Tregahornið: Frásagnir af dauða og missi

Image

Tregahornið: Frásagnir af dauða og missi

Í Árnagarði 309 föstudaginn 7. mars kl. 13:15-14:45.

Í málstofunni Tregahornið: Frásagnir af dauða og missi verður fjallað um ýmiss konar leiðir til þess að miðla óumflýjanlegum veruleika dauðans í samfélagi okkar og menningu, og varpað fram spurningum um það hvort í sorgarúrvinnslu og trega frammi fyrir andláti ættingja og ástvina felist sátt við forgengileikann eða aðferð til þess að vekja okkur til vitundar um stöðu mannsins í tilverunni.

Fyrirlestrar

Harmrænir textar Gamla testamentisins eru að mörgu leyti frábrugðnir öðrum trúartextum. Harmljóð eru uppfull af reiði, örvæntingu, sorg eða andmælum. Þau einkennast gjarnan af spurningum frekar en svörum og þar er því hafnað að þjáningin eigi sé alltaf ástæður og þurfi að vera einhverjum að kenna. Í stað þess að leggja áherslu á synd þess sem biður, er áherslan á hugarangur viðkomandi, tilfinningu fyrir óréttlæti þjáningarinnar og að vera yfirgefinn af vinum og jafnvel af Guði. En þrátt fyrir þá neyð og miklu vansæld sem kemur fram í þessum textum þá ganga höfundar þeirra út frá því að Guð sé til og að Guð muni á endanum bregðast við neyðarópi þeirra. Í fyrirlestrinum verður áhersla lögð á eðli og hlutverk harmljóða í Gamla testamentinu og á nýlegar rannsóknir á möguleika þeirra til að hjálpa fólki að takast á við sorg og missi, en einnig áföll og hvers konar erfiða lífsreynslu.   

Í viðtali sem tekið var við Hallgrím Helgason, myndlistarmann og rithöfund, í tilefni af sýningunni „Það þarf að kenna fólki að deyja“ í safnaðarheimili Neskirkju haustið 2021 sagði hann heitið hafa sprottið úr samræðum sínum við föður sinn, Helga Hallgrímsson, brúarverkfræðing og fyrrum vegamálastjóra, eftir langar setur á líknardeildinni. Í erindi sínu greinir Guðni verk Hallgríms af safnaðarheimilinu sem tilraunir til þess að endurheimta lífið. Verkin eru ekki aðeins uppgjör við óreiðu og einmanaleika dauðastundarinnar heldur einnig áminning um mikilvægi þess að lifa betur, að lifa ákafar og dýpra því að tími okkar er takmarkaður og verður brátt á þrotum.

Viðbrögð við ástvinamissi eru talin mótast af sögulegum og menningarlegum þáttum. Í hverju samfélagi eru venjur og viðmið sem ákvarða hvernig skuli bregðast við andláti og missi, bæði opinberlega og í einkalífi. Á 17. öld var lögð áhersla á að syrgjendur stilltu sorgarviðbrögðum sínum í hóf og létu huggast í von um að hitta hinn látna ástvin á himnum. Raunar áttu syrgjendur að fagna því að hinn látni væri nú hólpinn í faðmi lausnarans, eins og fram kemur í ýmsum huggunarbókmenntum frá þessum tíma. Í fyrirlestrinum ætla ég að sýna fram á ákveðna togstreitu á milli hefðbundinnar huggunar vegna ástvinamissis og hinnar djúpu sorgar sem heltekur foreldra sem missa afkomanda sinn sem birtist í tveimur harmljóðum frá árnýöld. Annað kvæðið orti sr. Stefán Ólafsson í Vallanesi eftir bróðurson sinn og setur í orðastað föður unga mannsins. Hitt harmljóðið orti Brynjólfur Þórðarson Thorlacius eftir son sinn Skúla.