Þrívíðar rannsóknir - málstofa MSHL

Image

Þrívíðar rannsóknir - málstofa MSHL

Í Árnagarði 306 laugardaginn 8. mars kl. 10:00-12:00.

Þrívíddarskönnun er notuð í margvíslegum verkefnum til að safna gögnum, til stafrænnar varðveislu, til miðlunar og í nýsköpun af ýmsu tagi. Í þessari málstofu kynnumst við nokkrum verkefnum sem nýta sér þessa tækni, og tæki í eigu Miðstöðvar stafrænna hugvísinda og lista, og skoðum notagildi þrívíddarskönnunar. Við kynnumst vinnu við þrívíddarskönnun torfbæja og líkamsleifa, notkun skannaðra muna í tölvuleikjum og aðferðum við að skanna í þrívídd með snjallsímanum.

Fyrirlestrar

Þrívíddarskönnun með snjallsíma, ásamt notendavænum smáforritum fyrir „ljósmyndamælingar“ (e. photogrammetry) opnar fyrir nýja möguleika í rannsóknum – sérstaklega rannsóknum sem nýta sér aðferðafræði borgaralegra vísinda (e. citizen science). Aðgengi að snjallsímum (eða spjaldtölvum) lýðræðisvæðir þannig stafræna gagnasöfnun og rannsóknaferlið í heild sinni. Þetta opnar dyr fyrir borgaralegar rannsóknir á fjölbreyttum sviðum eins og fornleifafræði, umhverfisvöktun og skráningu menningararfs. Í þessum fyrirlestri verða kynnt nokkur verkefni sem nýta sér snjallsíma og aðferðafræði borgaralegra vísinda til að afla gagna og vinna úr þeim. Eins verður fjallað um ýmis form borgaralegra vísinda og notkunargildi þeirra.

Árið 1954 kom steinkista Páls biskups Jónssonar í ljós við fornleifauppgröft í Skálholti. Ásamt henni fundust fleiri grafir og sumar þeirra merktar. Nú standa yfir rannsóknir á þessum einstaklingum á Þjóðminjasafni Íslands í þeim tilgangi að skilja betur tengslin á milli þeirra og ná að safna upplýsingum um líkamsleifarnar í því ástandi sem þær eru núna því ástandi þeirra fer ört hrakandi. Tekin hafa verið sýni til DNA, AMS og ísótópa greininga og munu þær niðurstöður vera notaðar til að rannsaka tengsl einstaklinganna og aðstæður. Lagst verður í þjóðfræðilega og sagnfræðilega rannsókn á þessum þekktu einstaklingum sem hluti af heildarrannsókninni. Þá verða beinin þrívíddarskönnuð og stendur sú vinna yfir núna. Búið er að skanna tennur sem sýni voru síðan tekin úr og á þann hátt að varðveita form þeirra áður en því var fórnað fyrir rannsóknargildi. Þá verða bein þessara einstaklinga skönnuð til þess að varðveita ástand þeirra eins og það er í dag. Þrívíddarskönnin eru á þennan hátt leið til varðveislu minja sem ekki eru lengur til og opna möguleika á því að skoða og stunda rannsóknir á þessum minjum fyrir framtíðina.

Parity Games er að þróa tölvuleikinn Island of Winds sem tekur innblástur frá 17. og 18. aldar Íslandi, íslenskri náttúru og þjóðsögum. Þótt að Island of Winds sé fantasíuheimur framleiðanda leiksins þá hefur teymið leitast við að þróa leikinn með sterka tengingu við aðstæður og hugarheim fólks frá þessum tíma. Lykilþáttur í því ferli hefur verið gott samstarf við söfn á Íslandi. Í þessari kynningu verður farið yfir hvernig nýta má aðra miðla, eins og tölvuleiki, til að sýna menningararf okkur og segja sögur á myndrænni og skemmtilegri máta.

Íslenskir torfbæir eru einstök tegund hversdagslegrar byggingarlistar sem er lifandi hluti umhverfisins og því viðkvæm fyrir umhverfisáhrifum. Í þessum fyrirlestri verður könnuð notkun þrívíddarskönnunartækni til að fylgjast með tilfærslu og greina burðarvirki torfhúsa. Með því að fanga staðbundin gögn í hárri upplausn gerir þrívíddarskönnun kleift að mæla hreyfingu nákvæmlega yfir tíma og sýna hvernig þessi mannvirki bregðast við mismunandi veðurskilyrðum, árstíðabundnum breytingum og niðurbroti burðarvirkis. Verkefnið rannsakar hvernig umhverfisþættir eins og sveiflur í hitastigi og úrkomu og frost-þíðu-hringrás hafa áhrif á heilleika burðarvirkis. Með því að samþætta þrívíddarskönnun við rakahitafræðilega greiningu og sögulega þekkingu er markmið verkefnisins að bæta aðferðir við varðveislu þessara menningarlega mikilvægu bygginga. Rannsóknin er hluti af átaki til að skrásetja, fylgjast með og viðhalda íslenskum torfbæjum og tryggja langlífi þeirra í ljósi umhverfisáskorana. Fyrirlesturinn mun kynna fyrstu skannanirnar og áætlanir um framhaldið.