Erlend tungumál frá ýmsum sjónarhornum: Rannsóknir á hvatningu, námsgögnum og aðferðum

Í Árnagarði 310 föstudaginn 10. mars kl. 15:15-17:00.

Í þessari málstofu verða kynntar rannsóknir á viðhorfum nemenda til þýskunáms og á kennslufræði erlendra tungumála með tilliti til námsgagna og menningarmiðlunar. Einnig verður sjónum beint að tungumálakennslu með aðstoð leiklistar.

Eyjólfur Már Sigurðsson kynnir fyrirlesara og stýrir umræðum.

Fyrirlestrar

Í þessu erindi verður rætt um viðhorf og hvatningu nemenda til að læra þýsku við Háskóla Íslands. Nánar tiltekið fjallar fyrirlesturinn um aðferðafræði og fyrstu niðurstöður íslenskrar könnunar um hvatningu til þýskunáms en hún er hluti af rannsóknarverkefninu UniStart Deutsch @NBL sem hófst árið 2019 í ýmsum háskólum á Norðurlöndum og í Eystrasaltslöndum. Markmið verkefnisins er að kanna viðhorf nemenda til þýska tungumálsins, skilja hvers vegna þeir kjósa að læra þýsku og að skoða tungumálakunnáttu nemenda í byrjun námsins.

Markmið viðhorfskönnunarinnar er að fá upplýsingar um hvatningu fyrsta árs þýskunema að fara í tungumálnám. Könnunin byggir á fyrri rannsóknum á viðhorfi til tungumála og hvatningu til að læra erlend tungumál. Hún er lögð fyrir á netinu og samanstendur af spurningum um innri hvata og viðhorf nemenda auk spurninga um ástæður þess að þeir vilja læra þýsku. Þar er einnig spurt um bakgrunn nemenda (t.d. aldur, kyn og menntun) og reynslu þeirra af tungumálanámi. 

Í fyrirlestrinum verður fjallað um bakgrunn rannsóknarinnar og fyrstu niðurstöður íslensku viðhorfsrannsóknarinnar kynntar.

References

Dörnyei, Z., & Csizér, K. (2012). How to design and analyze surveys in second language aquisition research. In A. Mackay & S. Gass (Eds.), Research Methods in Second Language Aquistion: A Practical Guide (pp. 74-94). Chichester: Wiley-Blackwell.

Dörnyei, Z., & Ushioda, E. (Eds.). (2009). Motivation, Language Identity and the L2 Self. Bristol, Buffalo, Toronto: Multilingual Matters.

Gardner, R., & Lambert, W. (1972). Attitudes and Motivations in Second Language Learning. Rowley, Mass.: Newbury House Publishers.

Goethe-Institut. https://www.goethe.de/de/spr/wdl.html.

Preston, D. (2010). Language, people, salience, space: perceptual dielectology and language regard. Dialectologia, 5, 87-131.

Erindið er byggt á þriggja ára rannsóknarverkefni sem lauk með útgáfu bókar árið 2022[1].

Í brennidepli rannsóknarinnar eru textabækur ætlaðar nemendum á lokaári grunnskóla á Íslandi, í Færeyjum og í Finnlandi. Auk þess er fjallað um skáldsögu, sem lýsir aðstæðum drengs á flótta, og hún greind með tilliti til fjölmenningar- og kennslufræðilegra áherslna.

Íslenskar áherslur beinast að grunnbókum í dönsku í 10. bekk. Þar var einkum horft til menningar-miðlunar,  orðaforða og málnotkunar – og hvort samræmi er á milli námsefnis og gildandi námskrár. Niðurstöður frá Færeyjum, Finnlandi og Danmörku sýna fram á að við námsgagnagerð þarf að taka tillit til margra þátta.

Að skilgreina menningu er krefjandi, þar sem hugtakið er menningarbundið. Í því er fólgið allt sem mannfólkið aðhefst (lífsmáti, lífskjör, fatnaður, viðhorf, gildi, tími og rúm), og kemur því við (hefðir, vísindi, tækni, listir) (Eeva-Lisa Nyqvist 2022 og Maijala 2004).

Tengsl tungumáls og menningar er afar flókið fyrirbæri[2].Markvisst val á orðaforða leiðir af sér samtengt nám á tungumáli og menningu. Þess vega hvílir meginþungi námsefnisins á þeim orðaforða sem kynntur er í námsgögnum og í hvaða mæli viðfangsefni samræmast kenningum um nám/tileinkun orðaforða (Henriksen 1999, Nation 2001). Menningarlæsi er nátengt tjáskiptahæfni og dregur fram hæfni einstaklingsins til að velja eftir aðstæðum viðurkennda málhegðun (Eeva-Liisa Nyqvist 2022, Sercu 2005, CEFR 2001).

[1] Sproglig og kulturel mangfoldighed i læremidler til sprogundervisning i Norden. Dansk og svensk som fremmedsprog, førstesprog, andetsprog, nabosprog og transitsprog. 2022.

[2] „Sproglig mangfoldighed er relateret til kulturel mangfoldighed, men der er tale om en meget kompleks relation“ (Risager 2006)

Fram hefur komið í nýlegri könnun sem gerð var við Háskóla Íslands að eftir Covid hefur tengslamyndun nemenda minnkað töluvert. Þó nokkur umræða er innan háskólasamfélagsins um að þörf sé á að styrkja og ýta undir félagstengsl nemenda. Mikill hluti náms og kennslu fer fram með aðstoð tækja og tóla, milli kennarans og nemandans er oft skjár. Milli nemenda eru líka skjáir.  Erum við of tengd skjánum til að tengjast okkar á milli? Hvernig getur stofnunin ýtt undir sterkara námssamfélag? Kennslufræðin þarf að hugsa nemandann í heild sinni og sérstaklega hlúa að huglægni hans, löngunum hans.

Notkun leiklistar í tungumálanámi og kennslu getur ýtt undir huglæga tjáningu og þar með máltileinkun, og styrkt þar með þekkingu námsefnisins en er líka mjög áhrifarík leið til að mynda varanleg félagstengsl.