hefur hingað til verið óljós, en niðurstöður Rannsóknar á íslensku nútímamáli (RÍN) bentu til þess að fyrirbærið gæti verið í sókn. Nú hefur útbreiðsla og eðli tilbrigðanna verið athuguð aftur. Meðal niðurstaðna í nýrri rannsókn var að flestir sem hafa höggmæli hafa einnig svokallaðan n-framburð. Hann felst í brottfalli lokunar í áhersluleysi sem verður til þess að orð eins og strákarnir og stelpurnar eru borin fram [strauːkanɪr̥] og [stɛl̥pʏnar̥]. Auk þess kom fram skýr fylgni höggmælis við aldur þar sem yngri málhafar höfðu fyrirbærið í máli sínu í meira mæli en þeir eldri. Höggmæli virðist dreifast nokkuð jafnt á meðal ungmenna um allt land en sá litli munur sem var á útbreiðslu höggmælis eftir landshlutum mældist ómarktækur. Í samanburði við RÍN hefur þróunin verið mjög hæg á þeim fjörutíu árum sem liðin eru á milli rannsókna en útbreiðslan bendir þó til þess að tilbrigðið sé enn í sókn.
Ásgrímur Angantýsson, Finnur Friðriksson, Stefanie Bade, Ása Bergný Tómasdóttir og Eva Hrund Sigurjónsdóttir segja frá málstofunni „Svæðisbundinn framburður, viðhorf og málbreytingar í rauntíma“ sem verður haldin í Árnagarði 201 föstudaginn 8. mars kl. 15:15-17:15.