Þvers og kruss um orðapör og föst orðasambönd í dönsku, spænsku og þýsku

Í Árnagarði 303 föstudaginn 10. mars kl. 15:15-17:00.

Orðapör eru hluti af föstum orðasamböndum tungumálsins. Orðapör - einnig nefnd parasambönd eða samstæður á íslensku - eru mynduð eftir ákveðnu mynstri, oft tvö orð úr sama orðflokki eða sama orðið er endurtekið. Oftast eru orðin tengd með samtengingu eða forsetningu, þó það sé ekki algilt. Þau lífga mjög upp á tungumálið og koma gjarna fyrir í töluðu máli. Orðapör er sá hluti fastra orðasambanda sem hvað auðveldast er að tileinka sér og því eru þau ákjósanleg í kennslu erlendra tungumála.

Í þessari málstofu beinum við sjónum okkar að orðapörum en einnig öðrum föstum orðasamböndum í dönsku, spænsku og þýsku út frá ýmsum sjónarhornum og gerum þannig ákveðnu sviði fastra orðasambanda skil.

Málstofustjórar eru Oddný G. Sverrisdóttir og Erla Erlendsdóttir.

Íslenska og danska eru náskyld mál og stór hluti grunnorðaforðans af sama uppruna. Langvinnt samband Danmerkur og Íslands skapaði auk þess danskri tungu sérstöðu hér á landi, og höfðu tengslin við dönsku talsverð áhrif á íslensku. Til vitnis um þetta er fjöldi orða og orðasambanda sem íslenskan hefur þegið úr dönsku. Þegar orðaforðinn í málunum tveimur er borinn saman, má oft sjá ýmis líkindi með orðum og orðasamböndum. Í öðrum tilvikum eru orðasamböndin að meira eða minna leyti ólík eða eru einungis bundin við annað málið og eiga sér enga hliðstæðu í hinu. Í erindinu verður fjallað um samanburðarrannsókn á föstum orðasamböndum í dönsku og íslensku, einkum orðtök, t.d. að kaupa köttinn í sekknum og að kippa einhverju í liðinn, og það sem kalla mætti aðstæðubundin orðasambönd, s.s. vertu sæll eða hvað á barnið að heita? Tekin verða dæmi um orðasambönd í íslensku, sem eiga sér algjöra hliðstæðu í dönsku, bæði hvað varðar merkingu, form og notkun, og jafnframt fjallað um orðasambönd, sem þrátt fyrir sláandi líkindi við fyrstu sýn, geta verið frábrugðin með ófyrirsjáanlegum.

Orðapör tilheyra flokki fastra orðasambanda og er bygging þeirra og gerð alla jafna með fastmótuðu sniði. Þau eru yfirleitt tvíliða, þ.e. samsett úr tveimur orðum, svonefndum kjarnaorðum, sem oftast tilheyra sama orðflokki, og eru liðirnir tengdir saman með tengiorði sem getur verið samtenging eða forsetning, og mynda þannig par t.d. gagn og gaman; heill og hamingja. Einnig getur sama orðið komið fyrir í báðum kjarnaliðum, t.d. ár eftir ár, aftur og aftur.

Nýlegur gagnagrunnur RÍO telur um þessar mundir um þrjúhundruð orðapör í íslensku. Þessum orðapörum má skipa á ákveðin merkingar- eða hugtakasvið. Hér verður fjallað um niðurstöður þessarar flokkunar og sjónum beint að helstu sviðunum, til að mynda þeim sem lúta að TÍMANS RÁS (ár og dagur, dagur og nótt, með tíð og tíma) MANNSLÍKAMANUM (af holdi og blóði, af líkama og sál), HREYFINGU (fram og til baka, út og suður, þvers og kruss) og FJARLÆGÐUM/VEGALENGDUM (vítt og breitt, hátt og lágt, himinn og haf). Sum þessara orðapara eiga sér jafnheiti eða hliðstæðu í spænsku. Hér er ætlunin að skoða hvort hliðstæðu sé að finna með íslenskum og spænskum orðapörum hvað varðar þessa flokkun.

Föst orðasambönd í þýsku og íslensku eiga sér oft sameiginlegan uppruna. Fjölmörg dæmi eru til um það hvort sem um er að ræða orðtök, orðapör, málshætti eða fleyg orð. Uppruni þeirra getur verið í Bíblíunni, bókmenntum eða öðrum sameiginlegum menningararfi. Dæmi er málshátturinn Morgunstund gefur gull í mund sem á þýsku er Morgenstund hat Gold im Mund.  Hjá öðrum orðasamböndum er allt annað upp á tengingum, þau finnast einungis í einu tungumáli og er uppruni þeirra aðstæðubundinn eða „menningarbundinn“. Uppruna þeirra má rekja til ákveðinna atburða, siða, bókmennta, eða einhvers annars sem einkennandi er fyrir málsamfélagið.  Hér verða slík föst orðasambönda í þýsku og íslensku gerð að umfjöllunarefni og þar litið sérstaklega til orðapara. Föst orðasambönd sem myndast hafa á þennan hátt gert reynst þýðendum og þeim sem læra tungumálið sem erlent tungumál erfið í skauti.  Þó orðasambönd eigi sér ólíkan uppruna í tungumálunum  geta þau vissulega átt sér merkingarlega samsvörun í öðrum tungumálum.