Víðáttur tungumálsins
Víðáttur tungumálsins
Í Árnagarði 101 föstudaginn 7. mars kl. 15:15-17:15.
Í málstofunni verða flutt erindi um efni á sviði norrænnar rúnafræði, bragfræði, hljóðkerfisfræði, textafræði og þýðinga. Erindin ættu að höfða til allra sem hafa áhuga á málsögu, textafræði og þýðingum.
Fyrirlestrar
Málfræðiheitið tökuþýðing (öðru nafni þýðingarlán) hefur verið notað um orðasmíð sem fer þannig fram að erlent orð er þýtt yfir á viðtökumálið. Um þetta eru mýmörg dæmi frá öllum tímabilum íslenskrar málsögu. Sumar tökuþýðingar hafa orðið til við lærða nýyrðasmíð, aðrar má kalla sjálfsprottnar fyrir erlend áhrif og erfitt getur verið að greina þar á milli. Sem dæmi má nefna orðin samtenging (úr lat. coniunctio) og fegurðarblundur (úr e. beauty sleep). Undir tökuþýðingar fellur auk þess fleira en einstök orð, t.d. orðatiltæki (kasta perlum fyrir svín, bera saman epli og appelsínur) og málshættir (Listin er löng, lífið stutt, Illt er að kenna gömlum hundi að sitja).
Hugtakið tökuþýðing virðist ekki torskilið. Þegar rýnt er í skilgreiningar þess í handbókum og alkunn dæmi um tökuþýðingar kemur þó í ljós að það er ekki eins einfalt og ætla mætti við fyrstu sýn. Hér verður fjallað um ólík sýnishorn, m.a. orðin loftkastali og skýjakljúfur, og vöngum velt yfir því hvernig best væri að skilgreina og flokka meintar tökuþýðingar.
Í dróttkvæðum hætti má kalla þau einsatkvæðisorð létt sem hafa stutt sérhljóð og eitt samhljóð á eftir, eins og goð eða lyf. Þau orð eru einnig létt sem enda á sérhljóði, eins og þrá eða fley. Venjulega geta létt orð ekki staðið í risi í dróttkvæðum hætti nema orðið á eftir hefjist á samhljóði. Sú bragregla er kölluð samloðun og á sér hliðstæður í grískum og latneskum brag. Þótt regla þessi virðist hafa almennt gildi eru til allnokkur vísuorð sem brjóta hana, einkum í kveðskap frá 10. öld. Þannig hefur Vellekla Einars skálaglamms vísuorðin „valfalls of sæ allan“ og „mannfall við styr annan“ þar sem léttu orðin sæ og styr hafa á eftir sér orð sem hefst á sérhljóði. Hans Kuhn benti á að dæmi af þessu tagi koma einkum fyrir þegar léttu orðin hafa 'v' eða 'j' í stofni, sbr. eignarfallsmyndirnar sævar og styrjar. Í því ljósi má hugsa sér að endurgera myndir eins og *sæv og *styrj. Í erindinu verður lagt mat á kenningu Kuhns og tilraun gerð til að útfæra hana nánar.
Kuhn, Hans. 1937. Zum Vers- und Satzbau der Skalden. Zeitschrift für deutsches Altertum und deutsche Literatur 74: 49–63.
Árið 1857 eða 1858 fannst við bæinn Reistad á eyjunni Hítur (nú Hidra) í Vestur-Ögðum steinn með rúnaáletrun sem talin er frá 5. e. Kr. Textinn er venjulega lesinn á þennan hátt:
(1. lína) IuþingaR (2. lína) ek WakraR : unnam (3. lína) wraita
Skýring textans er hins vegar umdeild eins og eftirtaldar túlkanir sýna:
Sophus Bugge (1895): ‘Iuþing. Jeg Vakr udførte Indridsningen’.
Alexander Jóhannesson (1920, með öðrum lestri 1. línu): ‘Hjó þenna Geirr. Ek Vakr *un(d)nam reit (= rúnaristuna)’.
Adolf Noreen (1923): ‘Ýþingr [ruht hier]. Ich Wacker unternahm die Ritzung’.
Carl Marstrander (1930): ‘[I]ch Vakr habe die Kunst der Runen erlernt (kenne die Kunst der Runen)’.
Ènver A. Makaev (1965/1996): The proper name ‘Iuþingaz’. ‘I, Wakraz, can write (runes)’.
Wolfgang Krause & Herbert Jankuhn (1966): ‘Iuþing (ruht hier) – Ich Wakr verstehe mich auf das Ritzen’.
Elmer H. Antonsen (1975, með öðrum lestri rúnanna): ‘Idringaz [i.e. of memorable lineage]. I, Wakraz [i.e. watchful, brave one] the untakeable, wrote (this)’.
Þórhallur Eyþórsson (1999): ‘Ýðingr. Ek Vakr nam Reit’ (‘Ýðingr. I Vakr have settled Field’).
Í erindinu verða þessar ólíku túlkanir ræddar og mat lagt á hver þeirra megi teljast sennilegust.
Undanfarið hefur textafræði skilað áhugaverðum niðurstöðum um handrit Eddu Snorra Sturlusonar. Þetta er ekki auðvelt viðfangsefni. Þar til nýlega var ekki talið gerlegt að setja fram ættartré handrita Snorra Eddu, sbr. orð Heimis Pálssonar (2012, cxvii) um að slíkt væri dæmt til að mistakast og orð Anhthonys Faulkes (1998: xxxxv) um að engum hafi tekist að lýsa á fullnægjandi hátt sambandi milli handrita Snorra Eddu. Hér verður reifað efni nýlegra greina, þar á meðal eftir Lasse Mårtensson (2010) um hið tvískipta Háttatal í Uppsalabók, eftir Hauk Þorgeirsson (2017) um ættartré handrita Snorra Eddu og eftir sama höfund (2020) um textagildi pappírsblaða í Wormsbók. Síðast en ekki síst er litið á grein eftir Bjarna Gunnar Ásgeirsson (2020) um nýtt ættartré Háttatals.
Bjarni G. Ásgeirsson (2020). „A new stemma of Háttatal“. Opuscula 18.
Faulkes, Anthony, útg. (1998). Snorri Sturluson, Edda. Skáldskaparmál. London.
Haukur Þorgeirsson (2017). „A stemmatic analysis of the Prose Edda“. Saga-Book 41.
Haukur Þorgeirsson (2020). „Pappírsblöð Sveins Jónssonar í Wormsbók“. Opuscula 18.
Heimir Pálsson, útg. þýðandi Anthony Faulkes (2012). The Uppsala Edda : DG 11 4to. London.
Mårtensson, Lasse (2010). „Översikten över Háttatal i DG 11 4to – dess funktion och ursprung“. Gripla 21.