Vendi ég mínu kvæði í kross

Image

Vendi ég mínu kvæði í kross

Í Lögbergi 103 laugardaginn 9. mars kl. 13:00-16:30.

Kvæði og kvæðahandrit eru ekki alltaf öll þar sem þau eru séð enda geyma þau stundum annað og meira en virðist við fyrstu sýn. Nýjustu rannsóknir og útgáfur á sviði íslensks kveðskapar síðari alda eru í brennideplinum á þessari málstofu sem snýst um umvendingar og óvæntar uppgötvanir. Fyrirlesarar munu fjalla um gamankvæði og rímur eftir sálmaskáldið Hallgrím Pétursson, sálma eftir Stefán Ólafsson í Vallanesi sem einkum er þekktur fyrir veraldleg kvæði sín, og rímnaflokk sem ekki er við eina fjölina felldur. Þrír fyrirlestrar fjalla um niðurstöðu verkefnisins Hið heilaga og hið vanheilaga (2022–2024) sem styrkt er af Rannsóknasjóði Rannís.

Fyrirlestrar

Lausavísur og gamankvæði Hallgríms Péturssonar eru oftast varðveitt í allt öðrum og yngri handritum en sálmar hans og trúarleg kvæði. Vísurnar voru ortar fyrir líðandi stund og engin ástæða þótti til að skrifa þær upp eða halda saman og enn síður kom til greina að setja þær á prent en engu að síður varðveittust þær í munnlegri geymd. Mörg kvæðanna veita óvænta innsýn í hugarheim og daglegt líf skáldsins og samtímafólks hans. Sum þeirra hafa verið mjög vinsæl og eru varðveitt í fjölda handrita. Fjallað verður um þá óhefðbundnu mynd sem þau gefa af mesta trúarskáldi þjóðarinnar og hvernig hún hefur lifað góðu lífi í munnmælum og handritum.

Króka-Refs rímur eftir Hallgrím Pétursson eru varðveittar í átján handritum. Þó að rímurnar hafi verið sagðar óspennandi varðandi tilbrigði textans er hægt að stofna undirflokka sem aftur á móti hjálpa að skapa tengslanet milli skrifara, staða og handrita. Textafræðileg tengsl milli handritanna sýna einnig fram á að sumar gerðir rímnanna voru í umferð í ákveðnum landshlutum. Í þessu erindi verða rakin tengsl handrita, skrifara og eigenda. Eitt handrit, JS 98 8vo, verður skoðað nánar, en þetta handrit var hægt að reka til bónda- og vinnumannafélags í Vopnafirði. Með því að kortleggja fyrirkomu textatilbrigða er hægt að skilja hvernig þau dreifðust og hvað ákveðið samfélag á ákveðnum stað skildi sem Króka-Refs rímur eftir Hallgrím.

Eitt þekktasta barnakvæði sautjánda aldar er heilræðakvæði til ungrar stúlku eftir austfirska skáldið Stefán Ólafsson í Vallanesi (1618/1619–1688). Guðríður litla Gísladóttir fæddist á Skriðuklaustri árið 1651 en foreldrar hennar voru meðal efnuðustu og metnaðarfullstu landsmanna sinnar samtíðar og litu á sig sem íslenskan aðal. Kvæði Stefáns er ort undir fornyrðislagi og er mikilvæg heimild um menntun ungra kvenna úr efri stéttum. Annað og nánast óþekkt kvæði eftir Stefán Ólafsson hefur lengi verið flokkað sem sálmur en við nánari eftirgrennslan reyndist þetta kvæði einnig vera ort til stúlkubarns sem hét Gróa M. Ytri búningur kvæðisins er óumdeilanlega sálmur en hér eru færð rök fyrir því að kvæðið teljist til barnabókmennta. Hvert er rými skálda í heimi barna fyrri alda? Vildu skáld eins og Stefán nýta sér tækifæri til þess að komast í mjúkinn hjá valdamiklum foreldrum? Eða þótti hreinlega eftirsótt að yrkja til yngri kynslóða?

