Um þýðingar og merkingu þeirra

Image

Um þýðingar og merkingu þeirra

Í Árnagarði 101 laugardaginn 9. mars kl. 10:00-12:00. 

Hér verður einkum litið til bókmenntaþýðinga, sérstaklega á leikritum og sálmum. Matthías Jochumsson, William Shakespeare og þættir úr sögu leikritaþýðinga Íslands, auk sálmsins Heims um ból koma fyrir. 

Fyrirlestrar

Leikritaþýðingar hafa ekki hlotið mikla athygli þýðingafræðinga til þessa.  Þær hafa einfaldlega verið flokkaðar með öðrum bókmenntaþýðingum, sem á vissulega rétt á sér, þegar leikrit eru þýdd til útgáfu á bók, en síður og jafnvel alls ekki, þegar leiktexti er þýddur beinlínis til sviðsetningar.

Samtalsformið markar leiktexta sérstöðu, hann þarf að vera knappur og skýr og sem næst eðlilegu talmáli og myndlíkingar þurfa að vera dregnar svo skýrum dráttum að hvergi þurfi að staldra við, enda ekki tóm til slíks. Leikhúsmiðillinn og möguleikar hans, gefa þar á ofan svigrúm til ómállegrar túlkunar, svo oft má stytta og hagræða, án þess að merking eða innihald glatist. Tilgangur sviðsetningarinnar, eða hvort henni er ætlað að þjóna tilteknum markhópi eða tiltekinni sýn, eða jafnvel tilteknum skilningi og túlkun listrænna stjórnenda á kjarnamerkinu uppruna verksins, kemur einnig til álita og hefur áhrif á nálgun þýðandans. 

Leikritaþýðingar kalla því oftar en ekki á meiri endurritun og hagræðingu textans í þýðingu en á við um aðrar bókmenntaþýðingar og afbrigðin eru mörg og margvísleg.

Það er rannsóknarefni sem ætlunin er að varpa örlitlu ljósi á.

Árið 1874 fékk Matthías Jochumsson útgefna þýðingu sína á Macbeth eftir William Shakespeare hjá Hinu íslenska bókmenntafélagi. Um þessar mundir eru því 150 ár síðan hún kom út. Síðan þá hafa fimm aðrar þýðingar verið unnar af fimm þýðendum. Í erindi mínu mun ég fjalla stuttlega um hverja þýðingu fyrir sig og bera saman textabúta. Einnig mun lítillega fjallað um hverja þýðingu út frá menningarlandslagi, leikhússögu og viðtökum. Að lokum verður aðeins fjallað um af hverju þarf að þýða klassík eins og verk Shakespeare aftur og aftur.

Frá því að jólasálmurinn Stille Nacht var frumfluttur árið 1818 hefur hann verið þýddur á meira en 300 tungumál og mállýskur, þar á meðal íslensku. Þótt mörg mikilsmetin skáld og þýðendur hafi þýtt sálminn á íslensku hefur engu þeirra  tekist að skáka Heims um ból, sem telst vera frumsaminn sálmur, innblásinn af Stille Nacht.  Fjallað verður um nokkrar af þessum þýðingum, meðal annars tvær útgáfur Matthíasar Jochumssonar sem yfirskriftin vitnar í, og skoðað hvar mörkin liggja, hve mikil tengsl þurfa að vera milli tveggja þekktra texta til að annar þeirra teljist þýðing og hvenær hann hljóti að vera frumsaminn.

Frá alda öðli hafa þýðendur og túlkar miðlað upplýsingum milli menningarheima á mörgum sviðum. Oft dettur okkur fyrst í hug bókmenntir, en sviðið er miklu víðara. Starf þýðenda og túlka er þekkt frá því þúsundum ára fyrir Krists burð og  og er enn mikilvægara á tímum upplýsingaflæðis og upplýsingaóreiðu. Hér er ætlunin að skoða hin ýmsu hlutverk þýðinga og túlkunar út frá menningarfélagslegu samhengi, ekki síst á sviði sem kallað hefur verið borgaralegur erindisrekstur (citizen diplomacy). Hér er um að ræða það fólk, ekki aðeins þýðendur og túlka, sem sinnir samskiptum milli á staðnum þar sem menningarheimar mætast, oft í samhengi þróunarhjálpar eða samhengi átaka, en einnig um allan heim

Um þýðingar og merkingu þeirra

Gauti Kristmannsson, Ingibjörg Þórisdóttir og Tinna Gunnlaugsdóttir segja frá málstofunni Um þýðingar og merkingu þeirra sem haldin verður á í Árnagarði 101 laugardaginn 9. mars kl. 10:00-12:00.