Syrpa um Íslandssögu og bókmenntir
Syrpa um Íslandssögu og bókmenntir
Í Árnagarði 101 laugardaginn 8. mars kl. 10:00-12:00.
Í þessari málstofu verða fjórir stakir fyrirlestrar, tveir um Íslandssögu og tveir um bókmenntir.
Fyrirlestrar
Hér verður fjallað um þær hugmyndir fræðimanna að Landnámabók hafi upphaflega verið skráarkennt rit með formúlukenndum landnámslýsingum. Hvaðan hafa menn fengið hugmyndina að þessari ætluðu skrá? Í öllum varðveittum gerðum Landnámu er að finna sagnaefni og alls konar mannfróðleik. Melabók, sem jafnan hefur verið haldið fram sem fulltrúa elstu gerðar, sker sig ekki úr þó vissulega sé hún stuttorðari. Hinir svokölluðu Kolskeggskaflar í Austfirðingafjórðungi sem hafa gjarnan verið taldir sýna mót hinnar fornu gerðar eru heldur ekki eins samhljóða og oft hefur verið haldið fram. Getum við vitað eitthvað um upphaflegan frásagnarmáta Landnámabókar og innihald?
Sjóferðasaga heilags Brendans hefur um langt skeið verið túlkuð hérlendis sem vitnisburður um „landnámið fyrir landnám“ og aðalpersónan gerð að nafngreindum fulltrúa þeirra írsku einsetumanna sem komu til Íslands löngu áður en samfelld byggð hófst. Staðreyndin er þó sú að Navigatio sancti Brendani er bókmenntaverk, blanda af helgisögu og rómönsu, og hefur að geyma ýmsar trúarlegar og táknrænar skírskotanir. Eitt þeirra atriða sem setur svip sinn á texta sögunnar eru fuglarnir sem mæta heilögum Brendan og mönnum hans á ferð þeirra um höfin. Í fyrirlestrinum verður rætt um fuglana í sögu Brendans og þeir bornir saman við fugla í öðrum írskum og latneskum miðaldabókmenntum. Einnig verður litið til þeirra guðfræðilegu hugmynda sem birtast í fuglum Brendans og fjallað um tilgátur þeirra fræðimanna sem hafa reynt að rekja það hvaða heimildir búa að baki þessum lýsingum.
Í erindinu verður fjallað um hvernig viðhorfið til baráttu Jóns Arasonar og sona hans gegn siðbreytingunni umpólaðist í íslenskri sagnaritun frá Arngrími lærða til Jóns Jónssonar Aðils og Páls Eggerts Ólasonar. Sjónum verður beint sérstaklega að tímabilinu frá um 1800 til 1850 þegar Jón Arason færðist úr hlutverki landráðamanns yfir í verða eins konar þjóðhetja, m.a. fyrir tilstilli skrifa Jóns Sigurðssonar. Þá verður spurt af hverju viðhorfið til síðasta kaþólska biskups Norðurlanda umbreyttist á þessu tiltölulega stutta tímabili og hvaða erlendu hugmyndastraumar höfðu þar helst áhrif á. Einnig er áhugavert að setja söguskoðun íslensku sjálfstæðisbaráttunnar í samhengi við sambærilega söguskoðun erlendis, til dæmis í Noregi, en þar í landi var andspyrna kaþólsku kirkjunnar gegn siðaskiptunum einnig túlkuð sem barátta fyrir frelsi þjóðar sem stóð andspænis erlendu kúgunarvaldi.
Félagabrot og gul verkalýðsfélög eru algengari nú, en verið hefur síðustu áratugi frá því að lög voru sett hér á landi árið 1938 um starfsemi stéttarfélaga og samskipti á vinumarkaði. Mörg dæmi síðustu ár sýna aukna hörku af hálfu atvinnurekenda, bæði á almennum vinnumarkaði og hjá opinberum aðilum, sem kemur fram í beinum aðgerðum til félagabrota. Sömu þróun má finna víðar.
Félagabrot eru framin og framkölluð í krafti efnahagslegs og samfélagslegs valds til að vinna gegn stofnun og starfsemi frjálsra verkalýðssamtaka og takmarka og banna verkföll og aðrar aðgerðir stéttarfélaga, með málssóknum, skaðabótakröfum, hótunum og öðrum aðgerðum. Ein aðferð félagabrots er að stofna gul verkalýðsfélög.
Gul verkalýðsfélög eru félög sem eru stofnuð að tilstuðlan og frumkvæði atvinnurekenda og starfa í skjóli þeirra. Slík félög gera aldrei ágreining við atvinnurekendur og afrita samninga annarra verkalýðsfélaga oftast með afslætti áunninna réttinda og kjara.
Hvers vegna eru félagabrot og gul verkalýðsfélög algengari nú en áður? Er það hluti af gagnsókn fjármála- og atvinnurekendavalds gegn almannasamtökum og almannahagsmunum eða eru áhrif stéttarfélaga of mikil í samfélaginu?