Vinnuvísindin, tíminn og mótun velferðarsamfélagsins

Í Árnagarði 101 laugardaginn 11. mars kl. 13:00-14:30. Smellið hér til að fylgjast með í streymi.

Mikil deigla var í hagræðingar- og stjórnunarfræðum á fyrrihluta tuttugustu aldar. Fyrirkomulag vinnu, skipulagsheilda og fjöldasamtaka tók mið af kenningum sem kenndar eru við hagræðingu og vísindalega stjórnun, en þeir hugmyndastraumar mótuðu einnig samfélagið í heild, neyslusamfélagið og velferðarsamfélagið, sem tekur á sig mynd í takt við framleiðsluaukningu og stöðlun vinnunnar. Í málstofunni eru vinnuvísindin skoðuð í hugmyndasögulegu ljósi sem og áhrif þeirra á þróun velferðarsamfélagsins á síðustu öld. 

Fyrirlestrar

Kenningum um stjórnun og skipulag vinnu fylgja forsendur um eðli tíma og upplifun mannsins af tíma. Tímahugtakið fær þó oftast lítið rými í umfjöllun innnan kenninganna sjálfra eða í umsögn eða endursögn, enda er frekar um forsendur hugsunarinnar að ræða frekar en að henni sé ætlað að segja nokkuð „nýtt“ um tíma eða upplifun af tíma. Hugmyndir um tímann eru þannig í bakgrunni, það sem er gefið, forsenda frekar en inntak kenningarinnar. 

Guðmundur Finnbogason (1873−1944) heimspekingur og sálfræðingur er mögulega fyrstur til þess að fjalla um stjórnunarfræði í nútímaskilningi þess fræðasviðs á íslensku. Bylgja vísindalegrar stjórnunar og tengdra rannsókna er þá að rísa í Bandaríkjunum og Guðmundur kynnir hugmyndirnar nánast á sama tíma á Íslandi. Bækurnar Vit og strit árið 1915 og Vinnan árið 1917 fjalla báðar um vinnusálfræði, eða vinnuvísindi eins og Guðmundur  kallar viðfangsefnið, en þær eru þó ólíkar að ýmsu leyti. Sú fyrri Vit og strit, fjallar að stærstum hluta um hugmyndir bandarísku verkfræðinganna Frederick Winslow Taylors og Frank Gilbreths um vinnutímamælingar og „vísindalega stjórnun“. Seinni bókin, Vinnan, er almennari í efnistökum og heildrænni í þeirri merkingu að þar er umhverfi vinnu mannsins lýst með tilliti til fleiri þátta en í þeirri fyrri og í víðara samhengi heimspeki Guðmundar og vinnusálfræði.

Í erindinu er skoðað hvernig ólík tímahugtök, eða afstaða til tíma, geta mótað kenningar um vinnuskipulag og stjórnun. Dæmi er tekið af vinnuvísindakenningum Guðmundar með viðkomu í kenningum Henry James og Henri Bergson um reyndan tíma, auk samtímagagnrýni og kenninga um þróun stjórnunarhugsunar. Sérstakur gaumur er gefinn að náttúrutíma og takti, en sjá má af efnistökum Guðmundar að hann er opinn fyrir ólíkum áhrifum eigin reynslu, tæknihyggju og bókmennta í aðferðafræði sinni og hugsun.

Í erindinu er fjallað um hugmyndir fræðimanna um uppruna og eðli sænska velferðarsamfélagsins (folkhemmet) á árunum milli heimsstyrjaldanna og rætur þess í hagræðingarheimspeki, taylorískum hugmyndum um vísindalega stjórnun og fordískri sýn á fjöldaneyslusamfélag.  

Þó margir fræðimenn og samfélagsrýnar utan akademíunnar vilji skýra sænska módelið og velferðarsamfélag eftirstríðsáranna með sænskri sérleið sem teygi sig aftur til fyrri alda og sér-sænskum viðhorfum til jöfnuðar, hafa sagnfræðingar almennt hafnað slíkum kenningum. Rætur velferðarsamfélagsins er fyrst og fremst að finna á millistríðsárunum, og þeim pólítísku og menningarlegu breytingum sem þá gengu yfir.  

Fyrstur til að benda á lykilhlutverk hugmynda um vísindalega stjórnun og hagræðingu í þessu ferli er Leif Lewin, sem færði fyrir því rök í bók sinni Planhushållningsdebatten frá 1967, að aðdragandi og forsendur þess að sænski Sósíaldemókrataflokkurinn gaf hugmyndir um miðstýringu og þjóðnýtingu upp á bátinn fáist aðeins skilin í ljósi hagræðingarheimspekinnar sem festi rætur í Svíþjóð á þriðja og fjórða áratugnum. Í stað áætlunarbúskapar komu hugmyndir um eftirspurnarstjórnun og fínstillt ríkisafskipti á takmörkuðum sviðum sem tryggðu að hagkerfið starfaði við full afköst. Aðrir fræðimenn á borð við Hans De Geer og Anders L. Johanssen hafa síðan varpað nýju ljósi á viðtökur Taylorismans og hvernig afstaða til hagræðingar mótaði afstöðu forystumanna atvinnulífsins, verkalýðsfélaga og stjórnvalda til brennandi spurninga dagsins. Þá hafa fræðimenn á borð við Yvonne Hirdman, Helena Mattsson, Maria Göransdotter og Lisa Brunnström sýnt fram á hvernig Taylorismi og hagræðingarheimspekin umbyltu hugmyndum um heimilið og neytandann.  

Mikið vantar hins vegar upp á að sú mynd sem dregin er upp í verkum þessara fræðimanna sé fullnægjandi, því hún horfir að mestu algerlega framhjá einum mikilvægasta fulltrúa hagræðingarheimspekinnar og vísindalegrar stjórnunar, neytendasamvinnuhreyfingunni. Samhliða því að forystumenn hreyfingarinnar byggðu upp samþætta smásöluverslunarkeðju sem var ekki aðeins ein stærsta fyrirtækjasamsteypa Svíþjóðar, heldur ein stærsta verslunarkeðja Evrópu, settu þeir fram hugmyndir um neyslumenningu sem grundvallaðist ekki aðeins á gildum samvinnuhugsjónarinnar um jöfnuð og efnahagslegt réttlæti, heldur fordískri sýn á fjöldaneyslu. Með því að skoða þróun stjórnunarhugmynda forsprakka hreyfingarinnar, sérstaklega Albin Johansson og Anders Örne, en einnig Mauritz Bonow, Axel Gjöres og Thorsten Odhe, og hvernig hún tók á sig æ skýrari fordíska drætti, fæst skýrari mynd af því hvernig þær hugmyndir sem Lewin, Hirdman og aðrir hafa fjallað um, skutu rótum og urðu loks burðarbitar folkhemmet.