Vambarljóð eru meðal þjóðsagnakvæða í eddukvæðastíl sem skráð voru úr munnlegri geymd á 17. öld en eiga rætur aftur á miðöldum. Í Vambarljóðum segir frá konungsdótturinni Signýju sem verður fyrir álögum stjúpmóður sinnar og breytist í vömb. Til að hnekkja álögunum verður hún að fá konungsson til að giftast sér. Það tekst henni og má segja að hún sé ekki vönd að meðölum til að koma því fram. Í erindinu verður rætt um hlutverk kynjanna í kvæðinu og viðsnúninginn sem felst í hinum dapra brúðguma vambarinnar.

Bærings rímur yngri eru enn sem komið er óútgefnar, en rímurnar eru ortar kringum 1500. Einnig eru varðveittar Bærings rímur eldri, frá 15. öld. Framan af héldu fræðimenn að Bærings rímur fagra væru einn rímnaflokkur, eða þar til Björn K. Þórólfsson skipti þeim upp í Bærings rímur eldri og yngri. Sagði hann að málstig rímnanna og skáldamál sýndu að um tvo flokka væri að ræða, frá sitthvoru tímabilinu. Hann benti þó ekki á nein dæmi kenningu sinni til rökstuðnings. Hér verður tæpt á varðveislusögu rímnanna, sem er fremur flókin og rýnt í máleinkenni þeirra og samsetningu. Við fyrstu sýn virðist málið með Bærings rímur vera fremur einfalt, þrjú handrit, tveir rímnaflokkar og eitt söguefni. En rímnaflokkarnir um Bæring fagra riddara eru að mörgu leyti sérstakir, til að mynda fjalla eldri rímurnar um seinni hluta sögunnar, en yngri rímurnar um upphaf sögunnar. Því meir sem Bærings rímur eru skoðaðar því flóknari verður heildarmyndin. Hér er ekki allt sem sýnist og verður hér reynt að varpa ljósi á þá áhugaverðu flækju sem Bærings rímur bjóða upp á.

Kringilnefjuvísur eru afar sjaldgæft dæmi um ævintýri af góðri stjúpmóður. Upphaf þeirra gefur til kynna hefðbundna sögu af vondri stjúpu; karl (að vísu ekki kóngur) giftist göfugri konu, þau eignast gullfallega dóttur, Gullinhöfðu, en svo deyr konan. Karlinn tekur svo saman við aðra – en hún er ekki flagð undir fögru skinni af útnesjum eða eyjum heldur hreint og beint tröllskessa úr nálægum skógi sem galdrar hann til sín. Í stað þess að leggja á stjúpdóttur sína tekur skessan til við að mennta hana og skemmta henni – og galdrar svo til hennar kóng sem verður ástfanginn af stúlkunni (sem er þá búin að læra af skessunni allar kvenlegar menntir og dyggðir). Elstu handritin þrýtur á einum og sama stað, en aðeins í yngri gerð kemur í ljós að skessan var ekki aðeins að búa í haginn fyrir stúlkuna heldur líka fyrir sig; hún reynist vera móðursystir stúlkunnar og er sjálf í álögum. Dæmið hefur snúist við; í stað frekar einkennilegrar sögu um góða stjúpu, þar sem sumt gengur illa upp, opnast fjölskyldudrama. Líklegt þykir að móðir stúlkunnar hafi sjálf lent í hremmingum sem hafi orðið til þess að hún giftist frekar lítilfjörugum kotkarli, en sú saga er ekki hluti af kvæðinu. Ekki er komið í ljós þegar kvæðið þrýtur í elstu heimildunum hvað verður af kvenhetjunum, einkum af stjúpunni. Sögulok eru aðeins í yngri handritum og óljóst er hversu upprunalegur sá hluti er hverju sinni.