„Yfrið hef ég efni í nóg að yrkja margt af slíku“ – Sitthvað um rímur og rímnaskáld
Í Árnagarði 304 laugardaginn 11. mars kl. 10:00-14:30. Smellið hér til að fylgjast með í streymi.
Í málstofunni eru sex erindi sem fjalla um rímur frá ýmsum sjónarhornum. Meðal annars er rætt um efni rímna og efnismeðferð rímnaskálda, skáldamál og eddulist skáldanna og tilfinningahita þeirra sem birtist í mansöngvum, varðveislu rímna og flutningshefð. Af nógu er að taka enda margt enn órætt um rímur.
Málstofan er tvískipt og verða fjórir fyrirlestrar fyrir hádegi og tveir eftir hádegi.
Fyrirlestrar
Séra Guðmundur Erlendsson í Felli í Sléttuhlíð (um 1595−1670) sigldi aldrei til útlanda svo vitað sé. Þó birtist mikill áhugi á samtímaviðburðum erlendis í kvæðum hans, einkum þeim sem fjalla um hörmungar eða hamfarir. Í fyrirlestrinum fjalla ég um nokkur kvæði af þessu tagi: Kvæði um eyðingu Magdeborgar 1631, kvæði um jarðskjálfta á Ítalíu 1627 og þrjú kvæði um aftöku Karls I Englandskonungs 1649. Enn fremur skoða ég Ræningjarímur séra Guðmundar sem fjalla um hörmungar innanlands, þ.e. Tyrkjaránið 1627, í þessu samhengi. Ég mun túlka kvæðin sem fréttaballöður að erlendri fyrirmynd; kvæðagrein sem hefur ekki verið fjallað um í íslenskri bókmenntasögu, og greina áhrif þeirra á rímur Guðmundar.
Kenningar í rímum geta orðið lifandi myndhverfingar þar sem lesendur eða áheyrendur sjá fyrir sér heildstæða líkingu. Merki um þetta má finna þegar skáldin láta viðeigandi sagnorð fylgja stofnorðum kenninganna. Til dæmis er „kólgu hestur“ skipskenning en hér og hvar koma fyrir vísuorð eins og „kólgu hestum ríða“ (Indriða rímur) og er þá greinilegt að hesturinn breytist ekki fullkomlega í skip þótt hann sé kenndur við kólgu heldur má enn hugsa sér að honum sé riðið.
Á hinn bóginn má finna setningar eins og „fetla hængurinn fríði söng“ (Þóris rímur) þar sem hjákátlegt verður að tengja saman sögnina og grunnmerkingu stofnorðsins – „fetla hængur“ er sverð og segja má að sverð syngi en hængur er ekki söngdýr.
Í erindinu verða tekin saman ýmis merki um lifandi notkun myndmáls í kenningum og bent á helstu kenningaflokka þar sem slíkt kemur fyrir. Meðal markmiða athugunarinnar er að verða einhverju nær um smekk og fegurðarskyn rímnaskáldanna.
Rímur eru bókmenntir, ortar og skráðar niður í handrit og þar með bókmenntaleg afurð. Þrátt fyrir það finnast í rímnahefðinni fjölmörg tilbrigði; orðamunur getur verið mikill milli handrita, erindaskipan færst til og vísum oft sleppt eða bætt við. Mikið af þeim mismun milli handrita má rekja til afritunar, en ekki má gleyma að athuga til hlítar áhrif munnlegs flutnings í varðveislu rímna og mögulegt samspil munnlegrar geymdar og afritunar í varðveislusögu rímna. Hér verður fjallað um munnlega hefð/geymd í rímnahefð og dæmi tekið af Ölvis rímum sterka sem innihalda margar vísbendingar um samspil munnmennta og bókmennta.
Í fyrirlestrinum verður fjallað um mansöngva rímna og sér í lagi svokallaðar raunarollur þar sem rakin eru dæmi um ástarraunir þekktra söguhetja, svo sem Gunnlaugs ormstungu, Skáld-Helga, Sigurðar Fáfnisbana og Tristrams. Í slíkum rollum kemur víða fram að rímnaskáldin sjálf hafi, rétt eins og söguhetjurnar, mátt þola ástarraunir, og af þeim sökum hafi þau leitað huggunar í sögum þeirra; þau hafi, með öðrum orðum, náð að gleyma sér og draga úr eigin vanlíðan með því að yrkja um sorgir annarra. Í fyrirlestrinum verða frásagnir mansöngvanna bornar saman með það fyrir augum að varpa frekara ljósi á þessa tilteknu hefð, raunarollurnar, sem og vinsældir einstakra söguhetja. Að því loknu verður athyglinni beint að einni söguhetju sérstaklega, Sörla, sem er víða nefndur, ekki einungis í mansöngvum rímna, heldur einnig í Málsháttakvæði frá 13. öld. Með samanburði verður leitast við að varpa ljósi á Sörla og stöðu hans innan íslenskra miðaldabókmennta, jafnt sem uppruna hans í gelískri sagnahefð.
Í yfirgnæfandi meirihluta rímna frá öllum tímum yrkja rímnaskáld formála fyrir rímum sínum þar sem skáldamjöðurinn er í öndvegi. Þegar mansöngvar eru fyrir rímum er mjöðurinn gjarnan nefndur í upphafi og svo jafnvel aftur þar sem mansöng lýkur og ríman tekur við. Formálsorðin eru ákaflega formúlukennd en um leið frumleg því skáldin virðast hafa reynt sitt ítrasta til að setja saman nýjar kenningar um mjöðinn og innblástur sinn. Gjarnan er rímunni svo lokað með niðurlagserindi þar sem kemur fyrir samsvarandi kenning og notuð var í formálanum.
Í erindinu eru formálar og formúlur íslenskra rímnaskálda skoðaðir og hlutverk þeirra í formgerð og flutningsmáta rímna rætt.
Rímur teljast veraldlegur kveðskapur enda sú kveðskapargrein sem var siðbótarfrömuðum og öðrum umbótamönnum mestur þyrnir í augum. Rímur ortar út af sögum Biblíunnar voru vissulega til en ekki taldar hafa verið sérlega vinsælar. Ekki er vitað hvenær Hallgrímur Pétursson (1614–1674) orti Rímur af Lykla-Pétri og Magelónu en fræðimenn hafa verið sammála um að það hljóti hann að hafa gert áður en hann varð prestur. Grímur Thomsen sagði t.d. „Enginn þekkir þar sálmaskáldið sem síðar varð“. Rímurnar byggja á sögunni af hinni fögru Magelónu eða Die schön Magelone, sem er að sumra mati „herfilegur reyfari“. Þegar hún var prentuð í Þýskalandi 1548 fylgdi þó formáli eftir góðan vin Lúthers sem mælti eindregið með henni. Í erindinu verður fjallað um birtingarmyndir sögunnar og hvernig efnið sveiflast á mörkum þess trúarlega og veraldlega, þess heilaga og vanheilaga.